Stjórn Sæsilfurs hefur ákveðið að setja ekki laxaseiði í sjó á vori komanda. Ákvörðunin hefur það í för með sér að slátrun á árinu 2007 verður innan við 500 tonn hjá félaginu og að engin laxaframleiðsla verður árið 2008. Til samanburðar má geta þess að áætlað er að slátra um 4.000 tonnum af laxi hjá Sæsilfri á yfirstandandi ári. Sæsilfur er í meirihluta eigu Síldarvinnslunnar hf. og Oddeyrar hf., dótturfélags Samherja hf.
Sæsilfur hefur frá árinu 2001 sett meira en fjórar milljónir seiða í sjó og slátrað tæpum 10 þúsund tonnum af laxi. Félagið hefur verið langstærsti laxaframleiðandinn á Íslandi síðastliðin þrjú ár og á nýliðnu ári var slátrað rúmum 3.600 tonnum af laxi hjá félaginu. Laxeldi í sjó hefur gengið vel og mikill árangur hefur náðst hvað varðar gæði og vöxt fisks, auk þess sem kostnaður við eldið hefur farið lækkandi.
Sterk króna og hækkun á raforkuverði
Það er fyrst og fremst sterk króna sem veikir reksturinn verulega. Þrátt fyrir gott verð á laxi í erlendri mynt og ágætar markaðsaðstæður vegur sterkt gengi krónunnar þyngra og knýr fram þessa ákvörðun. Ytra umhverfi reksturs á Íslandi hefur einnig versnað undanfarin ár. Miklar kostnaðarhækkanir urðu á raforku í kjölfar lagabreytinga. Hækkun á þessum eina rekstrarlið hjá fiskeldissviði Samherja nemur nú þegar meira en 10 milljónum króna á ári. Fyrirsjáanlegt er að hann muni hækka um 20 milljónir króna á ári til viðbótar innan 2ja ára og hefur þá tvöfaldast á einungis þremur árum. Vart þarf að taka fram að slík ógnarhækkun á aðföngum stuðlar að því að fiskeldi sem atvinnugrein þrífst ekki hér á landi.
Undanfarið ár hefur verið leitað leiða til að treysta rekstur fiskeldisins. Viðræður um raforkukaup skiluðu ekki árangri til framtíðar og er ljóst að jafn stór raforkukaupandi og fiskeldið er, nýtur alls ekki sannmælis sem slíkur.
Viðræður um aðkomu Byggðastofnunar að fiskeldinu hafa heldur engan árangur borið. Frá árinu 2000 hefur verið fjárfest mikið í uppbyggingu í fiskeldi án nokkurrar opinberrar fyrirgreiðslu og nú er svo komið að ekki verður farið lengra í sjóeldinu. Oddeyri, dótturfélag Samherja, hefur gert tilraunir með eldi á sandhverfu og lúðu, auk þess sem félagið er annar stærsti bleikjuframleiðandi á Íslandi. Mikill árangur hefur náðst í eldi þessara tegunda og markmiðið er reyna að halda því að hluta til áfram. Framtíðarraforkuverð til landstöðvanna skiptir þar öllu máli.
Mikil vonbrigði
“Þetta er okkur, sem að þessum málum komum, mikil vonbrigði. Okkur hefur gengið vel á mörgum sviðum og við höfum á að skipa góðu starfsfólki með mikla þekkingu. Ennfremur eru aðstæður á helstu mörkuðum góðar. Það er hins vegar fyrst og fremst hátt gengi krónunnar sem knýr okkur til þessara aðgerða. Gengisskráningin hefur gífurleg áhrif á afkomu í fiskeldi þar sem meginhluti kostnaðarins er í íslenskum krónum og fellur til á þremur árum. Ég er samt sem áður enn sannfærðari nú en fyrr að aukinni fiskneyslu í heiminum verður mætt með fiskeldi,” segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja hf.
Fréttatilkynning frá Samherja 19. janúar 2006
Nánari upplýsingar veitir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja í síma 460 9000.