Nýtt skip Samherja hf. kemur til Akureyrar á sunnudaginn

Sunnudaginn 3. september nk. kemur til Akureyrar nýja fjölveiðiskipið sem Samherji hf. hefur verið með í smíðum í Noregi. Skipið leggst að Togarabryggjunni og kl. 15 verður athöfn þar sem skipinu verður gefið nafn. Samherji býður bæjarbúum að fylgjast með athöfninni og að henni lokinni verður skipið opið almenningi til skoðunar. Ekki er að efa að marga fýsir að skoða þetta nýja skip auk þess sem frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson EA 10 mun liggja við bryggju og vera opinn almenningi.

Það er ekki á hverjum degi sem Akureyringar geta fagnað nýjum skipum er þau koma til heimahafnar í fyrsta sinn. Það gerðist síðast árið 1992 þegar Baldvin Þorsteinsson EA 10, frystitogari Samherja, kom heim. Næsta nýsmíði Akureyringa þar á undan var Oddeyrin EA 210 en smíði hennar lauk í árslok 1986. Hún var smíðuð hjá Slippstöðinni og var í eigu Oddeyrar hf., dótturfélags Samherja. Þá höfðu nýsmíðuð skip ekki komið til heimahafnar á Akureyri frá því að ÚA keypti Harðbak og Kaldbak um miðjan 8. áratuginn.

Glæsilegt skip

Hið nýja skip Samherja er eitt hið stærsta og glæsilegasta í flotanum, tæplega 80 metra langt og 16 metra breitt með aðalvél sem er 5.500 kílówött. Það getur hvort heldur sem er veitt í nót eða troll og um borð er fullkominn búnaður til frystingar og vinnslu á bolfiski, síld og kolmunna. Frystigeta afla í vinnslu er 120 tonn á sólarhring og burðargeta afla til bræðslu er um 2.500 tonn. Frystilestir skipsins rúma um 650 tonn af frosnum afla og um 1.200 tonn af fiski í kælitönkum. Íbúðir eru fyrir 28 manna áhöfn. Í reynslusiglingu var hraði skipsins 18,2 sjómílur og togkraftur reyndist 90 tonn við fullt átak. Áætlaður heildarkostnaður við nýsmíðina er um 1.500 milljónir króna.

Fjölþjóðlegt verkefni

Frumhönnun skipsins var í höndum starfsmanna Samherja og Skipatækni hf. en Teiknistofa Karls G. Þorleifssonar á Akureyri annaðist hönnun á vinnsludekki ofl. Skipasmíðastöðin Stocznia Polnocna í Gdansk í Póllandi annaðist smíði skrokksins og hófst verkið um mitt síðasta ár. Þar var skipinu hleypt af stokkunum í mars sl. Kleven Verft AS í Ulsteinvik Noregi annaðist framhald smíðinnar og þar hafa menn unnið hörðum höndum síðustu mánuði við að ljúka verkinu. Auk þess hefur hópur manna á vegum Samherja unnið við lokafrágang skipsins á undanförnum vikum.

Skipstjórar nýsmíðaskipsins verða tveir, þeir Arngrímur Brynjólfsson og Sturla Einarsson. Arngrímur var áður skipstjóri á Þorsteini EA og Baldvin Þorsteinssyni EA en Sturla var síðast skipstjóri á Akureyrinni EA.

Áætlað er að skipið haldi í sína fyrstu veiðiferð í lok næstu viku.

Fréttatilkynning frá Samherja, föstudaginn 1. september 2000. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460 9000.