Rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir árið 2001 kynnt

Á aðafundi Samherja hf. sem haldinn var í dag kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir árið 2001. Félagið hefur ekki áður birt slíka áætlun en hún byggir á ákveðnum forsendum sem Þorsteinn Már fór yfir á fundinum.

Vinna við rekstraráætlunina fór fram í lok síðasta árs. Hún byggir á úthlutun aflaheimilda eins og þær voru fyrir fiskveiðiárið 2000-2001 og að þær aflaheimildir verði óbreyttar fyrir fiskveiðiárið 2001-2002. Ekki er gert ráð fyrir gengisbreytingum á árinu né áhrifum verkfalls sjómanna. Áætlun er gerð fyrir hverja deild félagsins og þeim sett framleiðslu- og hagnaðarmarkmið. Í hráefnisáætlunum er gert ráð fyrir að taka á móti 110.000 tonnum í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík. Á Dalvík er gert ráð fyrir að vinna úr tæpum 7.000 tonnum af þorski og ýsu og í rækjuverksmiðju félagsins á Akureyri um 8.000 tonnum. Áætlanirnar gera ráð fyrir að skip félagsins nýti úthlutaðar aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári. Þá er gert ráð fyrir að markaðir verði stöðugir og afurðaverð haldist áfram gott.

Tekjur áætlaðar rúmir 9 milljarðar króna


Tekjur ársins eru áætlaðar 9.250 milljónir króna, rekstrargjöld 7.075 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 2.175 milljónir. Gert er ráð fyrir að afskriftir verði 1.000 milljónir króna og hreinar fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru áætluð 330 milljónir. Hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi móðurfélagsins árið 2001er því áætlaður 860 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað 1.700 milljónir. Náist þessi rekstarniðurstaða gæfi það að sögn Þorsteins Más tilefni til að fyrirtækið gæti greitt að minnsta kosti 20% arð til hluthafa á næsta ári. Hann sagði ljóst að endurskoða þurfi áætlunina með tilliti til gengisbreytinga sem hafa orðið frá áramótum og áhrifa verkfalls og verður það gert að verkfalli loknu.

Bráðabirgðatölur fyrir fyrstu 3 mánuði ársins


Á fundinum kynnti Þorsteinn einnig bráðabirgðatölur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Þær sýna hagnað af rekstri móðurfélags Samherja, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, upp á rúmar 800 milljónir króna. Í áætlunum Samherja fyrir sama tímabil er gert ráð fyrir rúmlega 700 milljóna króna hagnaði. Þorsteinn Már kvaðst ánægður með þennan árangur Sanherja á þremur fyrstu mánuðum ársins.

Eykur hlutdeild í fiskeldi


Samherji hf. hefur með kaupsamningi við Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. keypt 45,3% hlut félagsins í Siflurstjörnunni hf. auk 10% hlut HÞ í Sæsilfri hf. Heildarkaupverð þessara eignarhluta er ríflega 128 milljónir króna. Eftir kaupin á Samherji hf. 48,45% eignarhlut í Silfurstjörnunni og 45% hlut í Sæsilfri hf. Að sögn Þorsteins Más hefur Samherji hf. verið að hasla sér völl í fiskeldi að undanförnu og eru kaup þessi liður í því að styrkja stöðu félagsins á þeim vettvangi.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 10. apríl 2001.  Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson í síma 460 9000.