Öflugt félagslíf hjá Samherja á Dalvík

Fjölskyldudagur Fjörfisks, starfsmannafélags Samherja á Dalvík, fór fram á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli á dögunum. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem sem Fjörfiskur leigir skíðasvæðið í þrjár klukkustundir og félagsmönnum gefst kostur á að mæta með mökum, börnum og barnabörnum.

Þeir sem ekki áttu skíðabúnað fengu hann lánaðan sér að kostnaðarlausu. Að auki var boðið upp á vöfflur og heitt kakó. Að þessu sinni mættu um 80 manns en þetta er í fimmta sinn sem starfsmannafélagið Fjörfiskur heldur fjölskyldudag að vetri til.

Nokkuð öflugt félagslíf er hjá Samherja á Dalvík en Fjörfiskur skipuleggur fjölmarga viðburði fyrir starfsmenn sem dreifast jafnt yfir árið. Hinn 4. apríl næstkomandi verður sérstakt fjölþjóðakvöld og verður tælenskt þema að þessu sinni.

„Á þessum fjölþjóðakvöldum fáum við við félagsmenn til að elda rétti frá sínum heimalöndum og bjóðum svo til veislu á kaffistofu frystihússins. Þau sem sjá um matinn eru með stutta kynningu frá sínu heimalandi og sjá svo um skemmtiatriði,“ segir Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður Fjörfisks. Ragnheiður segir að fjölþjóðakvöldin hafi verið reglulegur viðburður undanfarin fimm ár og þau séu haldin tvisvar til þrisvar á ári. Auk fjölþjóðakvölds með tælensku þema sé haldið pólskt kvöld, filippseyskt, lettneskt og rússneskt saman og svo íslenskt kvöld. Ragnheiður segir þessa viðburði algjörlega nauðsynlega á fjölþjóðlegum vinnustað eins og hjá Samherja á Dalvík. Störfin séu sum hver þess eðlis að ekki séu mikil samskipti á vinnutíma og því geri það mikið fyrir starfsmenn að hittast reglulega utan vinnu.

Félagsmenn í Fjörfisk ætla á tónleika saman í apríl. Þá stendur Fjörfiskur fyrir menningarferð til Reykjavíkur í maí þar sem gist verður í tvær nætur og í júní næstkomandi verður farið til Skagafjarðar í flúðasiglingu (rafting). Auk viðburða innanlands fara starfsmenn Samherja á Dalvík til útlanda saman annað hvert ár og eru ferðirnar niðurgreiddar af Fjörfisk.

Sjá hér myndir frá fjölskyldudeginum í Böggvisstaðafjalli.

 Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik

Fjor_a_Dalvik