Reykfiskur á Húsavík var í gær útnefnt FYRIRMYNDAR FYRIRTÆKI hjá Vinnueftirlitinu árið 2012. Reykfiskur er dótturfyrirtæki Samherja þar sem unnar eru reyktar fiskafurðir fyrir Bretlandsmarkað. Jóhann G. Sævarsson rekstrarstjóri og Silvía Ægisdóttir gæðastjóri hjá Reykfiski tóku á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd Samherja - Reykfisks.
Vinnueftirlitið útnefnir á hverju ári nokkur fyrirtæki sem þeir telja til fyrirmyndar hvað öll atriði varðar sem lúta að vinnueftirlitinu. Í þessari viku er svonefnd vinnuverndarvika og meðal dagskrárliða var ráðstefna í Reykjavík á þar sem tilkynnt var um þetta. Að erindum loknum veitti velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, fjórum fyrirtækjum viðurkenningar fyrir að vera til fyrirmyndar í vinnuverndarstarfi sínu og var þá sérstaklega horft til forystu stjórnenda og virkrar þátttöku starfsmanna í hinu kerfisbundna vinnuverndarstarfi. Fyrirtækin sem hlutu viðurkenningarnar fyrir árið 2012 eru:
Reykfiskur á Húsavík – 25 starfsmenn
Landsvirkjun, Fljótsdalsstöð – 14 starfsmenn
Þjóðminjasafn Íslands – 55 starfsmenn
Mannvit, verkfræðistofa – 400 starfsmenn