Samherji styrkir samfélagsverkefni á Eyjafjarðarsvæðinu um 75 milljónir króna

myndir: Þórhallur/Pedromyndir
myndir: Þórhallur/Pedromyndir

Samherji hf. boðaði til móttöku síðdegis í dag í Flugsafni Íslands á Akureyri og afhenti við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu upp á 75 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu.

“Samherji á, eins og þið öll vitið, rætur á Eyjafjarðarsvæðinu. Fyrirtækið hefur frá upphafi verið hluti þessa samfélags og því fylgir ábyrgð. Við höfum alla tíð kappkostað að láta sem flesta Eyfirðinga njóta góðs af starfseminni og reynt eftir föngum að styrkja innviði svæðisins með ýmsum hætti. Við sækjum sem mest af þjónustu hingað, reynum að ráða heimamenn til starfa og veitum styrki svo sem hér í dag,” sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, m.a. í ræðu sinni í Flugsafninu í dag.

Þátttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til. Fjármununum skal varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnisferðir þeirra veturinn 2010-2011 í þeim íþróttagreinum sem félögin hafa innan sinna vébanda. Alls nema styrkir vegna þessa tæpum 50 milljónum króna. Nefnd á vegum Samherja mun vinna með viðkomandi félögunum að útfærslunni til að tryggja að þessir fjármunir fari í að efla grasrótarstarfið. Nefndina skipa þau Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Jóhannes Bjarnason og Árni Óðinsson.

Að auki hlaut endurhæfingardeildin í Kristnesi styrk til tækjakaupa og ennfremur ákvað Samherji að stofna sjóð sem ætlað er að efla þjálfun og fræðslu lækna á hjartadeild Sjúkrahússins á Akureyri og gefa þeim aukin tækifæri til að kynna sér nýjungar á sviði rannsókna í hjarta- og æðasjúkdómum. Styrkir sem ekki voru afhentir í Flugsafni Íslands nema um 4 milljónum króna og heildarupphæðin því um 75 milljónum króna. 

img_2002_kl_.

img_1902.

Fjölmennt var í Flugsafninu við styrkveitingarathöfnina.
Gestir og velunnarar Samherja nutu góðra veitinga á gleðistund.