Óvissa um framtíð landvinnslu Samherja á Stöðvarfirði

Svo gæti farið að breytingar yrðu gerðar á landvinnslu Samherja á Stöðvarfirði innan tíðar og jafnvel er hugsanlegt að félagið hætti vinnslu þar...

Svo gæti farið að breytingar yrðu gerðar á landvinnslu Samherja á Stöðvarfirði innan tíðar og jafnvel er hugsanlegt að félagið hætti vinnslu þar.
Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, hélt í gærdag fund með trúnaðarmanni starfsmanna, starfsmönnum félagsins og fulltrúum verkalýðsfélaganna á staðnum. Um kvöldið átti hann síðan fund með fulltrúa sveitastjórnarinnar í Austurbyggð. Á þessum fundum lagði Gestur fram eftirfarandi bréf frá Samherja þar sem ástæður hugsanlegra aðgerða voru tíundaðar.



Samráðsfundur með trúnaðarmanni og fulltrúa starfsmanna
Samherja hf. á Stöðvarfirði vegna málefna vinnslunnar á staðnum

Akureyri 20. janúar 2005

Rekstrarumhverfi fiskvinnslu á Íslandi hefur versnað mjög á síðustu misserum. Kemur þar margt til en sterk staða krónunnar, ásamt lágu afurðaverði á ýsu, karfa og ufsa gera reksturinn mjög erfiðan.

Allar líkur benda til þess að gengi krónunnar haldist áfram sterkt, ekki síst vegna mikillar uppbyggingar á Austurlandi. Ástand fiskistofna og markaðsaðstæður eru þannig að líklegt er að ekki verði hækkun á afurðaverði næstu misserin.  Auk þess er tilflutningur á  aflaheimildum frá stærri fiskiskipum til smábáta staðreynd. Við samdrætti í aflaheimildum  hefur verið brugðist með aukinni landvinnslu á kostnað sjófrystingar á bolfiski. Nú rekur Samherji hf. aðeins einn frystitogara á bolfiskvinnslu, samanborið við 5 þegar mest var. Það er því ljóst að til að tryggja áframhaldandi landvinnslu þarf að sameina vinnslur til að ná fram aukinni hagræðingu og mæta þannig lækkandi tekjum og auknum kostnaði.

Það er mat stjórnenda Samherja að rekstur landvinnslunnar verði best tryggður með því að beina sem mest af  landvinnslu félagsins til Dalvíkur. Þrátt fyrir að hafa fjárfest á Stöðvarfirði fyrir tugi milljóna króna á undaförnum árum eru fyrirliggjandi mjög verulegar fjárfestingar í húsnæði til að uppfylla þær ströngu kröfur sem gerðar eru til matvælaframleiðslu í dag, m.a. af  af hálfu viðskiptavina okkar svo og opinberra aðila hérlendis og erlendis. Af framansögðu má því vera ljóst að við stöndum frammi fyrir eftirfarandi valkostum varðandi Stöðvarfjörð:

-         Fara í samstarf við heimamenn með það fyrir augum að selja eða leigja frystihúsið.

-         Breyta vinnslunni í saltfiskverkun með umtalsverði fækkun starfsfólks.

-         Segja öllum starfsmönnum á Stöðvarfirði upp og hætta þar rekstri.

Burtséð frá þessu máli er ljóst að bjart er framundan í atvinnumálum í Austurbyggð. Með tilkomu jarðganganna á vori komanda mun fjarlægðin frá Stöðvarfirði til Reyðarfjarðar verða svipuð og hún er frá Egilsstöðum og Norðfirði. Hér verður því um eitt atvinnusvæði að ræða þar sem vaxandi eftirspurn er eftir vinnuafli og atvinnumöguleikum fjölgar jafnt og þétt. Ef niðurstaðan verður sú að til uppsagna komi verður það ákveðið áfall fyrir sveitarfélagið en ef til vill ekki eins mikið og ella í ljósi þess sem að framan er sagt. Komi til uppsagna starfsfólks verður þeim, sem sagt verður upp störfum, boðin vinna hjá fyrirtækinu á öðrum stað. Reiknað er með að vinnsla verði með óbreyttu sniði fram á sumar, eða þar til jarðgöngin verða opnuð en þá má vænta breytinga.  Alls er um að ræða 35 stöðugildi hjá félaginu á Stöðvarfirði.

Samherji mun á næstu vikum ræða við alla aðila málsins um hvaða leiðir eru færar í þeirri stöðu sem upp er komin.

Virðingarfyllst,
f.h. Samherja hf.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri