Sæblikinn ehf. er í eigu Síldarvinnslunnar hf. og Samherja hf. að jöfnu og var fyrirtækið stofnað fyrr á þessu ári. Tilgangur Sæblikans er að annast sölu á öllum frystum og söltuðum afurðum úr uppsjávarfiski sem framleiddar er hjá félögnum tveimur. Undanskilinn er þó markaður fyrir loðnuafurðir í Japan svo og mjöl- og lýsisafurðir. Undanfarin ár og áratugi hafa viðskipti með saltsíld frá Íslandi öll farið í gegnum einn aðila en nú hefur sem sagt orðið breyting þar á.
Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur verið stærsti síldarsaltandi landsins undanfarin ár jafnframt því að reka umfangsmikla frystingu á uppsjávarfiski í landi. Samherji er einnig með mikil umsvif í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. M.a. hefur nýjasta fjölveiðiskip félagsins, Vilhelm Þorsteinsson EA, unnið um 4.000 tonn af síldarflökum um borð frá því í byrjun júní að verðmæti um 500 milljónir króna.
Það voru þeir Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Sæblikans ehf. og Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Sæblikans ehf., sem undirrituðu samninginn, ásamt Matti Ruuska, eiganda Bauckman OY.