Reksturinn skilaði 1.067 milljóna króna hagnaði

Afkoma Samherja á árinu 2003:

Samkvæmt rekstrarreikningi Samherja hf., fyrir árið 2003, nam hagnaður 1.067 milljónum króna samanborið við 1.879 milljóna króna hagnað árið áður.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu á árinu 12.377 milljónum króna og lækkuðu um 624 milljónir króna á milli ára. Lækkunina má að hluta rekja til lækkunar á afurðum félagsins svo og styrkingar krónunnar. Rekstrargjöld án afskrifta voru 10.125 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 2.252 milljón króna eða sem svarar 18,2% af rekstrartekjum. Afskriftir voru 1.144 milljónir króna og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 394 milljónir króna. Meðal fjármagnsliða er niðurfærsla hlutafjár í Fiskeldi Eyjafjarðar og Primex hf. samtals 135 milljónir króna svo og söluhagnaður vegna sölu á hlutabréfum í Fjord Seafood upp á 78 milljónir króna. Bókfærð hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 499 milljónir króna en félagið á eignarhlut í 15 hlutdeildarfélögum.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 1.212 milljónir króna og að teknu tilliti til tekjuskatts og hlutdeildar minnihluta var hagnaður ársins 1.067 milljónir króna. Launakostnaður Samherja á árinu 2003 var tæpir 3,5 milljarðar króna og stöðugildi voru rúmlega 700 talsins.

Veltufjárhlutfall var 1,35 og veltufé frá rekstri 1.542 milljónir króna. Arðsemi eiginfjár var 13%.

Fjárfestingar
Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum námu samtals 769 milljónum króna á árinu. Þá fjárfesti dótturfélag Samherja Onward Fishing Company í aflaheimildum fyrir 327 milljónir króna. Fjárfesting í dóttur- og hlutdeildarfélögum nam 1.001 milljón króna. Þar af var fjárfest í 12% eignarhlut í Fjárfestingarfélaginu Kaldbak hf. fyrir 878 milljónir króna og er eignarhlutur Samherja 25% eftir kaupin. Á árinu var Þorsteinn EA seldur ásamt aflaheimildum og nam heildarsöluverð ríflega 1,3 milljarði króna.

Efnahagur
Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir samstæðunnar bókfærðar á 22,2 milljarða króna. Fastafjármunir voru bókfærðir á 16,0 milljarða og veltufjármunir 6,2 milljarða. Heildarskuldir samstæðunnar námu tæpum 13,0 milljörðum og eigið fé var 9,0 milljarðar eða 40,4%. Eigið fé jókst um 772 milljónir á árinu. Samherji greiddi á árinu 2003 20% arð eða 332 milljónir króna.

Fiskeldi mikilvægt
“Þótt Samherji skili rúmum milljarði í hagnað eftir skatta er ég ekki fullkomlega ánægður með niðurstöðuna. Þannig er afkoman í fiskeldi undir væntingum, sérstaklega á síðustu mánuðum ársins,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. “Verðlækkanir á laxi samhliða veikingu á dollar hafa leitt til þess að verðmæti birgða hefur lækkað verulega og niðurstaða rekstrar í fiskeldi því ekki í samræmi við væntingar okkar. Ég tel hins vegar að við búum í dag yfir mikilli og verðmætri þekkingu á eldi og við höfum náð að skera niður kostnað og teljum okkur því vel samkeppnishæf, þó svo að sterk staða krónunnar nú valdi okkur nokkrum áhyggjum” segir Þorsteinn Már. Hann segir ennfremur að fiskeldi sé framtíðin og markmið Samherji sé að vera í fararbroddi í fiskeldi sem og í sjávarútvegi.

“Hvað annan rekstur varðar þá er ég nokkuð sáttur. Verðþróun á mörkuðum og harðnandi samkeppni setur hins vegar svip sinn á rekstrarárið. Við höfum brugðist við þessu að hluta með breyttum áherslum í útgerð. Þetta gerum við til að mæta óskum neytenda og sýnir að fyrirtækið hefur mikla burði til að mæta breyttum áherslum neytenda á hverjum tíma” segir Þorsteinn Már.

Hvað horfur fyrir árið 2004 varðar þá er Þorsteinn Már varkár. Hann telur að gengi íslensku krónunnar sé of sterkt og ef ekki verði breyting á þá sé lítil von um að afkoma sjávarútvegs svo og annarra útflutningsgreina batni frá því sem nú er. “Ég er þó í eðli mínu bjartsýnn og tel horfur fyrir þetta ár þokkalegar og við munum eins og undanfarin ár kynna áætlanir okkar fyrir árið á aðalfundi félagsins” segir Þorsteinn Már að lokum.

Aðalfundur 25. mars nk.
Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri fimmtudaginn 25. mars nk. og hefst hann kl. 15:00. Stjórn félagsins gerir tillögu til aðalfundar um að greiddur verði 25% arður til hluthafa vegna ársins 2003.