Fundarstjóri, ágætu hluthafar og gestir!
Í ársskýrslu Samherja hf. fyrir árið 2003, sem þegar hefur verið afhent fundarmönnum, er að finna ársreikning félagsins fyrir sama ár.
Á blaðsíðu 23 kemur fram staðfesting stjórnar og forstjóra á reikningi félagsins. Áritun endurskoðenda er á blaðsíðu 24 og þar kemur fram að ársreikningurinn er gerður í samræmi við lög, samþykktir félagsins og góða reikningsskilavenju. Rekstrarreikningur félagsins er á blaðsíðu 25 og vil ég í upphafi máls míns gera grein fyrir helstu efnisatriðum hans.
Rekstur
Rekstrartekjur Samherja á liðnu ári voru 12.377 milljónir króna. Rekstrargjöld námu 10.125 milljónum og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam 2.252 milljónum króna. Afskriftir voru 1.144 milljónir króna og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 394 milljónir. Meðal fjármagnsliða er sérstök gjaldfærsla vegna niðurfærslu á hlutafjáreign í félögum, samtals 135 milljónir króna, svo og hagnaður vegna sölu á hlutabréfum að fjárhæð 78 milljónir króna. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 499 milljónir. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.212 milljónum króna og að teknu tilliti til tekjuskatts og hlutdeildar minnihluta var hagnaður ársins 1.067 milljónir króna.
Efnahagur
Efnahagsreikningur félagsins í árslok 2003 er á blaðsíðum 26 og 27 í ársskýrslunni. Þar kemur fram að veltufjármunir í árslok voru 6.167 milljónir króna og fastafjármunir 16.028 milljónir. Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir félagsins þannig samtals 22.195 milljónir króna.
Heildarskuldir í árslok voru 12.986 milljónir króna og bókfært eigið fé 8.974 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 40,4% í árslok.
Sjóðstreymi
Á yfirliti um sjóðstreymi á blaðsíðu 28 kemur fram að veltufé frá rekstri var 1.542 milljónir króna og handbært fé frá rekstri 1.111 milljónir.
Stjórnarformaður hefur þegar farið yfir fjárfestingar okkar síðastliðið ár og ég vísa því til ræðu hans og ársreiknings félagsins varðandi fjárfestingar ársins 2003.
Eins og áður segir er ársreikningurinn staðfestur af stjórn félagsins og forstjóra og áritaður af endurskoðendum.
Ársreikningurinn er hér með lagður fram til umræðu og afgreiðslu.
Útgerð
Veiðar og vinnsla uppsjávarafla gengu vel á árinu. Hin öflugu fjölveiðiskip félagsins hafa sannað gildi sitt og aukið sveiganleika flotans og þau verðmæti sem Samherji hefur náð úr uppsjávarheimildum félagsins. Á síðustu tólf mánuðum voru fryst 28 þúsund tonn af uppsjávarfiski um borð í frystiskipum Samherja.
Á árinu var haldið áfram að þróa blandaðar veiðar á frystiskipum félagsins og kom verulegur afli til vinnslu hjá frystihúsum Samherja frá skipum sem bæði unnu afla um borð og komu með ferskan fisk að landi í sömu veiðiferðinni. Þetta nýja veiðiform hefur gefið mjög góða raun. Það hefur skilað umtalsverðri verðmætaaukningu, m.a. vegna sveigjanleika í framleiðslustýringu og gæða þess hráefnis sem skipin færa á land.
Góður árangur af blönduðum veiðum hefur sýnt að veiðarfærin eru ekki afgerandi þáttur í því hvaða verð fæst fyrir hina endanlegu afurð. Það er vöruvöndun, ásamt stöðugu framboði og afhendingaröryggi, sem endanlega ráða úrslitum um viðtökur markaðarins - og þar með hvaða verð fæst fyrir afurðina. Ég er sannfærður um að þessar veiðar eru það sem koma skal og þær eru hluti af þeim svörum sem við eigum við vaxandi samkeppni á matvælamarkaði.
Reynsla okkar af þessum veiðum sýnir að stöðugleikinn er metinn úti á mörkuðunum, afkoma skipanna er góð og afköst landvinnslunnar aukast, afurðaverð er hærra og við náum að þjóna hinum verðmæta markaði okkar fyrir sjófrystar afurðir samhliða þessari verðmætaaukningu. Þeir sjómenn sem tóku þátt í þessum veiðum með okkur voru hæst launuðu sjómenn bolfiskskipa á Íslandi á þessum tíma.
Sú breyting varð á skipastól félagsins á árinu að á haustdögum var Margréti EA lagt tímabundið og Þorsteinn EA seldur ásamt veiðiheimildum í kolmunna, síld og loðnu. Samningar um förgun á Hríseyjunni og Seley eru nú á lokastigi og er stefnt að því að fjarlægja skipin úr Akureyrarhöfn á yfirstandandi ári.
Samherji hefur um langt árabil fylgt þeirri stefnu að ráða eina og hálfa áhöfn á hvert skip félagsins. Það er gert til að tryggja áhöfninni eðlilegt frí og jafnari launagreiðslur. Þessi stefna hefur reynst félaginu afar farsæl en jafnframt mælst mjög vel fyrir meðal starfsmanna félagsins
Til marks um þann stöðugleika sem ríkir í starfsemi Samherja má nefna að vinnsla féll ekki niður einn einasta vinnsludag á árinu í landvinnslustöðvum Samherja á Akureyri, Dalvík og Stöðvarfirði. Ég hygg að þetta sé býsna fátítt hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en helst fullkomlega í hendur við stöðugleikann í útgerð Samherja og þá stefnu sem fylgt er í sölu og markaðssetningu afurða. Þessi stöðugleiki hefur auðvitað jafnframt mikla þýðingu fyrir starfsfólk okkar.
Landvinnsla
Árið 2003 var merkilegt í sögu Samherja að því leyti að bolfiskvinnsla í landi jókst umtalsvert á kostnað vinnslu úti á sjó. Unnið var úr tæpum 8.000 tonnum í frystihúsinu á Dalvík á árinu 2003 en til samanburðar má nefna að á árinu 2000 var unnið úr 4.300 tonnum. Hausaþurrkun félagsins hefur á sama tíma vaxið úr 3.000 tonnum í 6.200 tonn. Framleiðsla á ferskum afurðum hefur vaxið verulega á undanförnum tveimur árum og fer væntanlega yfir 1.000 tonn í ár. Þá hefur aldrei verið unnið meira af rækju á einu ári hjá félaginu. Framleitt var úr 11.500 tonnum af hráefni, samanborið við 9.300 tonn árið áður.
Stöðugt er unnið að því að auka afköst, bæta nýtingu og tryggja gæði. Sem dæmi um það má nefna að rækjuvinnsla félagsins á Akureyri framleiðir nú um 20 tonn af afurðum á dag, sem er álíka mikið og rækjuvinnslan framleiddi á viku fyrir örfáum árum - og það með sama mannafla.
Í Grindavík hafa miklar endurbætur staðið yfir á verksmiðjunni allt frá árinu 1997 og má segja að þeim hafi lokið 2003. Með endurbættum tækjakosti afkastar verksmiðjan nú 1.500 tonnum á sólarhring og hefur afkastagetan nær þrefaldast frá 1997.
Fiskeldi
Samherji hefur á undanförnum árum haslað sér völl í fiskeldi. Sú starfsemi var sett undir einn hatt á árinu með stofnun Oddeyrar ehf., sem er eignarhaldsfélag um allar eignir Samherja sem tengjast fiskeldi. Stefnt er að stækkun félagsins þannig að það eigi ráðandi eignarhluti í félögum sem annast allt eldi, frá seiðum að markaði.
Fiskeldisframleiðslan gekk vel á árinu en hins vegar varð mikið verðfall á mörkuðum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Einnig hafði sterk staða íslensku krónunnar veruleg áhrif til hins verra á afkomu greinarinnar.
Á yfirstandandi ári mun fiskeldi hjá félögum í eigu Oddeyrar ná fullum afköstum miðað við núverandi fjárfestingar. Stefnt er að enn frekari stækkun félagsins og Samherji mun halda ótrauður áfram á þeirri braut sem mörkuð var fyrir fjórum árum.
Enn sem fyrr er ljóst að fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddurinn í sjávarútvegi og við hyggjumst halda því forystuhlutverki sem við höfum tekið á þessu sviði hérlendis. Miðað við markaðsverð á laxi í dag og áætlanir félagsins er gert ráð fyrir að rekstur Oddeyrar muni skila hagnaði árið 2005.
Upplýsingakerfi
SAP-hugbúnaðarkerfi var tekið í notkun hjá Samherja snemma árs 2003. Með tilkomu kerfisins gerbreyttist upplýsingaflæði í félaginu til hins betra. Kerfið auðveldar áætlanagerð og eykur alla yfirsýn yfir framleiðsluna og reksturinn. Allt frá því að ákvörðun um innleiðingu kerfisins var tekin höfum við aldrei horft til baka og ég er í dag sem fyrr sannfærður um að við tókum rétta ákvörðun.
Erlend starfsemi Samherja
Afkoma erlendra dóttur- og hlutdeildarfélaga Samherja var mjög góð á árinu. Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið lögð í útrás félagsins og það starf er nú byrjað að skila umtalsverðum árangri.
Ég ætla nú í stuttu máli að gera grein fyrir helstu þáttum í útrás Samherja á undanförnum árum og því sem framundan er.
Árið 1995: Hlutur keyptur í DFFU í Þýskalandi
Frystiskipaútgerð í þýskalandi, 4 skip
Árið 1995: Framherji í Færeyjum stofnaður
Frystiskipaútgerð, eitt skip
Árið 1996: Seagold á Englandi stofnað
Söluskrifstofa með sjófrystan fisk
Árið 1997: Onward Fishing Company í Skotlandi keypt
Ferskfisktogarar, þrjú skip
Árið 1997: Keyptur hlutur í Ocean Seafood
Útgerð á austurströnd Bandaríkjanna
Árið 1997: EM Shipping í Færeyjum stofnað
Uppsjávarskip
Árið 1998: Elke M í Þýskalandi keypt
Ferskfisktogari
Árið 2000: Hlutur keyptur í Hussman & Hahn í Þýskalandi
Framleiðandi á fersku og frosnu sjávarfangi fyrir Þýskalandsmarkað
Árið 2001: Kvíarvinnsla sett upp í Þýskalandi
Árið 2003: Útgerð hafin í Póllandi undir nafni Atlantex
Eitt frystiskip
Árið 2003: Rekstur H&H endurskipulagður og sameinaður Pickenpack
Árið 2003: Onward Fishing Company kaupir umtalsverðar viðbótaraflaheimildir í Englandi
Árið 2003: Hlutabréf keypt í Fjord Seafood í Noregi
Árið 2003: Uppsjávarskip EM Shipping í Færeyjum endurnýjað
Árið 2004 Keyptur hlutur í Boyd Line í Bretlandi
Þessi upptalning er að ég hygg einstök þegar íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki á í hlut. Hér er um að ræða þátttöku í atvinnurekstri í fimm Evrópulöndum og í fleiru en einu fyrirtæki í sumum þessara landa. Í nokkrum tilvikum hefur Samherji átt aðild að rekstrinum í nærfellt áratug og sótt jafnt og þétt fram.
Ljóst er að þátttaka Samherja í þessum atvinnurekstri á erlendri grund hefur skilað mikilli þekkingu og reynslu inn í félagið sem mun nýtast til framtíðar. Unnið hefur verið markvisst að því að koma félögunum í arðbæran rekstur og gera þau í stakk búin til að vaxa og takast á við krefjandi verkefni í framtíðinni.
Þegar Samherji keypti Onward (OFC) gerði félagið út þrjú ísfiskskip. Félagið var í miklum taprekstri og hafði ekki lagað sig að umtalsverðum niðurskurði þorskveiðiheimilda í Barentshafi og Norðursjó. Nú á félagið eitt frystiskip, Normu Mary, sem áður hét Akureyrin EA. Onward Fishing Company stendur nú traustum fótum og er að skila góðri framlegð til reksturs Samherja.
Samherji stofnaði Seagold til að stýra sjálft sölu á sjófrystum afurðum félagsins. Allar götur frá stofnun hefur félagið vaxið og dafnað og liðið ár var metár í rekstri þess á öllum sviðum. Mikil aukning var í sölu félagsins á ferskum og frystum afurðum frystihússins á Dalvík á liðnu ári. Þá seldi Seagold tæp 6.000 tonn af sjófrystum þorsk- og ýsuflökum af frystiskipum Samherja á Íslandi og frá dóttur- og hlutdeildarfélögum í Færeyjum, Skotlandi og Þýskalandi. Gera má ráð fyrir því að velta Seagold á yfirstandandi ári verði um fimm milljarðar króna.
Seagold er í dag stærsti einstaki aðilinn í sölu sjófrystra flaka á Bretlandi, sem er einn af okkar verðmætari mörkuðum. Við höfum ennþá mikla trú á markaði fyrir sjófrystan fisk og Bretar eru sammála okkur því samkvæmd nýlegri, breskri könnun er Fish & Chips sá hlutur sem Bretum sjálfum finnst enskara en allt það sem enskt er - þar með talin sjálf drottningin!
Samherji hefur frá árinu 1995 verið aðili að útgerð í Færeyjum. Í upphafi keypti Framherji frystiskip og breytti umtalsvert í átt að því sem við þekkjum hérlendis. Rekstur þess hefur gengið vel og skilað fiski inn í sölukerfi Samherja og þekkingu inn í fyrirtækið, sérstaklega á úthafsveiðum í Barentshafi.
Framherji keypti árið 1997 skip sem hafði leyfi til uppsjávarveiða úr kvótum Færeyja. Fyrirtækið keypti strax skip af Samherja og hóf veiðar og á liðnu ári var það skip endurnýjað með fullkomnu uppsjávarskipi.
Árin okkar í Þýskalandi hafa oft verið erfið. Strax og við komum að útgerð þar var ljóst að gera þurfti umtalsverðar breytingar til þess að rekstur frystiskipa við þáverandi aðstæður gæti gengið. Á þessum tíma höfum við tvisvar gert kjarasamning við sjómenn. Fyrst árið 1995 og aftur í nóvember síðast liðnum. Í þessum samningum hafa verið gerðar róttækar breytingar sem eru hagstæðar bæði fyrirtækinu og sjómönnum þess og gera okkur kleift að hafa sveigjanleika í rekstri skipanna, sem áður var nánast ómögulegt.
Hugmynd okkar með kaupum á Hussmann og Hahn var að byggja upp ferskfiskvinnslu á meginlandinu, svipaða þeirri sem þekkist í Bretlandi. Það snerist um að koma ferskum fiski í neytendaumbúðum inn í stórmarkaði og ná þannig stöðugra verði og ásættanlegri afkomu. Okkur tókst þetta ekki af margvíslegum ástæðum en við erum þó enn þeirrar skoðunar að þetta sé framtíðin fyrir ákveðnar fiskafurðir. Hins vegar fluttum við kavíarvinnslu til H&H í samstarfi við Grænlendinga og hefur hún gengið vel og vaxið.
Eftir að hafa gert nokkrar breytingar á rekstri H&H sameinuðum við hluta starfseminnar inn í Pick and Pack, sem er stór aðili í framleiðslu á tilbúnum, frosnum fiskréttum. Sameinuð eru þessi félög sjálfsagt stærsti einstaki framleiðandi í heimi á sínu sviði en sameinað félag framleiddi á liðnu ári um 70 þúsund tonn af afurðum. Í slíka framleiðslu þarf það nálægt 200 þúsund tonn af slægðum fiski, sem er svipað magn og allur þorskafli af Íslandsmiðum árið 2003.
Eftir mikla uppstokkun á rekstrinum í Þýskalandi er Samherji nú þáttakandi í mjög öflugum félögum sem hafa alla burði til að vaxa og dafna á komandi árum.
Það er ljóst að þessi útrás hefur kostað mikla vinnu en hins vegar er fjárbinding vegna útrásarverkefna lítil. Vegna umræðna sem hafa átt sér stað um erlend umsvif Samerja tel ég rétt að það komi fram að eignir Samherja erlendis eru bókfærðar á 627 milljónir króna í árslok 2003 en félagið hefur innleyst um 800 milljóna króna HAGNAÐ vegna sölu eigna erlendis. Áætlanir gera ráð fyrir að velta þeirra erlendu félaga sem Samherji er þáttakandi í verði á árinu 2004 helmingi meiri en velta Samherja á Íslandi eða alls 24 milljarðar íslenskra króna. Þorskafli utan lögsögu Íslands hjá Samherja og þessum fyrirtækjum er áætlaður tæp 13 þúsund tonn sem er ívið meira en allar þorskveiðiheimildir Samherja á Íslandi. Nettó skuldir fyrirtækjanna beggja í Færeyjum, Atlantex í Póllandi, Onward Fishing Company í Skotlandi og DFFU, Elke M Pickenpak H&H í Þýskalandi eru þrír og hálfur miljarður króna. Þar með taldar eru allar skuldir vegna fjárfestinga á 40% hlut í Pickenpack.