Nýr þáttur um leigu á aflaheimildum í Namibíu

Settar hafa verið fram ásakanir um að félög tengd Samherja í Namibíu hafi leigt aflaheimildir í Namibíu á verði sem var langt undir markaðsverði. Athugun sem Samherji lét gera á verðlagningu kvóta í samningum ótengdra aðila staðfestir að félög tengd Samherja greiddu markaðsverð fyrir kvótann. Þetta er til umfjöllunar í nýjum þætti sem Samherji hefur látið framleiða.

Á meðan félög tengd Samherja voru starfandi í Namibíu leigðu þau aflaheimildir af einkaaðilum, eins og samstarfsfélögunum svokölluðu og fyrirtækinu Namgomar sem fékk úthlutað aflaheimildum á grundvelli samnings um veiðar milli Angóla og Namibíu. Þá leigðu þau jafnframt aflaheimildir af ríkisútgerðinni Fishcor.

Í þættinum Kveik, sem var sýndur í Ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019, var fullyrt að félög tengd Samherja í Namibíu hafi leigt kvóta „undir markaðsverði“ jafnvel þótt allur kostnaður hafi verið tekinn saman. Þá var fullyrt að félög tengd Samherja hafi leigt kvóta af namibísku ríkisútgerðinni Fishcor á verði sem var tuttugu prósent lægra en það sem önnur útgerðarfyrirtæki þurftu að greiða. Eru þessar ásakanir um leigu á aflaheimildum undir markaðsverði nátengdar ásökunum um að félög tengd Samherja hafi greitt mútur í Namibíu.

Eins og kom fram í fréttatilkynningu Samherja síðastliðinn föstudag lét Samherji gera sérstaka athugun á verðlagningu á þeim aflaheimildum sem félög tengd Samherja leigðu á meðan þau ráku starfsemi í Namibíu. Leiddi samanburður á samningum í ljós að félögin greiddu markaðsverð fyrir þær aflaheimildir sem þau leigðu. Var þetta niðurstaðan bæði þegar samningar við Namgomar og Fishcor voru bornir saman við aðra aðila á einkamarkaði en einnig þegar skoðaðir voru samningar ótengdra útgerðarfyrirtækja við namibíska aðila.

Í nýjum þætti sem Samherji hefur látið framleiða er fjallað um þessar ásakanir um leigu á aflaheimildum undir markaðsverði. „Það er alveg ljóst út úr okkar rannsóknum að Samherji var að greiða að minnsta kosti sambærilegt verð og aðrar útgerðir í Namibíu,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja. 

Hægt er að nálgast þáttinn hér.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is