Á morgun laugardag kl. 11 verður vígður formlega nýr göngustígur í Naustaborgum, nyrst í landi Kjarnaskógar. Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur haft veg og vanda af því að búa stíginn til fyrir styrk frá Samherja hf. Þessi afhending markar lokin á styrkveitingum ársins til eflingar íþróttastarfi barna og unglinga og átakinu "Hreyfing og útivist" ,sem hrint var af stað í desember sl.
Nýji göngustígurinn í Naustaborgum tengist núverandi stíg á tveimur stöðum og myndar þannig c.a. 2 km hring í fjölbreyttu landslagi. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. sagði í ræðu sinni er tilkynnt var um fjárstyrkinn m.a. "Það sem við fáum út úr hreyfingu og útivist er aldrei ofmetið. Við Akureyringar erum ótrúlega lánsamir að eiga þetta frábæra útivistarsvæði Kjarnaskóg, innan bæjarmarkanna. Við þurfum að halda áfram að efla þetta svæði og gera það enn fjölbreyttara og fjölskylduvænna en það nú er."
Starfsmenn Samherja og aðrir bæjarbúar eru hvattir til að koma með fjölskylduna, í gönguskónum og taka þátt í að vígja þessa skemmtilegu viðbót við útivistarmöguleika í landi Kjarnaskógar. Göngutúrinn tekur um hálftíma.
Staðsetning: Naustaborgir (sunnan við golfvöllinn), við göngustíginn sem liggur yfir í Kjarnaskóg. Ekið upp Sómatún frá Kjarnagötu að bílastæðinu. Bílastæðið er að vísu lítið eins og er en hægt er að leggja bílum hvar sem er í Naustahverfi og ganga að skógræktargirðingunni. Athöfnin fer fram þar sem nýji stígurinn kvíslast út frá aðalstígnum um 150 metra innan við hliðið.