Sjávarútvegsráðherra og ráðuneytis-stjóri í heimsókn hjá Samherja

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, komu í dag í heimsókn til Samherja.
Þeir fóru fyrst í landvinnsluna á Dalvík, síðan um borð í Baldvin Þorsteinsson EA, sem hafði legið úti á Eyjafirði en kom sérstaklega að bryggju í Krossanesi til að sækja gestina.  Eftir siglingu með Baldvin  var farið um borð í Vilhelm Þorsteinsson EA, sem verið var að landa úr í Akureyrarhöfn jafnframt sem full vinnsla var í gangi.

“Það var mjög áhugavert að koma hingað og sjá það mikla starf sem unnið er hjá Samherja,” sagði Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Hann sagði að þar ætti hann bæði við það þróunarstarf, sem í gangi væri á sviði vinnslu afurða og sölu- og markaðssetningu þeirra, en ekki síður þá þætti sem tengdust stjórnvöldum með beinni hætti, þ.e. veiðum og afla. “Mér þykir mikið til þess koma hve vinnslan á Dalvík er háþróuð. Sömuleiðis þykir mér vinnutilhögunin merkileg og hún sýnir hverju er hægt að ná fram með sveigjanleika og góðu samstarfi allra aðila. Þá eru Baldvin EA og Vilhelm EA auðvitað mikil mannvirki. Mér sýnist vel að öllu staðið þar og gaman að svo skyldi hittast á að þau voru bæði á svæðinu á sama tíma og full vinnsla í gangi,” sagði Árni.

Lærdómsrík heimsókn

Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, sagði þessa heimsókn í senn ánægjulega og lærdómsríka. “Það kom mér mest á óvart hversu miklar og fullkomnar verksmiðjur togararnir tveir eru. Vilhelm er t.d. að skila í kringum 20.000 tonnum af afurðum á ári, þótt í áhöfninni séu einungis um 22-26 manns. Það þykir mér merkilegt. En það er alveg ljóst að í svona heimsókn fáum við embættismennirnir betri innsýn í það hvernig hin ýmsu mál, sem við erum að vinna að, hafa bein áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu,” sagði Vilhjálmur.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði mjög ánægjulegt að hafa fengið þá Árna og Vilhjálm í heimsókn og ekki síst hefði verið gott að þeir fengu tækifæri til að ræða málin við sjómenn og annað starfsfólk Samherja.