Norðmenn fylgjast vel með

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 hefur verið við síldveiðar í lögsögu Svalbarða undanfarinn hálfa mánuð eða frá mánudagskvöldinu 21. júní s.l.  Á einni viku hafa fulltrúar norsku Landhelgisgæslunnar komið þrisvar sinnum um borð til eftirlits.  Verið er að skoða allar skýrslur, aflann og meðferð hans, vinnsluna og einnig löndunina og hefur eftirlitið verið athugasemdalaust.

Landað hefur verið þrisvar sinnum úr Vilhelm um borð í flutningaskip á þessum tíma, samtals 1.600 tonnum af frosnum síldarflökum og hefur norska Landhelgisgæslan komið tvisvar um borð í flutningaskipið til eftirlits.
sjolondun_h
Myndina tóku skipverjar á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 af sjólöndun í júní á síðasta ári


Að sögn Guðmundar Þ. Jónssonar skipstjóra er aflinn samtals orðinn um 6-7 þúsund tonn af norsk-íslensku síldinni á þessari vertíð, þar af 3.200 tonn í þessari veiðiferð.  Síldin er flökuð og fryst um borð og afurðunum raðað á bretti, sem eru síðan hífð á milli skipa.   Guðmundur segir mikið hagræði vera af þessu þar sem um 800 mílna sigling sé til Íslands og um viku taki að sigla heim, landa og sigla aftur á miðin.  Afurðirnar eru líka mun nær markaðnum sem er bæði austur og vestur Evrópa.  Vel hefur viðrað til veiða á svæðinu og landanirnar gengið vel.