Nýtt sölufélag Samherja

Stofnað hefur verið félag um sölustarfsemi Samherja hf. Félagið heitir Ice Fresh Seafood og er að fullu í eigu Samherja. Með stofnun félagsins er verið að skerpa á áherslum í sölumálum og auka þjónustu bæði við birgja sem og viðskiptavini. Ice Fresh Seafood mun sem fyrr einbeita sér að sölu afurða Samherja og dótturfélaga þess. Ennfremur mun nýja félagið halda áfram, - og auka, sölu fyrir aðra framleiðendur. Á undanförnum árum hefur Samherji náð góðum árangri í markaðssetningu á ýmsum sjávarafurðum um víða veröld. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í sölu á frosnum og ferskum bolfiskafurðum á Bretlandsmarkaði og á mörkuðum meginlands Evrópu. Uppbygging hefur verið mikil í sölu uppsjávarafurða til austur - Evrópulanda, meðal annars til Úkraínu, Hvíta-Rússlands, Póllands og Rússlands. Sala eldisafurða hefur vaxið mikið á Evrópu- og sérstaklega á Ameríkumarkaði. Asía hefur verið og verður áfram einn mikilvægasti markaðurinn fyrir afurðir félagsins.

Á þessum trausta grunni viðskiptasambanda og markaðsþekkingar mun Ice Fresh Seafood byggja starfssemi sína og halda áfram frekari uppbyggingu og markaðssókn.

Gert er ráð fyrir að Ice Fresh Seafood selji yfir 100.000 tonn af afurðum næsta árið og að velta félagsins verði um 20 milljarðar.

Starfsmannahald verður óbreytt frá því sem nú er hjá söludeild Samherja. Stjórnendur eru:

Gústaf Baldvinsson: Framkvæmdastjóri
Steinn Símonarson: Fjármálastjóri
Birgir Össurarson: Eldisafurðir og rækja, yfirmaður söluskrifstofunnar á Akureyri
Hlynur Veigarsson: Sjófrystar bolfiskafurðir, yfirmaður skrifstofunnar í Reykjavík
Jónas Baldursson: Landfrystar og ferskar afurðir, er með aðsetur í Englandi
Óli Björn Ólafsson: Uppsjávarafurðir, er með aðsetur á Akureyri
Valur Ásmundsson: Uppsjávarafurðir, er með aðsetur í Póllandi

Ice Fresh Seafood tók til starfa 1. júlí s.l. og frá þeim tíma eru reikningar gerðir í nafni hins nýja félags. Að öðru leyti verða viðskiptavinir ekki varir við breytingar á þeim samskiptum sem hingað til hafa verið við Samherja.