Eftir 50 ára farsælan feril til sjós, í 40 ár sem skipstjóri og þar af tæp 30 ár á skipum Samherja og tengdra félaga, segist Brynjólfur Oddsson hafa farið í sína síðustu veiðiferð sem fastráðinn skipstjóri. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, á von á því að það verði farin að lágmarki ein veiðiferð enn sem verði Brynjólfi örugglega eftirminnileg.
Það var á þessum degi árið 1970 sem Brynjólfur Oddsson, skipstjóri hjá Samherja, hóf feril sinn til sjós sem hálfdrættingur á Snæfellinu EA 740. Á starfsferli sem spannar hálfa öld hefur Brynjólfur, eða Billó eins og hann er yfirleitt kallaður, sinnt öllum störfum um borð, hefur siglt víða og upplifað margþættar breytingar á sjávarútvegi sem atvinnugrein.
Brynjólfur er fæddur 21. desember 1955 á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri, nálægt Kötlu. Hann flutti ungur að aldri í Kópavog ásamt foreldrum sínum, Oddi Brynjólfssyni og Elínu Jakobsdóttur, en var í sveit á Þykkvabæjarklaustri öll sumur, allt fram á unglingsár. Örlög hans voru hins vegar ráðin þegar hann fór snemma á táningsárum til Dalvíkur, setti stefnuna á sjóinn og hóf feril sinn sem sjómaður aðeins 14 ára gamall. Þá fór hann í sinn fyrsta túr á Snæfellinu sem var gert út frá Akureyri en Matthías Jakobsson, móðurbróðir Brynjólfs, var skipstjóri á skipinu.
„Ég hélt alltaf að ég yrði bóndi þangað til móðir mín ákvað að senda mig á sjóinn. Mér fannst sjómennskan rólegt starf í samanburði við þá vinnu sem ég sinnti í sveit á sumrin. Að mörgu leyti var þetta þægilegri vinna. Þetta var meira skorpuvinna og frí á milli. Þetta breyttist svo með frystitogurunum en þá var unnið í lengri samfelldum lotum,“ segir Brynjólfur. Þegar hann var aðeins 16 ára hann orðinn svokallaður afturhleramaður á síðutogaranum Jóni Þorlákssyni. Þá hafði hann tvo aðstoðarmenn. „Að vera orðinn afturhlera/poka/netamaður 16 ára gamall var í raun sá titill sem mér hefur þótt vænst um á ferlinum,“ segir Brynjólfur. Togarar veiða með trolli og þessi tegund togara tók veiðarfærið um borð á hlið skipsins sem er yfirleitt nefnd síða, þess vegna voru þeir kallaðir síðutogarar. Á síðutogurunum var fisknum yfirleitt landað á Íslandi en þessir togarar sigldu einnig með ferskan ísaðan fisk til Bretlands og Þýskalands og stundum var saltað um borð. Segja má að blómaskeiði síðutogaranna hafi lokið eftir 1960 þegar veiðar á síld voru í mikilli uppsveiflu.
Ungmenni áttu auðvelt með að fá pláss á síðutogurunum
Á þessum árum þegar Brynjólfur meig fyrst í saltan sjó, í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar, voru síðutogarar samt ennþá áberandi í íslenskum sjávarútvegi þrátt fyrir að veiðar með þeim væru að renna sitt skeið á enda. Brynjólfur segir að tekjumöguleikar í landi og á annarskonar skipum hafi verið mun betri á þessum árum og því hafi gengið erfiðlega að manna stöður á síðutogurunum. Þess vegna hafi ungmenni átt auðvelt með að fá pláss. „Það má segja að þessir túrar sem ég fór á með Jóni Þorlákssyni hafi verið í lok þessa skeiðs síðutogaranna. Þetta lýsir kannski vel tíðarandanum á þessum tíma. Að sextán ára unglingur hafi verið þriðji æðsti maður á dekki með fjórtán og fimmtán ára aðstoðarmenn.“ Sem táningur fór Brynjólfur í jólatúra á gömlu síðutogurunum og varð 16 ára í þeim fyrsta. Í þessa sömu túra fóru önnur ungmenni, oft með nammipoka meðferðis. Í áhöfninni voru líka yfirleitt sjóaðir eldri jaxlar sem hefðu viljað hafa eitthvað annað meðferðis en sælgæti í brúnum poka.
Setti upp net í herberginu sínu sem unglingur
Brynjólfur var staðráðinn í því ungur að aldri að verða góður sjómaður en sem unglingur setti hann til dæmis upp net í herberginu sínu til að æfa sig í netabætingum. Hann hafði metnað til að mennta sig og eftir hefðbundna skólagöngu í Kópavogi fór hann bæði í stýrimannaskóla og vélskóla. Hann lauk 1. stigi í Vélskóla Íslands vorið 1973, 2. stigi 1975 og 3. stigi 1976. Samhliða þessu lauk hann skipstjórnarprófi 1. stigs frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1975 og skipstjórnarprófi 2. stigs árið 1976. Það kom Brynjólfi afar vel að skólarnir voru í sama húsi og var þetta sérstaklega hentugt á prófatíma. Hann lauk líka fyrri hluta útgerðartækni frá Tækniskóla Íslands árið 1978. Á þessum tíma stundaði hann líka sjóinn og var á sjó öll sumur og í öðrum skólafríum.
„Þótt ég væri í námi þá var ég alltaf úti á sjó. Ég þurfti á tekjunum að halda og svo ólgaði í manni blóðið að komast á sjóinn,“ segir Brynjólfur. Hann segir að þótt hann hafi menntað sig sem vélstjóri hafi hann áttað sig fljótt á því að hæfileikar hans lágu annars staðar en í vélarrýminu. „Til að byrja með vissi ég í sjálfu sér ekki hvar hæfileikarnir lágu eða hvað ég vildi gera. Ég átti eftir að starfa sem vélstjóri, bæði sem undir- og yfirvélstjóri, en ég áttaði mig á að hæfileikarnir mínir voru ekki á þessu sviði. Ég var góður á bókina en ég var ekkert sérstaklega góður í höndunum. Það var líka meira spennandi að vera uppi í brú og stýra skipinu en að vera lokaður niðri við vélina.“
Var í brúnni þegar núverandi sjávarútvegsráðherra var einn af stýrimönnunum
Fram til ársins 1980 og meðfram námi var Brynjólfur nokkur ár í Vestmannaeyjum. Hann var fyrsti stýrimaður á Klakk, var stýrimaður á Illuga en lengst af Vestmannaeyjadvölinni var hann á skipinu Andvara þar sem hann sinnti nær öllum störfum um borð. Hann flutti sig síðan norður og byrjaði sem skipstjóri á Freydísi frá Ólafsfirði 1979 en réð sig síðan sem skipstjóra á Blika EA 12 á Dalvík árið 1980. Einn af stýrimönnum hans þar var Kristján Þór Júlíusson, núverandi sjávarútvegsráðherra. „Móðurbræður mínir áttu Blika EA ásamt fleirum. Kristján Þór var stýrimaður hjá mér í nokkur sumur og stóð sig mjög vel. Hann var þá í háskólanámi og kom á sumrin,“ segir Brynjólfur sem hefur starfað sem skipstjóri samfleytt frá árinu 1980.
Brynjólfur fór til Grænhöfðaeyja árið 1984 á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og varð yfirstýrimaður á Feng. Hann fór í tvígang til Grænhöfðaeyja. Árið 1986 var hann orðinn skipstjóri á Eyborgu EA og árin 1987-1990 var hann skipstjóri á Baldri EA. Á tímabilinu 1990-1995 var hann skipstjóri á Sænesi EA, Ásborg EA 1991, Kofra 1991, á Nóa EA 1992-1993 og á Stokksnesi EA 1994-1995.
Árið 1995 varð Brynjólfur skipstjóri á Hjalteyrinni EA 310 og var áfram í brúnni á skipinu árin 1996-1998 eftir að skipið hafði hlotið nafnið Onward Highlander. Árin 1998-2001 var hann skipstjóri á skosku skipi, Normu Mary (áður Snæfugl) og stýrði svo þýska togaranum Kiel frá 2001-2014. Á þessu tímabili var hann einnig tímabundið með Björgúlf frá Dalvík. „Ég hef fylgt útrás Samherja býsna mikið eftir. Fyrst í Skotlandi, svo Þýskalandi og á Spáni einnig,“ segir Brynjólfur en frá árinu 2015 hefur hann stýrt spænskum skipum, Nuevo Barca og nú síðast Lodairo en umrædd skip eru gerð út af spænska útgerðarfyrirtækinu Pesquera Ancora sem Samherji Holding á hlut í í gegnum dótturfélag sitt UK Fisheries. Önnur skip sem Brynjólfur hefur stýrt hjá Samherja í styttri tíma eru Margret, Hríseyjan og Baldvin og hefur hann því unnið fyrir Samherja og tengd félög í 28 ár.
Haraldur Grétarsson, framkvæmdastjóri Deutsche Fischfang Union, segir að það hafi skipt miklu máli fyrir sig, sem ungan stjórnanda hjá útgerð í eigu Samherja, að njóta starfskrafta jafn öflugs skipstjóra og Brynjólfs. „Þegar ég var ráðinn framkvæmdastjóri Onward Fishing Company í Aberdeen snemma árs 1998 var Billó skipstjóri á Onward Highlander sem var eini frystitogari félagsins. Það var lán fyrir mig að hefja mín fyrstu skref sem framkvæmdastjóri, ungur að árum í útlöndum og blautur á bak við eyrun, með Billó í mínu liði. Eftir að ég var búinn að venjast og læra að kunna að meta hversu hreinskiptinn hann er þá þróaðist samstarf okkar á einstaklega jákvæðan hátt og höfum við fylgt hvor öðrum meira og minna síðan. Þó að það nái ekki einu sinni hálfri starfsævi Billós til sjós,“ segir Haraldur.
Starfslok við hæfi
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur þekkt Brynjólf í tæpa þrjá áratugi. „Hann hefur reynst einstaklega farsæll skipstjóri allan sinn feril og fengsæll eftir því. Það er alveg sama hvaða verkefni við höfum falið honum, hann hefur leyst þau með sóma.“
Þorsteinn minnir á að Brynjólfur hafi byrjað sjómennskuferilinn 14 ára gamall á hálfum hlut á gamla Snæfellinu. „Ég tel við hæfi að hann endi ferilinn á einum og hálfum hlut því hann fer í síðasta túrinn sinn í ágúst sem stýrimaður á Björgvin EA 311 en skipstjórinn í þeirri veiðiferð verður Oddur Jóhann Brynjólfsson. Þetta verður örugglega eftirminnilegur túr fyrir þá feðga og gaman fyrir Brynjólf að enda starfsferilinn með þessum hætti. Ég vil fyrir hönd Samherja þakka honum langa og ánægjulega samfylgd og óska honum, Söndru og fjölskyldunni alls hins besta,“ segir Þorsteinn Már.
Frumkvöðlastarf norðan við Falklandseyjar
Næstsíðasti túr Brynjólfs er ansi minnisstæður. „Eftir að Pesquera Ancora keypti Lodairo, var ljóst að veiðiheimildirnar væru ekki nægar til að halda skipinu úti á veiðum allt árið en skipið er venjulega við veiðar í Barentshafi og við norsku ströndina. Þá fór maður að hugsa hvaða möguleikar væru í stöðunni til að nýta skipið. Ég ræddi við stjórnendur útgerðarinnar um þá hugmynd að veiða norðan við Falklandseyjar en ég vissi að Spánverjar hefðu stundað veiðar þar í áratugi. Við sigldum af stað 8. janúar á þessu ári. Við vorum allan tímann utan við 200 sjómílna lögsögu Argentínu, syðst vorum við 250 sjómílur og nyrst fórum við 400 sjómílur norðan við Falklandseyjar. Við vorum 110 daga á sjó og vorum 63 daga við veiðar,“ segir Brynjólfur. Í raun eru stundaðar ólympískar veiðar á þessu svæði. Brynjólfur hafði fengið fregnir af spænskum útgerðum sem höfðu stundað veiðar á sama svæði með góðum árangri en Suður-kóreskir og kínverskir togarar hafa einnig stundar veiðar þarna. „Suður-kóresku útgerðirnar nota líka svokölluð ljósaskip en um er að ræða skip sem veiða í myrkri með færarúllum og styðjast við ljós. Þetta var eins og risavaxin stórborg þegar nóttin skall á og ljósahaf 120 skipa og 60 togara blasti við. Maður fékk verk í augun þegar maður leit yfir,“ segir Brynjólfur.
„Þessi veiðiferð lýsir Billó einna best. Eftir nærri 50 ár á sjó þá hlakkaði í honum eins og litlum krakka að fara þessa veiðiferð. Slíkur var eldmóðurinn, áhuginn og eljan í öllum undirbúningnum. Það voru erfiðleikar í byrjun túrs, langt stím, léleg veiði í byrjun og áhöfnin orðin örvæntingarfull, en Brynjólfur gafst ekki upp heldur kom heim 110 dögum síðar með ríflega 1.000 tonn af afurð þ.e. fullt skip. Ég held að það megi segja að Billó sé Ronaldo skipstjóranna. Undirbýr sig af ótrúlegri nákvæmni, gefst aldrei upp, nýtir hæfni sína til að snúa taflinu sér í hag og kemur svo heim sem sigurvegari.“ segir Haraldur Grétarsson um þennan túr á Lodairo.
Löng dvöl á sjó gerir kröfu um líkamlegt og andlegt þrek
Brynjólfur segir að menn stökkvi ekki fullskapaðir inn í það að vera meira en 100 daga á sjó. Aðeins einstaklingar með ákveðna skapgerð þrífist í sjómennsku. „Þetta er ákveðinn agi. Annað hvort sættir þú þig við þetta líf og venst því eða ekki. Fjölskyldan venst þessu líka. Þetta eru ekki bara langir túrar fjarri fjölskyldunni, því inni á milli eru löng frí í landi með fjölskyldunni og það eru forréttindi. En það þarf líkamlegt og andlegt þrek til að hafa sig í gegnum svona túra. Og auðvitað eiga menn ekki alltaf sína bestu daga á sjó. Menn fá jafnvel tíðindi um dauðsföll náinna ástvina, ganga í gegnum hjónaskilnað og þurfa oft að glíma við þær tilfinningar einir á sjó. Hugarfar áhafnarinnar skiptir öllu máli í löngum túrum. Menn vita hvað þarf til. Þeir hafa verið lengi í þessu.“
Billó er kvæntur Söndru Barbosa sem hann kynntist í Portúgal þegar hann fór fyrri ferðina til Grænhöfðaeyja. Þau eiga tvö börn, Odd Jóhann sem er skipstjóri hjá Samherja og Jöru Fatimu sem hefur verið flugmaður hjá Icelandair. Brynjólfur segir að lífið á sjó hafi kosti og galla. Hann segir löngu fríin hafi vegið upp á móti fjarveru frá eiginkonu og börnum. Í þessum löngu fríum hafi hann náð að rækta góð tengsl við börnin sín og ekki síðri en aðrir foreldrar. „Ég var stundum eina fullorðna manneskjan í hverfinu því ég var heima. Ég vil meina að mín tengsl við mín börn séu ekki minni en hjá feðrum sem vinna hefðbundinn vinnudag því ég var svo lengi heima inni á milli.“
Eftir að börnin hans urðu fullorðin hefur Brynjólfur nýtt löng frí til að ferðast með Söndru. „Þessi löngu ferðalög erlendis eru eitthvað sem venjulegt fólk hefur ekki tækifæri að gera í hefðbundinni átta til fjögur vinnu.“
Brynjólfur hefur upplifað meiriháttar breytingar á sjávarútvegi á ferli sínum sem skipstjóri. Ekki aðeins tæknibreytingar við veiðarnar sjálfar heldur einnig breytingar á samskiptum og líðan áhafnar með styttri boðleiðum. „Áreitið úti á sjó hefur aukist eftir tilkomu internetsins. Helsti ókosturinn er að menn eru dregnir inn í ákvarðanatökur hjá fjölskyldunni í tilvikum þar sem þeir voru látnir í friði áður. Mönnum fannst það að mörgu leyti gott að komast í burtu. Þetta hefur verið gríðarleg breyting fyrir áhafnir, bæði til hins betra og verra.“
Ekkert kemur á óvart lengur
Brynjólfur býr að mikilli reynslu eftir hálfa öld á sjó. „Maður er búinn að sjá allt sem Atlantshafið hefur upp á að bjóða. Það er stundum óþægilegt að það er ekkert eftir handa ímyndunaraflinu og það kemur manni ekkert lengur á óvart. Maður hefur kynnst öllum tegundum af brælu, maður hefur verið í brúnni í fárviðri þar sem ölduhæð var tuttugu metrar og vindhraði yfir fimmtíu metra á sekúndu. Í slíkum aðstæðum færist þögn yfir áhöfnina, menn láta verkin tala og gera nákvæmlega það sem þarf að gera. Það er á þessum augnablikum sem reynir hvað mest á þjálfun áhafnarinnar. Það sem er mér efst í huga núna er þakklæti fyrir að á öllum mínum starfsferli sem skipstjóri hef ég sjaldan lent í alvarlegum atvikum eða slysum á sjó. Ég hef aldrei lent í því að áhafnarmeðlimur hafi slasast mjög alvarlega á skipi sem ég hef stýrt og engin hefur látist, hvorki af slysförum né af náttúrulegum orsökum. Það sem stendur eftir er gríðarlegt þakklæti til allra sem hafa siglt með manni í gegnum tíðina. Maður er oft undrandi hvað menn eru tilbúnir að leggja á sig til að framfleyta fjölskyldunum sínum.“
Byrjun ferils - Snæfell EA 740
Lok Ferils - Lodario í heimahöfninni Vigo á Spáni