Ræða: Þorsteinn Már Baldvinsson, aðalfundur fimmtudaginn 4. apríl 2003

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf.:

Fundarstjóri, ágætu hluthafar og gestir!

Í ársskýrslu Samherja hf. fyrir árið 2002, sem þegar hefur verið afhent fundarmönnum, er að finna ársreikning félagsins fyrir sama ár.
Á blaðsíðu 17 kemur fram staðfesting stjórnar og forstjóra á reikningi félagsins. Áritun endurskoðenda er á blaðsíðu 18 og þar kemur fram að ársreikningurinn er gerður í samræmi við lög, samþykktir félagsins og góða reikningsskilavenju.
Rekstrarreikningur félagsins er á blaðsíðu 19 og vil ég í upphafi máls míns gera grein fyrir helstu efnisatriðum hans.

1 AFKOMAN

1.1 Rekstur

Rekstrartekjur Samherja á liðnu ári voru 13.001 milljónir króna. Rekstrargjöld námu 10.003 milljónum og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam 2.997 milljónum króna. Afskriftir voru 1.042 milljónir og sérstök niðurfærsla fastafjármuna nam 202 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 410 milljónir króna. Þar af nam gengismunur 1.067 milljónum, en gengi íslensku krónunnar hækkaði um rúm 12% á árinu. Þá er meðal fjármagnsliða sérstök gjaldfærsla vegna niðurfærslu á hlutafjáreign í félögum 181 milljón króna. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 109 milljónir og nam hagnaður fyrir tekjuskatt 2.273 milljónum króna.
Hagnaður eftir skatta nam 1.859 milljónum króna. Hlutdeild minnihluta nam 20 milljónum og hagnaður ársins var því 1.879 milljónir króna.
Ef litið er á sjóðstreymi var veltufé frá rekstri samstæðu 2.245 milljónir og handbært fé frá rekstri 2.762 milljónir króna.

1.2 Fjárfestingar

Stjórnarformaður hefur þegar farið yfir fjárfestingar okkar síðastliðið ár og ég vísa því til ræðu hans og ársreknings félagsins varðandi fjárfestingar ársins 2002.

1.3 Efnahagur

Efnahagsreikningur félagsins í árslok 2002 er á blaðsíðum 20 og 21 í ársskýrslunni. Þar kemur fram að veltufjármunir voru í árslok 6.143 milljónir og fastafjármunir 15.846 milljónir króna. Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir félagsins þannig samtals 21.989 milljónir króna.
Heildarskuldir í árslok voru 13.589 milljónir, hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga 198 milljónir og bókfært eigið fé 8.202 milljónir króna.

1.4 Kennitölur

Kennitölur í árslok 2002 sýna að eiginfjárhlutfallið var þá 37,3%, veltufjárhlutfall 1,17 og veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum var 17%.
Eins og áður segir er ársreikningurinn staðfestur af stjórn félagsins og forstjóra og áritaður af endurskoðendum. Ársreikningurinn er hér með lagður fram til umræðu og afgreiðslu.

2 ÚTGERÐ

Breytingar á skipastól félagsins voru nokkrar á árinu og voru þær liður í yfirlýstri stefnu okkar. Þessum eignabreytingum hefur þegar verið lýst. Þegar litið er yfir árið gekk útgerð félagsins vel og býr það nú yfir öflugum flota sem er í samræmi við úthlutaðar aflaheimildir þess. Þær breytingar sem við höfum unnið að undanfarin ár eru að mestu komnar til framkvæmda og með tilkomu þriggja fullkominna fjölveiðiskipa er skipastóllinn nú hagkvæmari og sveigjanlegri en áður. Á árinu náðum við góðum tökum á frystingu síldar um borð auk þess sem loðnufrysting gengur nú mun betur en áður. Það verður verkefni okkar á yfirstandandi ári að þróa og athuga hvort sé fjárhagslega hægkvæmt að vinna kolmunna um borð í fjölveiðiskipunum.
Á síðasta ári stunduðum við svokallaðar blandaðar veiðar sem við höfum ekki stundað áður. Um borð í Akureyrinni var flakaður og frystur karfi og annar bolfiskur, samhliða því að ísa karfa sem var fluttur ferskur til Þýskalands. Þetta veiðimynstur hefur gefist vel og skilar hærra afurðaverðmæti á hvert kíló en áður.
Breytingin úr litlum nótaskipum í stór og öflug fjölveiðiskip er að skila okkur mun meiri möguleikum til sóknar og verðmætasköpunar í stofna utan landhelgi, auk þess sem allt starfsumhverfi sjómanna okkar er stöðugra og betra á þessum nýju skipum sem gerð eru út rúma 300 daga á ári í stað 200 daga á hefðbundnu nótaveiðiskipi.

3 LANDVINNSLAN

Umfang landvinnslu Samherja á Akureyri, Dalvík, Stöðvarfirði og í Grindavík hefur aukist ár frá ári og nú er svo komið að fleiri starfsmenn eru hjá félaginu í landi en úti á sjó.
Fiskimjölsverksmiðja Samherja í Grindavík tók á móti meira hráefni í fyrra en nokkru sinni fyrr, eða 111 þúsund tonnum, sem var 20% aukning frá fyrra ári. Stærstur hluti hráefnisins var loðna, en rúmlega fjórðungur þess var kolmunni og jókst magn hans verulega milli ára. Þá tók verksmiðjan á móti umtalsverðu magni af síldarafskurði af Vilhelm Þorsteinssyni EA og Þorsteini EA.
Ljóst er að fjárfesting félagsins í öflugum fjölveiðiskipum er að skila umtalsvert meira hráefni til vinnslu í Grindavík en gerlegt var með minni skipum
Á árinu var sett upp vinnslulína í frystihúsi félagsins í Grindavík til slátrunar á laxi úr eldi Íslandslax. Aukið hagræði næst hjá báðum félögunum með samrekstri landvinnslunnar í Grindavík og slátrunar Íslandslax.

Á Akureyri gekk rekstur rækjuverksmiðjunnar vel og hefur Samherji aldrei áður framleitt jafn mikið magn af rækju og á síðasta ári. Pilluð rækja var unnin úr um níu þúsund tonnum af hráefni og var nýting þess á síðastliðnu ári betri en áður, sem skýrir að hluta góðan rekstur á árinu, þrátt fyrir almennt erfitt árferði í rækjuveiðum og vinnslu hér á landi. Þetta er fjárfrek grein í mikilli samkeppni á alþjóðamarkaði. Stærðarhagkvæmni er mikil og er það trú okkar að rækjuvinnslum í heiminum muni fækka enn frekar og þær sem eftir standa muni stækka. Um 60% af hráefni Strýtu var flutt inn erlendis frá. Heimsafli rækju hefur vaxið upp á síðkastið þó svo að aflinn hafi dregist saman á Íslandsmiðum. Veiðiheimildir á Grænlandi eru 100 þúsund tonn, í Kanada 120 þúsund tonn, en á Íslandi um 30 þúsund tonn.

Á Dalvík rekur Samherji þurrkunarverksmiðju fyrir hausa og hryggi. Á síðasta ári voru um 5.700 tonn af hráefni tekin til þurrkunar, sem var 60% aukning milli ára. Verulegur hluti hráefnisins kemur frá frystiskipum Samherja og tengdra félaga, sem hirða hausa sem falla til við flakavinnslu úti á sjó.

Miklar endurbætur á hausaþurrkun félagsins á Dalvík á síðasta ári miðuðu að því að auka afköst, bæta vörugæði og draga úr mengun. Breytingarnar tókust vel og fóru afköstin úr 60 tonnum í 150 tonn á viku.

Á Dalvík og Stöðvarfirði rekur félagið frystihús þar sem uppistaða hráefnis er bolfiskur, en einnig hefur frystihúsið á Dalvík unnið afurðir úr laxi frá fiskeldisfyrirtækjum Samherja.

Þegar Samherji kom að rekstri frystihússins á Dalvík árið 2000 var þar unnið úr 4.300 tonnum af fiski á ári. Vinnslan hefur síðan vaxið um 50% og er gert ráð fyrir að hún vaxi enn á þessu ári og fari hráefnismótaka í 7.500 tonn. Þetta gerum við á sama tíma og aflaheimildir Samherja hafa verið skornar verulega niður, bæði vegna niðurskurðar á heildaraflamarki og vegna sértækra aðgerða í þágu einstakra útgerðarflokka og byggðarlaga.

Til þess að viðhalda stöðugleika og hagkvæmni landvinnslunnar höfum við valið að auka hráefnimagn til vinnslu í landi og flutt heimildir frá frystiskipum yfir á ísfiskveiðiskip félagsins. Þetta kemur sjálfsagt mörgum á óvart ef marka má þjóðfélagsumræðuna um flutning allrar vinnslu stórútgerða út á sjó

Framleiðsla á ferskum afurðum hefur aukist verulega í frystihúsinu á Dalvík, þar sem unnið er frá klukkan þrjú að nóttu til þrjú á daginn alla virka daga, og við reiknum með enn frekari aukningu í þessari vinnslu á yfirstandandi ári. Neytendur kalla í auknum mæli eftir því að geta daglega keypt ferskan fisk í stórmörkuðum, alveg eins og kjöt eða aðrar ferskvörur.

Samherji byggir sína bolfiskvinnslu nær eingöngu á afla frá eigin togurum. Með stýringu á veiðunum hefur okkur tekist að ná fram hámarksgæðum á þeim afla sem við löndum og fullyrði ég að gæðin eru jöfn því besta í öðrum útgerðarflokkum. Togararnir hafa það hinsvegar fram yfir aðra að þeir geta verið að veiðum allt árið um kring og þannig getum við tryggt okkar viðskiptavinum örugga afhendingu á tilteknu magni af skilgreindum gæðum jafnt í janúar sem júní. Fyrir þetta eru erlendar verslanakeðjur, kröfuhörðustu viðskiptavinir í heimi, tilbúnar að greiða gott verð. Skilyrðið er skýrt; örugg afhending vörunnar.

Samherji hefur þróað launakerfi í landvinnslu félagsins á Dalvík og Akureyri í góðri samvinnu við verkalýðsfélagið Einingu-Iðju á Akureyri og tel ég ástæðu til að þakka Birni Snæbjörnssyni, formanni félagsins, alveg sérstaklega fyrir hans framsýni. Þessi þróun hefur skilað miklum ávinningi, bæði fyrir félagið og starfsfólk. Starfsöryggi hefur verið aukið og laun hækkað með auknum afköstum. Sem dæmi má nefna að í frystihúsinu á Dalvík eru meðallaun starfsfólks fyrir átta tíma dagvinnu um 160 þúsund krónur á mánuði.

4 ERLEND STARFSEMI

Samherji hefur nú um nokkurra ára skeið stundað útgerð í erlendum dóttur og hlutdeildarfélögum við norðanvert Atlantshaf. Miklar breytingar hafa verið gerðar á skipastól og rekstri þessara félaga undanfarin ár og á árinu var skipastóll allra félaganna kominn í það horf sem við teljum æskilegt og er í samræmi við aflaheimildir þeirra. Rekstur þessara erlendu félaga var viðunandi á árinu 2002.

Onward Fishing Company keypti á árinu Akureyrina EA, fyrsta skip Samherja, en skipið hentar vel þeim aflaheimildum sem félagið hefur yfir að ráða. Með tilkomu skipsins aukast möguleikar á sókn í úthafskarfa sem OFC hefur ekki getað nýtt sér hingað til og með stærra og öflugara skipi er stefnt að lækkun sóknarkostnaðar við rækjuveiðar sem félagið hefur stundað við Svalbarða.

Í Færeyjum seldi Framherji nótaveiðiskipið Jón Sigurðsson og keypti í staðinn annað stærra og öflugara skip sem skírt var Högaberg. Skipinu er ætlað að nýta kolmunna- og síldveiðiheimildir fyrirtækisins betur.

Í kjölfar fækkunar sjómanna hefur DFFU gert út tvö skip frá og með síðari hluta síðasta árs. Það er mat okkar að með útgerð tveggja skipa nýtist aflaheimildir DFFU með hagkvæmum hætti. Það sem af er árinu 2003 hefur útgerð erlendra skipa okkar gengið betur en áður og aflabrögð verið mjög góð. Kiel, annað skipa DFFU, veiddi í upphafi árs rúm 2.000 tonn úr sjó á 48 veiðidögum við strendur Noregs.

Tap varð á rekstri Hussman og Hahn á árinu 2002, en unnið hefur verið að endurskipulagningu félagsins og er það mat okkar að hún gangi vel. Rekstrarbati Hussman og Hahn á fyrstu tveimur mánuðum yfirstandandi árs samanborið við sama tímabil árið 2001 er rétt um ein milljón Evra og er félagið nú rekið með hagnaði.

5 FISKELDI

Samherji jók á árinu umsvif sín í fiskeldi. Félagið fjárfesti í eignarhlutum í öllum félögum sem tengdust fiskeldi og er nú meirihlutaeigandi í þeim öllum nema Fiskeldi Eyjafjarðar.

Fiskeldi hefur á undanförnum tveimur áratugum tekið stórstígum framförum. Eldi á Atlantshafslaxi fór yfir milljón tonn árið 2002, sem er fimmföldun á tíu ára tímabili. Framleiðslukostnaður á óslægðum fiski í nót hefur lækkað jafnt og þétt og farið úr 52 norskum krónum árið 1982 í tæpar 15 norskar krónur í dag, sem endurspeglar þá miklu þróun og þekkingu sem er í þessum iðnaði. Búnaður fyrir fiskeldi er nú mun öflugri en áður. Fullkominn hugbúnaður heldur utan um framleiðsluna og eftirlit með fiski og fóðrun er með neðansjávarmyndavélum. Eldisaðferðum hefur fleygt fram. Kynbætur hafa skilað sterkari fiski sem vex meira og verður seinna kynþroska en áður. Eitt mesta framfarasporið í fiskeldi var þegar byrjað var að bólusetja fisk við sjúkdómum í stað lyfjagjafar í fóðri. Lyfjagjöf í dag er aðeins brot af því sem hún var, þrátt fyrir margföldun framleiðslunnar, eins og sést hér á glærunni á bak við mig.

Samherji er nú með eignaraðild í öllu ferlinu frá seiðum að fullunnum afurðum. Við eigum í dag fullkomna seiðastöð sem getur auðveldlega framleitt öll þau seiði sem við þurfum til laxeldis okkar með lægri kostnaði en þekkist í löndunum í kringum okkur. Við höfum alið seiðin áfram upp í 500 grömm í landstöðvum. Það hefur gengið vel og þannig náum við að nýta okkur jarðvarmann, hraða vexti, og stytta þann tíma sem fiskurinn þarf að vera í sjó. Flutningur á lifandi fiski er mjög mikilvægur þáttur í eldisferli okkar og við höfum nú fjárfest í félagi sem mun eiga og gera út skip til flutnings á lifandi fiski, svokallaðan brunnbát. Með því teljum við okkur vera að bæta þann hluta ferilsins sem hefur verið okkur erfiðastur hingað til og það hefur í raun alla tíð verið trú okkar að án fullkominna flutningstækja munum við ekki ná árangri í eldinu. Í sjó hefur fiskurinn vaxið vel og eins og við gerðum ráð fyrir. Búnaðurinn, sem allur er nýr, er viðurkenndur af okkar erlendu tryggingar- og flokkunarfélögum. Við lentum í tjóni á síðasta ári vegna marglyttu í Mjóafirði, en í vetur höfum við útfært búnað í samvinnu við erlenda aðila til varnar marglyttu og er það trú okkar að þessi búnaður muni lágmarka áhættu okkar af marglyttublóma.

Laxasláturhús hefur verið sett upp hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað og við höfum unnið mikið starf við markaðssetningu okkar afurða í Evrópu og Bandaríkjunum.

Á árinu 2002 höfum við unnið að því að ná niður kostnaði við eldið til að auka samkeppnishæfni okkar á alþjóðamarkaði. Tekist hefur að lækka stærstu kostnaðarliði umtalsvert auk þess sem stærðarhagkvæmni fer að gæta. Markmið okkar á yfirstandandi ári er að lækka framleiðslukostnað á öllum stigum eldisins um 20%. Það er mikil samkeppni í fiskeldi í heiminum í dag, en það er trú okkar að með því að ráða yfir öllu ferlinu frá seiðum að markaði munum við verða samkeppnishæfir.

Samherji fjárfesti í upphafi ársins 2003 í hlutabréfum í Fjord Seafood í Noregi, sem er þriðji stærsti laxaframleiðandi í heimi með framleiðslu í fjórum löndum. Við teljum að með þessu höfum við stigið mikilvægt skref í fiskeldinu. Samningurinn tryggir okkur aðgang að gríðarlegri þekkingu, sem er lykilatriði í hverjum iðnaði. Með þessum samningi fær Samherji aðgang að öllum upplýsingum varðandi eldi, innkaupa- og sölukerfi og kostnaðaruppbyggingu fiskeldis Fjord Seafood og einnig fáum við upplýsingar um hvað er að gerast hjá þeim bestu og hvaða markmið þeir setja sér á hverjum tíma. Án samningsins við Fjord Seafood fullyrði ég að við hefðum verið langan tíma að afla okkur þessarar þekkingar og ég tel okkur því í dag búa yfir þekkingu sem aðra hefur tekið marga áratugi að afla sér.

Á árinu 2003 er áætluð velta dóttur- og hlutdeildarfélaganna sem tengjast fiskeldi yfir einn milljarður króna. Velta þessara sömu félaga á árinu 2004 er áætluð langt á þriðja milljarð króna. Áætlanir okkar um framleiðslu á laxi í sjó gera ráð fyrir að slátrað verði um 4 þúsund tonnum af laxi á árinu 2003, árið 2005 verði slátrunin komin yfir 11 þúsund tonn og árlega verði settar út rúmlega þrjár milljónir seiða.

6 SÖLU- OG MARKAÐSMÁL

Sala afurða félagsins gekk í aðalatriðum vel á árinu. Félag eins og Samherji, sem er að vinna á flestum sviðum sjávarútvegs, gengur að sjálfsögðu í gegnum sveiflur á mörkuðum, en fjölbreytnin í afurðum eykur stöðugleika í afkomu félagsins.

Stærsti markaður á síðasta ári fyrir afurðir félagsins var sem fyrr Bretland, en þangað fer mikið af sjófrystum flökum, megnið af afurðum frystihússins á Dalvík og rúmur helmingur af rækjuframleiðslunni.

Í samstarfi við Síldarvinnsluna í Neskaupstað voru um 21 þúsund tonn af uppsjávarafurðum seld í fyrra, sem er umtalsverð aukning frá fyrra ári.

Á fyrrihluta síðasta árs hófst markaðssetning á laxaafurðum fyrir alvöru og nam heildarsalan um 730 tonnum af slægðum laxi. Auk innanlandsmarkaðar eru helstu markaðir fyrir laxaafurðir meginland Evrópu og Bandaríkin. Á þessu ári má búast við fjórföldun í sölu á laxaafurðum miðað við árið 2002.

Í samskiptum við erlenda viðskiptavini er það styrkur Samherja að geta boðið fjölbreyttar tegundir sjávarfangs. Einnig er það styrkur félagsins að hafa stjórn á öllu ferlinu frá veiðum að markaði, framleiða gæðavörur og geta sýnt fram á örugga afhendingu og aðgang að veiðiheimildum. Með þessu hefur okkur tekist að byggja upp langtíma samband við viðskiptavini okkar sem greiða okkur í staðinn hæsta verð.

Margir telja að íslenskar sjávarafurðir selji sig því sem næst sjálfar, en það er mikill og alvarlegur misskilningur. Samkeppnin um hillupláss í verslunum er mikil og mun aukast með fækkun verslanakeðja. Eldi mun vaxa, fjarlægðir minnka, tollar lækka og þannig mætti lengi telja. Samkeppnin eykst og verðhækkanir eru ekki í sjónmáli. Við verðum að bregðast við á kostnaðarhliðinni. Einu gildir hvaða skoðanir menn hafa á því hvernig beri að byggja upp íslenskan sjávarútveg í framtíðinni. Við störfum á alþjóðamarkaði með afurðir okkar og markaðurinn mun alltaf hafa síðasta orðið.

6 OPINBER UMRÆÐA

Góðir fundarmenn.
Umræðan um sjávarútveg er oft á tíðum ómálefnaleg. Við hjá Samherja teljum oft ómaklega að okkur vegið án þess að við fáum tækifæri til að svara fyrir okkur. Á Íslandi er litið á stærð okkar sem vandamál. Þegar út fyrir landsteinana er komið og við mætum viðskiptavinum okkar finnum við á hinn bóginn hversu litlir við erum. Aðrar þjóðir hafa verið að endurskipuleggja sjávarútveg sinn síðustu árin til að gera hann samkeppnishæfan á alþjóðlegum matvælamarkaði. Nú síðast hafa Norðmenn verið að breyta fiskveiðistjórnunarkerfi sínu til að hvetja menn til að sameina aflaheimildir og þeim sem það gera eru tryggðar viðkomandi heimildir í 19 ár. Í þeim fáu útgerðarflokkum þar sem enn er úthlutað heildaraflamarki fyrir viðkomandi flokk ætla Norðmenn nú að úthluta aflamarki á einstök skip. Hvati þessarar breytingar er nauðsynleg hagræðing og möguleikar á að skipuleggja saman veiðar og vinnslu betur en gert er í dag. Norðmenn eru sannfærðir um að með breyttri stýringu geti þeir aukið verðmæti aflans og þannig stefnt að því að ná sömu verðmætum og Íslendingar úr þeim afla sem þeir draga úr sjó.

Evrópusambandið hefur verið að festa aflamarkskerfi með framsali aflaheimilda í sessi. Á nákvæmlega sama hátt er aflamarkskerfið með framsali á veiðiheimildum eða veiðidögum fast í sessi í Færeyjum. Við Grænland og austurströnd Kanada eru aflamarkskerfi sem hafa leitt til hagræðingar og fækkunar skipa. Allsstaðar þurfa menn að kaupa sig inn í kerfið, hvort sem um er að ræða veiðidaga eða veiðiheimildir. Auðlindin er takmörkuð og aðganginum verður að stýra til að hindra ofveiði.

Ég sagði hér áðan að umræðan um íslenskan sjávarútveg væri oft á tíðum ómálefnaleg og að ómaklega væri að Samherja og raunar öðrum stórum sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi vegið. Því miður er það staðreynd að fréttastofur ríkisfjölmiðlanna hafa leitt þessa ómálefnalegu umfjöllun. Þeir sem gengið hafa hvað verst um auðlindina og vísvitandi brotið lög hafa átt greiðan aðgang að fréttastofunum og fréttir frá þeim verið fluttar gagnrýnislaust.

Umfjöllun um það sem vel er gert í sjávarútvegi fær á hinn bóginn ekki mikinn tíma í fjölmiðlum. Við höfum sótt mikil verðmæti í stofna utan íslenskrar landhelgi og þannig aflað Íslendingum veiðireynslu sem ella hefðu fallið öðrum þjóðum í skaut. Samherji er með tæpa 800 starfsmenn sem byggja afkomu sína beint á rekstri félagsins og framtíð þeirra er samofin framtíð félagsins. Ég er ekki að biðja um að farið verði um málefni sjávarútvegsins einhverjum silkihönskum, heldur einungis að Samherji og starfsfólk félagsins njóti sannmælis.

Þegar kemur að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar verðum við að stíga varlega til jarðar. Þegar fjallað er um sjávarútveg virðist sem sumum þingmönnum sé fyrirmunað að skilja að bætt lífskjör og kaupmáttur er sóttur í framleiðniaukningu. Kaupmáttaraukning á Íslandi undanfarin ár er meiri en annars staðar. Að sjálfsögðu er hluti hennar tilkominn vegna aukinnar framleiðni í sjávarútvegi. Þetta ásamt skerðingu aflaheimilda hefur haft í för með sér fækkun starfa í sjávarútvegi. Við sem í sjávarútvegi störfum stýrum ekki verðlagi á matvöru á heimsmarkaði. Framleiðsla verður að vera samkeppnisfær, annars hnignar viðkomandi grein og deyr að lokum. Um þetta höfum við á Íslandi fjölmörg dæmi, til dæmis í fata- og ullariðnaði sem nú er að mestu horfinn til annarra landa. Það er því grunnhyggið að einstaka stjórnmálaflokkar í okkar litla þjóðfélagi skuli reyna að telja okkur trú um að við getum haldið uppi sömu framleiðni og hagsæld í sjávarútvegi með því að taka aflaheimildir af einum og dreifa til annarra. Slíkar aðgerðir fjölga ekki störfum. Okkar fólk mun ekki starfa við að skapa verðmæti úr aflaheimildum sem aðrir veiða og vinna. Aðgerðir sem þessar eru aðeins ávísun á óhagkvæmari sjávarútveg með tilheyrandi afleiðingum fyrir fyrirtækin og fólkið sem hjá þeim starfar.

Ég tel að ekki eigi að hrófla við traustu stjórnkerfi sjávarútvegs sem átt hefur stóran þátt í að færa okkur þá auknu hagsæld sem við búum við í dag. Miklar breytingar á kerfinu munu raska starfsemi Samherja og högum okkar starfsmanna. Ef vandamál sjávarútvegsins eru verðmæti eigenda fyrirtækjanna þá þurfum við að hjálpast að við að leysa það vandamál. Til þess þarf ekki að kippa fótunum undan vel reknum fyrirtækjum þar sem farið er vel með auðlindina og verðmætasköpunin er hámörkuð. Margfeldisáhrif af rekstri Samherja eru gríðarleg, ekki síst á landsbyggðinni. Félagið greiddi á árinu 2002 fjóra milljarða í laun og launatengd gjöld og einnig greiddi það á sjötta hundrað milljónir í opinber gjöld.

Stuðla þarf að setningu skýrra og almennra leikreglna með öflugu og markvissu eftirliti og leyfa síðan því ágæta fólki sem við sjávarútveg starfar, hvort heldur er hjá Samherja eða öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, að vinna sín störf landsmönnum öllum til hagsbóta.

Allnokkur umræða hefur orðið um launakjör stjórnenda fyrirtækja að undanförnu og krafa hefur verið um að þau verði gerð opinber. Ég tel slíkar kröfur eðlilegar og Samherji hf. mun að sjálfsögðu veita þessar upplýsingar.

Laun mín vegna ársins 2002 voru 14,4 milljónir króna, eða sem svarar til tólfhundruð þúsund króna á mánuði. Auk þess fékk ég greiddar 2,9 milljónir á árinu 2002 vegna leiðréttingar á launum ársins 2001. Að þessum greiðslum meðtöldum voru heildarlaun mín vegna ársins 2001 11,7 milljónir króna. Félagið greiðir auk launa 10% aukaframlag í lífeyrissjóð og lætur mér í té bifreið til eigin nota sem af eru reiknuð bifreiðahlunnindi. Ekki er um nein frekari hlunnindi, kauprétt eða bónusgreiðslur að ræða mér til handa vegna starfs míns hjá Samherja. Í þessu sambandi má geta þess að á síðustu tveimur árum hafa átta sjómenn félagsins haft hærri laun en ég.

7 ÁÆTLUN ÁRSINS 2003

Á síðasta aðalfundi kynnti ég áætlanir félagsins fyrir árið 2002. Segja má að þær hafi staðist ágætlega þ.e. framleiðslu- og kostnaðarmarkmið. Hins vegar höfðu þær gríðarlegu gengisbreytingar sem urðu á árinu veruleg áhrif á rekstrartölur. Þannig varð EBITDA um 466 milljónum króna lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Aftur á móti hafði þessi styrking jákvæð áhrif á fjármagnsliði þannig að hagnaður ársins varð um 280 milljónum króna hærri en ráð var fyrir gert.

En að áætlunum fyrir árið 2003. Áætlun félagsins sem gerð var í lok síðasta árs, endurskoðuð með tilliti til þeirrar styrkingar sem orðið hefur á íslensku krónunni frá áramótum, gerir ráð fyrir að hagnaður félagsins fyrir skatta á árinu 2003 verði 1.255 milljónir króna, skattar eru áætlaðir 225 milljónir króna og hagnaður ársins því 1.030 milljónir króna.Veltufé frá rekstri er áætlað 1.700 milljónir króna.

Ljóst er að styrking krónunnar hefur veruleg áhrif á rekstur félagsins og sem dæmi má nefna að sú breyting sem orðið hefur á gengi íslensku krónunnar frá því í nóvember síðastliðnum þýðir um 700 milljóna króna lækkun á áætlaðri framlegð ársins 2003.

9. LOKAORÐ

Starfsmenn Samherja geta verið stoltir af meðferð og nýtingu auðlindarinnar og þeim verðmætum sem þeir hafa skapað með starfi sínu. Ég vil þakka þeim fyrir að standa þétt saman og láta ekki úthrópanir fárra færa sig af leið í starfi sínu. Ég veit að meðferð og nýting auðlindarinnar er góð og meiri verðmæti eða atvinna verður ekki sköpuð með öðru fólki, öðrum stjórnkerfum eða öðrum útgerðarháttum. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka hluthöfum, stjórn og viðskiptavinum félagsins fyrir samvinnuna og vona að við getum áfram átt farsælt samstarf.