Björg EA 7 nýjasta skipið í flota Samherja lagðist að bryggju á Akureyri í gær 31.október en skipið lagði af stað frá Tyrklandi 15. október. Skipið var smíðað í Cemre-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, er 2.080 brúttó tonn að stærð, 62,49 metra langt og 13,54 metrar á breidd. Björg er þriðja skipið sem Samherji fær afhent á árinu en áður voru komin systur skipin Kaldbakur EA 1 og Björgúlfur EA 312. Skipin voru hönnuð af verkfræðistofunni Skipatækni og Bárði Hafsteinssyni í samvinnu við eigendur.
Guðmundur Freyr Guðmundsson er skipstjóri á Björgu EA og sigldi hann skipinu heim. Með honum voru Árni R. Jóhannesson 1. stýrimaður og Kjartan Vilbergsson yfirvélstjóri. Fyrir liggur að setja aðgerðar- og kælibúnað um borð í skipið og reiknað er með að það fari á veiðar upp úr áramótum.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja tekur við og tryggir landfestar
Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri Bjargar EA 7 býður Björgu Finnbogadóttur móður Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja að prófa skipstjórastólinn.
Hluti stjórnar Samherja við heimkomuna. Frá vinstri: Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri og stjórnarmaður, Eiríkur S. Jóhannsson formaður stjórnar, Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarkona, Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri Bjargar EA, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Óskar Magnússon stjórnarmaður (sem var háseti um borð á heimleiðinni). Á myndina vantar Helgu Steinunni Guðmundsdóttur stjórnarkonu.
Kjartan Vilbergsson vélstjóri, Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri og Árni R. Jóhannesson 1.stýrimaður á Björgu EA