Polonus landaði á Akureyri fullfermi af rækju úr Smugunni

Polonus GDY - Mynd:Þorgeir Baldursson
Polonus GDY - Mynd:Þorgeir Baldursson

Frystitogarinn Polonus Gdy, sem er í eigu Deutsche Fischfang Union (DFFU) í Cuxhaven, dótturfélags Samherja, landaði fullfermi af rækju og blönduðum afla á Akureyri í síðustu viku en aflinn var veiddur norðarlega í Smugunni. Það er ár síðan skipið landaði síðast á Íslandi.

Fiskifréttir greindu frá þessu í dag. Í frétt blaðsins kemur fram að um hafi verið að ræða 500 tonn upp úr sjó, þar af um 390 tonn af rækju og talsvert af grálúðu og skrápflúru. Þar er haft eftir Teiti Björgvinssyni skipstjóra á Polonus Gdy að rækjuveiðar skipsins séu svo til nýtilkomnar. Skipið hafi farið tvo túra í fyrra til að veiða rækju og hafi svo byrjað síðasta túr á rækjuveiðum en áhöfn skipsins hafi að mestu verið í flakafrystingu áður. Rækjan er heilfryst um borð. Í umfjöllun Fiskifrétta kemur fram að aflanum hafi verið landað á Íslandi að þessu sinni þar sem Teitur skipstjóri hafi verið á leiðinni í frí og rækjuvinnslan Dögun á Sauðárkróki hafi keypt rækjuna.

Polonus hét áður Baldvin Þorsteinsson EA og var fyrsta nýsmíði Samherja þegar skipið kom til landsins í nóvember 1992. Skipið var selt til DFFU árið 2001 og er nú gert út af Arctic Navigations í Póllandi, sem er dótturfélag DFFU.

Umfjöllun Fiskifrétta sem birtist í dag.

Polonus_i_Fiskifrettum