Ræða: Þorsteinn Már Baldvinsson, aðalfundur 2002

Ræða flutt á aðalfundi Samherja fimmtudaginn 11. apríl 2002 

Fundarstjóri, ágætu hluthafar og gestir!

Í ársskýrslu Samherja hf. fyrir árið 2001, sem þegar hefur verið afhent fundarmönnum, er að finna ársreikning félagsins fyrir sama ár.

Á blaðsíðu 17 kemur fram staðfesting stjórnar og forstjóra á reikningi félagsins. Áritun endurskoðenda er á blaðsíðu 18 og þar kemur fram að ársreikningurinn er gerður í samræmi við lög, samþykktir félagsins og góða reikningsskilavenju.

Rekstrarreikningur félagsins er á blaðsíðu 19 og vil ég í upphafi máls míns gera grein fyrir helstu efnisatriðum hans.

1 AFKOMAN


1.1 Rekstur
Rekstrartekjur Samherja á liðnu ári voru 13.043 milljónir króna. Rekstrargjöld námu 9.431 milljón og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam 3.612 milljónum króna. Afskriftir voru 1.026 milljónir króna og fjármagnsliðir að meðtöldum áhrifum hlutdeildarfélaga voru neikvæðir um 1.314 milljónir króna. Þar af nam gengismunur 1.048 milljónum króna en gengi íslensku krónunnar lækkaði um rúm 20% á árinu. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir tekjuskatt nam um 1.272 milljónum króna.
Hagnaður af reglulegri starfsemi eftir skatta nam 1.258 milljónum króna. Tap af sölu eigna að frádregnum tekjuskatti nam 150 milljónum króna og hagnaður ársins var því 1.108 milljónir króna.
Ef litið er á sjóðstreymi, var veltufé frá rekstri samstæðu 3.092 milljónir króna, sem hlýtur að teljast mjög góð niðurstaða.

1.2 Fjárfestingar
Fjárfesting varanlegra rekstrarfjármuna nam 675 milljónum króna á árinu. Þar af námu fjárfestingar í hlutdeildarfélögum 349 milljónum króna.
Stærsta einstaka fjárfestingin var 45,3% hlutur í Silfurstjörnunni ehf. í Öxarfirði sem keyptur var á rúmar 109 milljónir króna en heildarfjárfesting Samherja á árinu í fiskeldisfyrirtækjum nam alls 235 milljónum króna. 52 milljónum króna var varið til kaupa á hlut í Snæfugli ehf. og 52 milljónum til kaupa á hlut í grænlenska útgerðarfyrirtækinu Ulloriaq, hlutdeildarfélags Onward Fishing Company.
Fjárfestingar í skipastól Samherja námu 125 milljónum króna á árinu, fjárfestingar í mjölverksmiðju félagsins í Grindavík námu 53 milljónum og loks var fjárfest í aflaheimildum fyrir 148 milljónir króna.

1.3 Efnahagur
Efnahagsreikningur félagsins í árslok 2001 er á blaðsíðum 20 og 21 í ársskýrslunni. Þar kemur fram að veltufjármunir voru í árslok 6.639 milljónir króna og fastafjármunir 11.473 milljónir. Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir félagsins þannig samtals 18.112 milljónir króna.
Heildarskuldir í árslok voru 11.893 milljónir króna og bókfært eigið fé 6.219 milljónir.

1.4 Kennitölur
Kennitölur í árslok 2001 sýna að eiginfjárhlutfallið var þá 34,3%, veltufjárhlutfall 1,50, og veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum var 24%.

Eins og áður segir er ársreikningurinn staðfestur af stjórn félagsins og forstjóra og áritaður af enduskoðendum. Ársreikningurinn er hér með lagður fram til umræðu og afgreiðslu.

2 REKSTUR ÁRSINS 2001

Góðir fundarmenn!
Ég vil nú víkja nánar að einstökum þáttum í rekstri Samherja á árinu.
Félagið er stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á Íslandi. Það er með starfsemi á fjórum stöðum hér á landi og þátttakandi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja í fjórum öðrum löndum Evrópu, þ.e. í Skotlandi, Englandi, Þýskalandi og Færeyjum. Ég ætla hér að fara lauslega yfir einstaka þætti í rekstrinum á árinu 2001.

2.1 Frystiskip
Samherji gerði allt árið 2001 út 4 frystiskip. Að auki var Margrét gerð út á frystingu hluta úr ári en var hluta ársins á ísfiskveiðum fyrir landvinnslu félagsins.
Bolfiskveiðar gengu vel á árinu 2001, sérstaklega gengu veiðar vel í Barentshafi og á Reykjaneshrygg og betur en gert var ráð fyrir. Heildarafli bolfiskveiðiskipa Samherja á síðasta ári var tæplega 32 þúsund tonn og aflaverðmæti um 4,5 milljarðar króna.

Í mínum huga er tilkoma Vilhelms Þorsteinssonar EA eitt stærsta framfaraspor í útgerð Samherja. Skipið kom til landsins í september 2000, en vinnslubúnaður var settur um borð í lok þess árs. Vinnsla uppsjávarafurða úti á sjó er flókið og viðamikið verkefni, sem ekki hafði áður verið tekist á við hér á landi. Það var ljóst að langan tíma myndi taka að ná fullum afköstum um borð, en um mitt ár 2001 var settu marki náð. Við gerðum okkur alltaf grein fyrir því að smíði Vilhelms Þorsteinssonar EA væri mikil áhættufjárfesting, en reynslan hefur sýnt að þessi fjárfesting var réttmæt og til þess fallin að auka fjölbreytni og styrkja rekstur Samherja.

Útgerð skips eins og Vilhelms Þorsteinssonar krefst góðrar samvinnu áhafnar, útgerðar og stéttarfélaga og ég tel að þar hafi tekist vel til. Skipið hefur aflað mikilla verðmæta, afköstin hafa verið allt að 120 tonn af síldarflökum á sólarhring og aflaverðmæti á sólarhring hefur farið upp í um 15 milljónir króna. Afurðunum er komið fyrir í lestinni á plöstuðum brettum og einungis tveir menn á lyfturum eru í lest við löndun úr skipinu. Þetta flýtir löndun verulega sem skilar sér í betri nýtingu skipsins en ella.

Á sjö mánaða tímabili á síðasta ári, frá lokum sjómannaverkfalls þann 20. maí og til jóla, landaði Vilhelm Þorsteinsson 8 þúsund tonnum af frystum afurðum og 12 þúsund tonnum af fersku hráefni til vinnslu í landi. Skipið landaði á þessu tímabili 27 sinnum og stoppaði að meðaltali 18,5 klukkustundir meðan á löndun stóð. Samtals var skipið því 21 sólarhring í landi frá verkfallslokum á síðasta ári til jóla.
Lest Vilhelms Þorsteinssonar tekur um 500 tonn af frystum afurðum á brettum og reiknum við með því að í framtíðinni taki einungis um tólf klukkustundir að landa fullfermi úr skipinu.

Á síðasta ári var ákveðið að selja Baldvin Þorsteinsson EA til DFFU, en í hans stað kemur Hannover NC inn í flota Samherja.
Samherji hefur gert Baldvin Þorsteinsson EA út frá því í nóvember 1994 og í öll þessi ár hefur skipið reynst einstaklega vel og skapað mikil verðmæti fyrir fyrirtækið og þjóðarbúið. Samanlagt aflamagn Baldvins Þorsteinssonar í þau ár sem Samherji hefur gert hann út er 70.552 tonn og miðað við fiskverð í dag er aflaverðmætið röskir 8 milljarðar króna. Í byrjun þessarar viku kom Baldvin Þorsteinsson úr sinni síðustu veiðiferð undir merkjum Samherja. Veiðiferðin stóð í 30 daga og var aflinn rúm eitt þúsund tonn upp úr sjó og aflaverðmætið um 120 milljónir króna.

Athyglisvert er að af heildarafla Baldvins Þorsteinssonar hefur tæpur helmingur verið grálúða og karfi sem unninn hefur verið fyrir Japansmarkað. Mest er þetta úthafskarfi sem skipið hefur veitt á Reykjaneshrygg, en þar voru veiðar íslenskra fiskiskipa sem næst óþekktar þegar útgerð Baldvins Þorsteinssonar hófst árið 1994. Japanir eru kröfuharðir kaupendur, sem vilja fyrst og fremst sjófrystar sjávarafurðir, en þeir eru jafnframt tilbúnir að borga hátt verð fyrir gæðavöru. Baldvin Þorsteinsson er gott dæmi um skip sem hefur uppfyllt þessar kröfur japanskra kaupenda og um leið skapað mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið. Þessara verðmæta hefði ekki verið aflað nema með öflugum skipum sem frysta aflann um borð. Verðmæti þess úthafskarfa sem Baldvin Þorsteinsson hefur veitt fyrir Japansmarkað er á fjórða milljarð króna.

Skipspláss á Baldvin Þorsteinssyni hafa verið mjög eftirsótt og það er rétt að taka fram að nær allir sjómenn á skipinu hafa í gegnum tíðina verið búsettir á Eyjafjarðarsvæðinu. Heildarlaunagreiðslur til sjómanna á Baldvin Þorsteinssyni í þau ár sem Samherji hefur gert skipið út eru á núverandi verðlagi á fjórða milljarð króna. Það er því ljóst að rekstur Baldvins Þorsteinssonar hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir Eyjafjarðarsvæðið ekki síður en Samherja hf.

Ákvörðun um sölu á Baldvin Þorsteinssyni og kaup á Hannover er liður í endurskipulagningu á skipastól Samherja. Hannover er nú í lengingu og umfangsmiklum breytingum í Lettlandi og eftir þá aðgerð verður skipið eitt af öflugri fjölveiðiskipum flotans, með fullkomna aðstöðu til veiða og vinnslu á uppsjávarfiski og rækju. Á þessu ári verður einnig settur búnaður til vinnslu uppsjávarfisks um borð í Þorstein EA, en hann var lengdur fyrir tveimur árum. Eftir þessar breytingar á flotanum, sem verður lokið á haustdögum, mun Samherji hafa yfir að ráða þremur stórum og öflugum fjölveiðiskipum sem vinna og frysta afla um borð. Það er trú okkar að með þessum breytingum hafi félagið yfir að ráða öflugum flota sem geti skapað meiri verðmæti úr úthlutuðum aflaheimildum félagsins en ella.

Skipastóll Samherja er í góðu ásigkomulagi og endurfjárfestingarþörf hans eftir áðurnefndar breytingar því lítil á næstu árum. Miðað við núverandi aflaheimildir teljum við að hægt sé að gera þessi skip út á hagkvæman hátt.

2.2 Uppsjávarveiði og vinnsla
Veiðar á loðnu og kolmunna gengu vel á árinu en ljóst er að ef ekki kemur til svokallaður frumherjaréttur í kolmunna við úthlutun aflaheimilda, hefur hlutdeild Samherja í veiðunum minnkað og úthlutun félagsins verður ekki eins mikil og ráð var fyrir gert.
Samherji er eitt af þeim sjávarútvegsfyrirtækum hér á landi sem fyrst hóf kolmunnaveiðar. Samherji lagði í umtalsverðan kostnað við þróun þessara veiða sem aðrir nutu síðan góðs af. Það urðu mér því mikil vonbrigði að sjávarútvegsráðherra skyldi ekki við bráðabirgðaúthlutun kolmunnakvótans nú nýverið nýta heimild í lögum um frumherjarétt. Við úthlutun úthafskarfa- og rækjukvóta á Flæmingjagrunni þótti sjálfsagt mál að horfa til frumherjaréttar. Ég trúi ekki öðru en að ráðherra muni nýta sér þessa heimild við endanlega úthlutun kolmunnakvótans þannig að Samherji fái notið frumkvöðlastarfs við þróun kolmunnaveiða.

Veiðar í Síldarsmugunni gengu ekki sem skyldi á síðasta ári, en vel gekk að veiða í lögsögu Noregs. Ekki náðist að veiða allar aflaheimildir félagsins í síldarstofninum við Ísland.
Verksmiðja félagsins í Grindavík tók á móti um 93.000 tonnum af hráefni sem er sama magn og árið á undan. Síldarfrysting var í fyrsta skipti hjá Samherja í Grindavík og var tekið á móti 2.520 tonnum af síld til frystingar. Reksturinn í Grindavík gekk mjög vel á síðasta ári og auk vel heppnaðrar síldarfrystingar voru þar fryst um eitt þúsund tonn af loðnuhrognum.

2.3 Rækjuveiðar og vinnsla
Unnið var úr 9.300 tonnum af rækju í verksmiðju félagsins á Akureyri. Hráefnisöflun var að helmingi frá skipum á Íslandi og skipum tengdum erlendri starfsemi félagsins en að helmingi var hráefni keypt á markaði af útgerðum norskra skipa. Þetta er mesta magn hráefnis sem framleitt hefur verið úr hjá Strýtu og eru viðamiklar endurbætur á verksmiðjunni, sem gerðar voru árið 2000, að skila sér að fullu inn í reksturinn. Afkoma rækjuvinnslunnar var góð á árinu 2001 og raunar sú besta frá upphafi.

2.4 Landvinnsla í Dalvíkurbyggð
Í Dalvíkurbyggð rekur félagið tæknivædda fiskvinnslu og pökkunarstöð sem framleiðir fyrst og fremst niðurskorna fiskbita og pakkar þeim til sölu í erlendum stórmörkuðum. Tvö ísfiskveiðiskip, Björgúlfur og Kambaröstin, öfluðu hráefnis fyrir landvinnsluna á Dalvík og einnig kom Hjalteyrin EA, sem áður hét Snæfell og var leyst til Samherja í kjölfar gjaldþrots Nasco, inn í hráefnisöflun fyrir landvinnsluna á síðari hluta ársins. Að auki var haft samstarf við Fiskiðjusamlag Húsavíkur um að Samherji veiddi bolfiskheimildir þess á skipum félagsins. Með þessu náðist betri nýting á skipastólnum auk þess sem ferskara hráefni barst að landi. Þessi tilhögun gekk vel og rekstur frystihúsa félagsins einnig.
Á árinu var farið í umfangsmiklar umbætur á hausaþurrkun félagsins á Dalvík með það að markmiði að auka afköst en samhliða þessari aðgerð fóru frystiskip Samherja að hirða þá þorskhausa sem falla til við vinnslu úti á sjó.

2.5 Onwward Fishing Company
Starfsemi Onward Fishing Company, dótturfélags Samherja í Skotlandi, gekk vel á árinu og er endurskipulagning félagsins langt komin. Skipastóllinn hefur breyst mikið þar sem öll skip sem félagið átti þegar Samherji kom að því hafa verið seld. Mikilvægur þátttur í endurskipulagningu félagsins er að finna skip í stað Normu Mary, en leigusamningur vegna skipsins rennur út síðar á þessu ári. Ekki er gert ráð fyrir að auka fjárfestingar Samherja í skipastól þessu tengdu. Við Stefnum að því að færa til skip innan félagsins eða tengdra félaga og ná þannig enn betri nýtingu á skipastólnum en nú er.
Hagnaður varð af reglulegri starfsemi Onward Fishing Company á árinu 2001.

2.6 Sölu- og markaðsstarf
Í kjölfar aukinna umsvifa markaðs- og sölusviðs Samherja var á árinu 2001 ráðinn framkvæmdastjóri þess.
Góðar horfur eru fyrir sölu afurða Samherja á árinu og standa vonir til þess að afurðaverð verði áfram hátt.
Á árinu 2001 fór Samherji að selja hluta rækjuafurða sinna beint frá skrifstofu félagsins á Akureyri. Til að bregðast við aðstæðum á rækjumarkaði hefur eitt starf sölustjóra verið flutt til Bretlands með það að markmiði að selja stærri hluta afurðanna beint. Á árinu stofnaði Samherji ásamt Síldarvinnslunni í Neskaupstað sölufyrirtækið Sæblikann, sem annast sölu á kældum og frystum uppsjávarafurðum félaganna. Starfsemi þessa nýja félags fór vel af stað.
Fyrirsjáanlegt er að umsvif sölu- og markaðsdeildar Samherja muni aukast enn frekar á komandi árum.

3 FISKVEIÐISTJÓRNUN

Ég hef oft sagt það á undanförnum árum að það er Samherja sem og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum afar mikilvægt að búa við stöðugt fiskveiðistjórnunarkerfi sem taki ekki breytingum frá einum degi til annars. Stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja verða að hafa vitneskju um það fram í tímann hvaða kerfi fyrirtækjunum er ætlað að starfa eftir. Nútíma sjávarútvegur krefst mikilla fjárfestinga ekki síst vegna síaukinna krafna um jöfn gæði og rekjanleika afurða. Kaupendur gera í auknum mæli kröfur um langtímasamninga varðandi sölu afurða. Þess vegna gerum við sem í sjávarútveginum störfum þá kröfu til stjórnvalda að greininni sé skapaður rammi til langs tíma.

Útvegsmenn studdu að tekið verði upp svokallað takmarkað veiðileyfagjald til þess að ná sátt og einingu meðal þjóðarinnar um sjávarútveginn. Því miður hefur það ekki gengið eftir. Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að ýmsir landsbyggðarþingmenn hafa ítrekað kallað eftir hærri álögum á sjávarútveginn en frumvarp sjávarútvegsráðherra um endurskoðun á fiskveiðistjórnuninni gerir ráð fyrir. Það er alveg ljóst að ef ætlunin er að skattleggja sjávarútveginn enn frekar en nú er gert ráð fyrir, mun það koma harkalega niður á fjárfestingum í sjávarútvegi, sem þó eru víða nauðsynlegar til þess að mæta auknum kröfum í okkar helstu markaðslöndum.

Það veldur mér áhyggjum að á undanförnum mánuðum, allt frá því að svokallaður Valdimarsdómur féll, hefur skipum fjölgað verulega hér á landi. Það hlýtur að vera stjórnvöldum umhugsunarefni að í okkar heimshluta er Ísland eina landið þar sem ekki er hamlað gegn óheftri stækkun fiskiskipaflotans. Með fjölgun fiskiskipa að undanförnu hefur verið kastað fyrir róða þeim ótvíræða ávinningi sem hafði náðst hér með fækkun skipa. Þessi þróun hefur leitt til þess að sum skip eru gerð út án veiðiheimilda og hafa sömu aðilarnir ítrekað komið við sögu hjá Fiskistofu vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni. Fjölgun skipa veldur pólitískum þrýstingi á aukningu aflaheimilda án þess að baki liggi vísindaleg rök. Þetta er að mínum dómi í meira lagi varasöm þróun og ávísun á óhagkvæmari sjávarútveg.

4 UPPGJÖRSAÐFERÐ

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um verðleiðréttingar í reikningsskilum í kjölfar lagasetningar um afnám þeirra. Athygli vakti að löggjafarvaldið sá þó sérstaka ástæðu til að heimila fyrirtækjum að halda verðleiðréttingum áfram næstu tvö ár, þ.e. 2002 og 2003. Nú nýverið hefur hins vegar Reikningsskilaráð beint þeim tilmælum til Verðbréfaþings að þingið setji reglur í þá veru að reikningsskil allra fyrirtækja á þinginu verði án verðleiðréttinga. Verðbréfaþing hefur í kjölfarið beint þeim tilmælum til skráðra félaga að þau beiti ekki verðleiðréttingum í reikningsskilum sínum vegna áranna 2002 og 2003. Fram hefur komið í umræðunni að einstaka atvinnugreinar vilji halda í þessi verðbólgu-reikningsskil næstu tvö árin - í og með til að sýna betri afkomu - og er þá sérstaklega bent á skuldsettan sjávarútveg.

Það er skoðun okkar hjá Samherja að öll fyrirtæki eigi að beita sambærilegum aðferðum í reikningsskilum sínum - enda teljum við það í þágu fjárfesta sem eiga þar með auðveldara með að bera saman rekstur einstakra fyrirtækja. Því hefur stjórn Samherja tekið þá ákvörðun að fara að tilmælum Verðbréfaþings og beita ekki verðleiðréttingum í reikningsskilum fyrir árið 2002. Þetta mun að sjálfsögðu hafa áhrif á hagnað ársins og í því sambandi má benda á að á árinu 2001 voru reiknaðar tekjur vegna verðlagsbreytinga tæpar 416 milljónir króna.

5 ARÐGREIÐSLUR

Eins og fram hefur komið leggur stjórn félagsins til að greiddur verði 30% arður til hluthafa vegna rekstrarársins 2001 og er það hæsta hlutfall sem félag á Verðbréfaþingi greiðir vegna ársins 2001. Það er skoðun mín - og kom m.a. fram í máli mínu á síðasta aðalfundi Samherja - að ég teldi nauðsynlegt fyrir félag eins og Samherja að greiða góðan arð, m.a. til þess að gera félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti. Ég tel að fyrirtæki á hlutabréfamarkaði hafi ekki horft nægilega mikið til þess að greiða eigendum sínum viðunandi arð. Góður arður hluthafa af fjárfestingum eflir trú almennings á atvinnulífið í landinu og styrkir það þegar til lengri tíma er litið.

6 HORFUR


6.1 Áætlanir ársins
Ég mun nú eins og á síðasta aðalfundi Samherja kynna áætlanir móðurfélagsins fyrir árið 2002
Vinna við rekstraráætlunfyrir yfirstandandi ár fór fram í lok síðasta árs. Hún byggir á úthlutun aflaheimilda eins og þær voru fyrir fiskveiðiárið 2001-2002 og að þær aflaheimildir verði óbreyttar fyrir fiskveiðiárið 2002-2003. Ekki er gert ráð fyrir gengisbreytingum á árinu. Áætlun er gerð fyrir hverja deild félagsins og þeim sett framleiðslu- og hagnaðarmarkmið. Í hráefnisáætlunum er gert ráð fyrir að taka á móti 100 þúsund tonnum í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík auk þess sem gert er ráð fyrir að taka til frystingar tæp 4.000 tonn. Á Dalvík er gert ráð fyrir að vinna úr um 7.000 tonnum af þorski og ýsu og í rækjuverksmiðju félagsins á Akureyri um 9.000 tonnum. Áætlanirnar gera ráð fyrir að skip félagsins nýti úthlutaðar aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári. Þá er gert ráð fyrir að markaðir verði stöðugir og afurðaverð haldist áfram gott.

Tekjur ársins eru áætlaðar 13.813 milljónir króna, rekstrargjöld 10.350 milljónir króna,
og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 3.463 milljónir. Gert er ráð fyrir að afskriftir verði 1.011 milljónir króna og fjármagnsgjöld eru áætluð 500 milljónir. Hagnaður móðurfélagsins árið 2002 er áætlaður 1.601 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað rúmar 3000 milljónir.

7 BRÁÐABIRGÐA UPPGJÖR

Sjávarútvegur er sveiflukennd atvinnugrein. Bæði sveiflast afkoma milli ára en einnig eru miklar sveiflur á afkomu innan ársins sérstaklega hjá félögum í uppsjávarveiðum og vinnslu. Nú í ár er félögum á Verðbréfaþingi skylt að birta í fyrsta sinn þriggja mánaða uppgjör. Afkoma á fyrsta fjórðungi hjá fyrirtæki eins og Samherja er betri en á öðrum tíma ársins og þriggja mánaða uppgjör getur því gefið misvísandi skilaboð um afkomu ársins. Samkvæmt bráðabirgðatölum þá er hagnaður móðurfélags Samherja á fyrsta ársfjórðungi ársins 2002, eftir reiknaða skatta upp á tæpar 200 milljóni,r um 850 milljónir króna. Ég er ánægður með þá niðurstöðu og er hún heldur betri en áætlanir okkar gerður ráð fyrir. Megin ástæða þessa er að fjármagnsliðir eru jákvæðir um 200 milljónir vegna styrkingar íslensku krónunar frá áramótum.

8 LOKAORÐ

Góðir fundarmenn!
Liðið ár hefur verið viðburðaríkt hjá Samherja. Reksturinn gekk almennt vel, við fórum inn á nýjar brautir í útgerð á árinu sem mun styrkja félagið enn frekar og auka fjölbreytni í starfsemi þess.

Til að gefa eilitla mynd af umfangi rekstrar Samherja og þeirra verkefna sem starfsmenn Samhejra eru að fást við frá degi til dags langar mig til þess að nefna hér landanir nokkurra skipa félagsins og tengdra félaga að undanförnu og næstu daga. Víðir EA kom inn til Reykjavíkur með fullfermi á á laugardagskvöld Wiesbaden landaði í Reykjavík á sunnudeginumU Baldvin Þorsteinsson EA kom inn til löndunar hér á Akureyri á síðastliðinn mánudag. Norma Mary kom til löndunar í Grimsby á þriðjudagsmorgun.Akraberg kom til löndunar í Færeyjum í gær. Um helgina er von á Akureyrinni inn til löndunar og Björgvin kemur á mánudaginn. Um aðra helgi er síðan von á Kiel með fullfermi til Þýskalands. Frystar afurðir þessara skipa eru um 2800 tonn og söluverðmæti afurðanna nálgast einn milljarð króna.

Þó Samherji sé í umræðunni yfirleit tengdur útgerð gleymist oft hversu stór þáttur landvinnsla í rekstri félagsins. Í því sambandi má nefna að starfsmenn landvinnslu ásamt mökum ætla að koma saman til árshátíðar næstkomandi laugardag. Gert er ráð fyrir að þar verði saman komnir nálægt 500 manns frá öllum starfstöðvum Samherja á Íslandi.

Ég vil þakka stjórn Samherja fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf á liðnu ári. Jafnframt vil ég flytja viðskiptamönnum Samherja og hluthöfum þakkir fyrir góða samvinnu. Síðast en ekki síst vil ég þakka starfsfólki Samherja fyrir samstarfið á árinu. Ég er stoltur af þessum stóra hópi fólks sem leggur sig fram um að nýta auðlindina af ábyrgð, með það að leiðarljósi að hún skili þjóðinni góðum arði um ókomin ár.