Það er ekki á hverjum degi sem Akureyringar geta fagnað nýjum skipum er þau koma til heimahafnar í fyrsta sinn. Það gerðist síðast árið 1992 þegar Baldvin Þorsteinsson EA 10, frystitogari Samherja, kom heim. Næsta nýsmíði Akureyringa þar á undan var Oddeyrin EA 210 en smíði hennar lauk í árslok 1986. Hún var smíðuð hjá Slippstöðinni og var í eigu Oddeyrar hf., dótturfélags Samherja. Þá höfðu nýsmíðuð skip ekki komið til heimahafnar á Akureyri frá því að ÚA keypti Harðbak og Kaldbak um miðjan 8. áratuginn.
Glæsilegt skip
Hið nýja skip Samherja er eitt hið stærsta og glæsilegasta í flotanum, tæplega 80 metra langt og 16 metra breitt með aðalvél sem er 5.500 kílówött. Það getur hvort heldur sem er veitt í nót eða troll og um borð er fullkominn búnaður til frystingar og vinnslu á bolfiski, síld og kolmunna. Frystigeta afla í vinnslu er 120 tonn á sólarhring og burðargeta afla til bræðslu er um 2.500 tonn. Frystilestir skipsins rúma um 650 tonn af frosnum afla og um 1.200 tonn af fiski í kælitönkum. Íbúðir eru fyrir 28 manna áhöfn. Í reynslusiglingu var hraði skipsins 18,2 sjómílur og togkraftur reyndist 90 tonn við fullt átak. Áætlaður heildarkostnaður við nýsmíðina er um 1.500 milljónir króna.
Fjölþjóðlegt verkefni
Frumhönnun skipsins var í höndum starfsmanna Samherja og Skipatækni hf. en Teiknistofa Karls G. Þorleifssonar á Akureyri annaðist hönnun á vinnsludekki ofl. Skipasmíðastöðin Stocznia Polnocna í Gdansk í Póllandi annaðist smíði skrokksins og hófst verkið um mitt síðasta ár. Þar var skipinu hleypt af stokkunum í mars sl. Kleven Verft AS í Ulsteinvik Noregi annaðist framhald smíðinnar og þar hafa menn unnið hörðum höndum síðustu mánuði við að ljúka verkinu. Auk þess hefur hópur manna á vegum Samherja unnið við lokafrágang skipsins á undanförnum vikum.
Skipstjórar nýsmíðaskipsins verða tveir, þeir Arngrímur Brynjólfsson og Sturla Einarsson. Arngrímur var áður skipstjóri á Þorsteini EA og Baldvin Þorsteinssyni EA en Sturla var síðast skipstjóri á Akureyrinni EA.
Áætlað er að skipið haldi í sína fyrstu veiðiferð í lok næstu viku.
Fréttatilkynning frá Samherja, föstudaginn 1. september 2000. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460 9000.