Ungmennafélagið Óþokki, sem hefur verið nokkuð fyrirferðarmikið innan Samherja, fagnar 25 ára afmæli á þessu ári. Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri hefur verið Einvaldur Óþokka frá fyrsta degi. Hann segir að þessum tímamótum verði fagnað hressilega með ýmsum hætti.
Boðsund til að útkljá sigur í fótboltamóti
„Upphafið má rekja til þess að nokkrir starfsmenn Samherja stofnuðu félagið í kringum vikulegar fótboltaæfingar í íþróttahúsinu á Hrafnagili. Fljótlega jókst umfangið og ákveðinn vendipunktur varð á starfseminni í Sundlaug Ólafsfjarðar fyrir lifandi löngu. Þá breyttist félagið úr huggulegum knattspyrnuklúbbi í ungmennafélag, þegar Óþokki sigraði fótboltamót í bráðabana, sem útkljáð var með boðsundi,“ segir Birgir Einvaldur og brosir við tilhugsunina.
Þokki og Óþokki
„Annars er nafnið UMF Óþokki ekki eins ógnvekjandi og það hljómar í fyrstu, ástæðan fyrir þessu vali á nafni er ósköp einföld og skiljanleg. Stelpurnar á skrifstofu Samherja stofnuðu nefnilega Íþróttafélagið Þokka um svipað leyti, Óþokki lá því beinast við að okkar mati.“
Áberandi á Pollamóti Þórs á Akureyri
„Ég held að það sé óhætt að segja að félaginu hafi vaxið fiskur um hrygg á þessum aldarfjórðungi og hápunktur hvers árs er tvímælalaust Pollamót Þórs á Akureyri. Ekkert félag hefur mætt til leiks á Pollamótið með jafn marga þátttakendur og Óþokki, stelpurnar í Þokka hafa einnig tekið þátt í þessu skemmtilega móti.“
Birgir segir félagsskapinn einnig frábæra leið til að styrkja og efla vináttu við viðskiptavini og samstarfsaðila Samherja.
„Við höfum fengið lið og leikmenn frá fjölmörgum löndum á Pollamótið sem tengjast okkur með einhverjum hætti. Stundum hafa komið verulega góðir leikmenn og einnig arfaslakir, svo það sé sagt í fullri hreinskilni en það er algjört auka atriði sem þarf ekkert að ræða frekar.“
Einvaldurinn ræður öllu og strákarnir hlýða
Eins og fyrr segir hefur Birgir verið Einvaldur UMF Óþokka frá upphafi.
„Hlutverkið er ósköp einfalt og skýrt, Einvaldurinn tekur einn allar ákvarðanir sem tengjast félaginu með einum eða öðrum hætti. Ég nefni til dæmis val á leikmönnum í lið, matseðla á lokahófum, hönnun búninga og næstu utanlandsferð en þær eru orðnar mjög margar. Þetta fyrirkomulag virðist henta strákunum prýðilega, enda hafa þeir alla tíð hlýtt mér í einu og öllu. Eiginkonurnar virðast líka vera alsælar með þetta skipulag, þær bera mikið traust til mín og fyrir það er ég auðvitað þakklátur.“
Hvolpadeild Óþokka
Einvaldurinn segir að yngri leikmenn bætist jafnt og þétt í hópinn og sett hafi verið á laggirnar sérstök hvolpadeild, ætluð leikmönnum undir 35 ára. Hann segir nokkuð um að eldri leikmenn álíti sig verða betri í fólbolta með hverju árinu sem líður, sem sé á vissan hátt jákvætt.
Búningar Óþokka endurnýjaðir á hverju ári
„já, ég tók í upphafi ákvörðum um að fylgja fordæmi Stuðmanna um fágaða framkomu og snyrtilegan klæðaburð. Við leggjum þess vegna mikinn metnað í hönnun búninga. Í fyrra kom ekki annað til greina en klæðast fánalitum Úkraínu, svo nærtækt dæmi sé tekið. Fyrir hvert Pollamót kaupum við um og yfir 100 sett af búningum fyrir leikmenn og börn og gaman er að segja frá því að barnatreyjurnar njóta mikilla vinsælda.“
Vantar góðar vítaskyttur
„Við ætlum að halda hressilega upp á afmælisárið með ýmsum viðburðum og uppákomum. Vináttan er okkur dýrmæt og vinahópurinn stækkar stöðugt. Það er mjög mikil ásókn um inngöngu í félagið, sem sýnir að starfsemin er öflug og skemmtileg. Þessar vikurnar er samt sem áður efst á blaði hjá mér að útvega góðar vítaskyttur, enda ekki vanþörf á,“ segir Birgir Össurarson Einvaldur UMF Óþokka.