Norma Mary landar fullfermi

Norma Mary við bryggju í Reykjavík í morgun.
Norma Mary við bryggju í Reykjavík í morgun.

Norma Mary A110 (áður Akureyrin EA) kom til Reykjavíkur í dag, með fullfermi af grálúðu, eftir 40 daga veiðiferð.  Samtals verður landað úr skipinu 365 tonnum af frystum afurðum eða sem svarar 427 tonna afla upp úr sjó.  Aflaverðmætið er áætlað um 100 milljónir króna.   Skipið var að veiðum við Grænland, byrjaði á Fylkismiðum og endaði á Heimalandshrygg og að sögn Ásgeirs Pálssonar skipstjóra gekk veiðiferðin vel.  Hann sagði veðrið hafa verið ágætt á þessum slóðum, nokkuð hafi verið um hafís en var hann ekki til teljandi vandræða.  Heimkoman var sérstaklega ánægjuleg fyrir Ásgeir þar sem afi hans Ásgeir Guðbjartsson skipstjóri og amma Sigríður Brynjólfsdóttir komu til að taka á móti honum í morgun. "Ég hef alltaf litið upp til afa og er stoltur af því að geta glatt gamla manninn með góðri veiðiferð", sagði Ásgeir Pálsson skipstjóri.
Norma Mary er gerð út af dótturfélagi Samherja hf. Onward Fishing Company og eru 17 menn í áhöfn.

asgeirogasgeir
Ásgeir Guðbjartsson og Ásgeir Pálsson skipstjórar í brúnni á Normu Mary í morgun

Myndir:Eggert/mbl