Nýtt og glæsilegt húsnæði tekið í notkun hjá ÚA

Í nóvember sl.hófst starfssemi í nýju og glæsilegu húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa. Eitt ár leið frá því ákveðið var að rífa gamla bragga og reisa hið nýja húsnæði, þar til það var tilbúið til notkunar.  „Nýja húsnæðið er mjög góð viðbót við vinnsluna hér. Húsnæðið er hannað til að mæta ýtrustu kröfum fyrir framtíðar fiskvinnslu. Það er hátt til lofts og vítt til veggja.  Í húsinu eru nýjar sjálfvirkar pökkunarlínur fyrir bæði ferskar og frosnar afurðir auk hitastýrðs afgreiðslurýmis sem bættir vörumeðhöndlun til muna. Það er mikið af nýjum tækjabúnaði sem tekur tíma að stilla saman og læra á, en starfsfólkið hefur verið mjög jákvætt og ákveðið í að láta hlutina ganga," segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.

UA_nytt_hus_gestirÞann 20.desember var styrkveitingarathöfn Samherjasjóðsins haldin í nýja húsinu og bæjarbúum var gefinn kostur á að skoða nýju vinnsluna. Við það tilefni sagðist Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja á margan hátt sáttur við árið sem er að líða. „Með þessari nýju byggingu, samhliða breytingum á vinnslunni, förum við í stórum skrefum inn í breytta framtíð þar sem möguleikar okkar til að þjóna viðskiptavinum okkar með fjölbreyttari afurðir eru orðnir mun meiri en áður.

UA_nytt_hus_robotEitt af markmiðum þessara breytinga var að fækka störfum sem eru líkamlega erfið og auka öryggi og velferð starfsfólksins sem hjá okkur vinnur. Það er mat okkar að vel hafi tekist til. Með þessum breytingum höldum við áfram að vera í forystu í fiskveiðum og vinnslu á hvítfiski, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum.“ Hjá ÚA starfa um150 manns og mikil verðmætasköpun á sér stað í fiskvinnslunni.

Þorsteinn Már sagði Samherja flytja út meiri verðmæti frá landvinnslu í ár en nokkru sinni áður. „Þegar við hófum landvinnslu á þorski á Dalvík árið 2000 var tekið á móti um 4.500 tonnum af fiski á ári. Við tökum nú á móti um 30.000 tonnum á ári hér við Eyjafjörð.“ Þá  sagðist Þorsteinn Már sérstaklega ánægður með að vinnslan í nýja húsinu hafi verið hönnuð af íslenskum tæknifyrirtækjum „þar sem íslenskt hugvit; þekking og reynsla þeirra og starfsmanna okkar, sem hafa verið áratugi í sjávarútvegi, nýtist. Saman tel ég að við séum búin að hanna og byggja fullkomna fiskvinnslu sem eftir verður tekið í langan tíma“, sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.

UA_nytt_hus_vinnsla

UA_nytt_hus_vinnslusalur

UA_nytt_hus_pokkun

UA_nytt_hus_robotar

UA_nytt_hus_pokkun

Myndband sem sýnir byggingarsöguna

Umfjöllun N4 um nýja húsnæðið 

UA_nytt_hus_ur_lofti