Skip sem verið hefur í smíði fyrir UK Fisheries var sjósett hjá Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi í gær 14.maí. UK Fisheries er breskt félag í eigu dótturfélags Samherja til helminga á móti Parlevliet & Van der Plas í Hollandi. Það var Nigel Atkins framkvæmdastjóri UK Fisheries sem klippti á borðann að viðstöddum helstu eigendum félagsins.
Við hjá Samherja erum stolt af því að íslenskur iðnaður kemur til með að njóta góðs af þessari nýsmíði, þar sem mörg íslensk fyrirtæki hafa gert samninga um búnað í skipið. Helst má nefna að fiskvinnsluvélar koma frá Vélfag í Ólafsfirði, siglingatæki frá Brimrún í Reykjavík, spilbúnaður frá Naust Marine, vinnsludekkið er smíðað í Slippnum á Akureyri og frystibúnaður í skipið er frá Kælismiðjunni Frost. Að auki er gert ráð fyrir að Íslendingar fari til Tyrklands til að koma búnaðinum fyrir í skipinu.
Skipið er 86m langt og 16 m breitt og heitir Kirkella H7. Það verður afhent á haustmánuðum og kemur til með að verða gert út frá Hull á bolfiskveiðar. Myndband af sjósetningunni sést hér á heimasíðu Tersan skipasmíðastöðvarinnar.
Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri DFFU, Nigel Atkins framkvæmdastjóri UK Fisheries,
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri
útgerðarsviðs Samherja.