Björn Valur Gíslason, skipstjóri á franska frystitogaranum Emeraude, er kominn til Akureyrar í faðm fjölskyldu sinnar eftir 125 daga samfellt á sjó. Þessi óvenjulega langa útivera á sér sínar skýringar og kemur COVID þar mjög við sögu. Túrarnir urðu í raun tveir og báðir óvenjulega langir án þess að áhöfnin færi í land á milli. Björn Valur segir að allt hafi gengið að óskum og mikil eining ríkt um þetta fyrirkomulag meðal áhafnarinnar. Hann hrósar áhöfninni og skipinu í hástert og ekki síður skipulaginu hjá útgerðinni, sem hafi fjölskyldugildi skipverja í hávegum.
Björn Valur hóf sjómennskuferilinn árið 1975 á 30 tonna báti sem gerður var út á handfæri frá Ólafsfirði. Lengst af var hann á Sólberginu og svo Kleifarberginu sem stýrimaður og skipstjóri en bæði skipin voru gerð út frá Ólafsfirði. Hann gerði hlé á skipstjóraferlinum árið 2009 þegar hann var kosinn alþingismaður Vinstri grænna í Norðurlandskjördæmi eystra. Árið 2014 réð hann sig á skip í þjónustu við olíupalla í Noregi og starfaði þar í rúm tvö ár. Hann var síðan skipstjóri á franska frystitogaranum Grande Hermine síðari hluta árs 2017 og var í kjölfarið ráðinn skipstjóri á Emeraude, nýtt skip útgerðarinnar. Emeraude er gerð út frá St Malo í Frakklandi af fyrirtækinu Compagnie des Peches. Fyrirtækið er að hluta í eigu Samherja á Akureyri og nýtur mjög góðs af samstarfi við önnur Samherjatengd fyrirtæki.
„Ég hef starfað hjá þessu félagi síðan 2017 og kann því afar vel og er mjög ánægður í starfi. Skipinu sem ég var fyrst á, Grande Hermine, var lagt árið 2018 þegar nýsmíðaskipinu Emeraude var hleypt af stokkunum í Noregi í janúar 2018. Það skip er systurskip Berlin, Cuxhaven og Kirkella en þau voru öll fjögur smíðuð samtímis í Noregi 2017-2018.“
Björn Valur segir félögin rekin innan samstæðu útgerðarfélaga sem gera út m.a. frá Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Portúgal og Spáni. Í því felist mikið hagræði við útgerð skipana vegna viðhalds, kaupa á aðföngum sem og við nýtingu aflaheimilda svo dæmi séu tekin. „Í þessu felst mikið hagræði fyrir alla, bæði útgerðirnar og áhafnir skipanna og við njótum allir góðs af því lykilhlutverki sem Samherji spilar í þessu öllu, með alla sína þekkingu og reynslu.“
Tveir Íslendingar í 36-38 manna áhöfn
Í áhöfn Emeraude eru á bilinu 36 til 38 manns af ýmsu þjóðerni. Stærsti hópurinn er Frakkar, þá Portúgalar og Pólverjar. Björn Valur hefur oftast verið eini Íslendingurinn um borð en síðasta ár hefur Arnar Þór Gunnarsson verið Baader-maður á skipinu og nýverið var Vilhelm Guðjónsson ráðinn vinnslustjóri.
Aðspurður segist Björn Valur vera orðinn slarkfær í frönsku, sem er aðaltungumálið um borð, á undan enskunni. „Ég tók franska skipstjórnarprófið árið 2018 á frönsku auðvitað, bæði skriflegt og munnlegt, og gekk ágætlega. Ég hef síðan reynt að bæta mig jafnt og þétt í tungumálinu og get nú gert mig vel skiljanlegan við allar aðstæður um borð og átt samskipti við áhöfnina sem er auðvitað mjög mikilvægt. Hér gildir líka hið fornkveðna að æfingin skapar meistarann,“ segir hann.
COVID setur strik í reikninginn
Veiðiferðin langa hófst um miðjan ágúst þegar Emeraude hélt frá Þýskalandi til karfaveiða á alþjóðlegu veiðisvæði á milli Noregs og Íslands. Síðan var haldið til þorskveiða við Svalbarða. „Veiðin var dræm á köflum en við náðum að fylla skipið og héldum til hafnar í Hollandi um miðjan október, eftir um 60 daga á sjó. Þar var ætlunin að landa aflanum, taka vistir og hafa áhafnarskipti,“ segir hann. Menn voru sem sagt á leiðinni heim til ástvina sinna eftir 2ja mánaða fjarveru.
Alheimsfaraldurinn COVID-19 kollvarpaði þeim góðu áformum. „Þegar við áttum tvo daga eftir í höfn í Hollandi, þann 16. október, var ljóst að staðan var orðin býsna alvarleg í nær öllum löndum Evrópu, ekki síst í Hollandi og Frakklandi. Ljóst var að ef áhöfnin færi í land gæti það reynst erfitt að koma hverjum til síns heima og ekki síður yrði það bæði erfitt og áhættusamt að fá menn aftur um borð vegna mikillar smithættu í flestum löndum Evrópu. Við stóðum ennfremur frammi fyrir því að ef við færum í land og stoppuðum skipið um tíma til að hvíla áhöfnina, væri algerlega óvíst hvenær við kæmumst aftur á sjóinn og sömuleiðis hvort við myndum þá hugsanlega lenda í basli við að klára aflaheimildir okkar í tíma til að komast aftur heim fyrir jól og þyrftum þá jafnvel að eyða bæði jólum og áramótum við veiðar. Það var lítil stemning fyrir því hjá áhöfninni,“ segir Björn Valur.
Hann segist hafa kallað áhöfnina saman í borðsal skipsins og kynnt þeim stöðu mála og að af tveimur kostum í boði hafi verið tekið sú ákvörðun að fara strax út aftur að aflokinni löndun, með sömu áhöfn. „Þetta þurfti allt að ræða frá öllum hliðum og fá menn til að sættast á að af tveimur ekki svo góðum kostum væri þetta þó sá skárri.“ Að lokum náðist niðurstaða sem allir voru sáttir við, þótt vissulega hafi hún verið ákveðið áfall fyrir suma og erfið fyrir marga. „Við lönduðum aflanum 18. og 19. október, tókum vistir og héldum af stað til veiða að nýju 19. október. Það var eina færa leiðin.“
Fjórir mánuðir samfellt á sjónum
Í stað venjulegrar veiðiferðar var nú haldið í mun lengri túr. Aftur var haldið á Svalbarðasvæðið en veiðin var heldur dræm. Að lokum tókst þó að klára allar heimildir og 8. desember var svo haldið áleiðis til heimahafnar í Frakklandi og lagði Emeraude að bryggju í St Malo þann 15. desember sl. Áhöfnin var þá búin að vera um borð samfellt í 125 daga eða rúmlega fjóra mánuði! Það er býsna langur tími.
„Þetta reyndi vissulega á þolrifin í öllum í áhöfninni. Hefðbundinn túr er í kringum 50 dagar, með 5-7 daga siglingu hvora leið og rúma 40 daga á miðunum. Í þessu tilviki vorum við alls um 100 daga á miðunum og um fjórar vikur á siglingu til og frá höfn auk löndunarinnar í Hollandi. Allir voru þó sáttir þegar upp var staðið.“
Eitt best búna skipið á Atlantshafinu
Björn Valur segir Emeraude eitt best búna skipið á Atlantshafinu, sé horft til tæknilegrar útfærslu. „Vinnslubúnaðurinn um borð er mjög
sérhæfður og gerir okkur kleift að framleiða allskonar sérvöru í margskonar pakkningar. „Við vacúmpökkum sem dæmi hnakkastykkjum og sérvinnum sporða miðjustykki og hnakkastykki í neytendavænar umbúðir. Fyrir vikið komum við í land með annars konar vöru og sem á að skila okkur meira verðmæti en annars auk þess sem hún á að vera auðveldari í sölu enda er þetta annars konar framleiðsla en önnur skip hafa möguleika að að búa til.“
Hann segir skipið líka fara afar vel með mannskapinn. „Þetta er bjart og gott skip, með rúmgóðum áhafnarklefum, flottum borðsal og öðrum sameiginlegum vistarverum. Það er sími í hverjum klefa og í öllum sameiginlegum rýmum og þokkalega gott netsamband. Menn gátu því hringt heim og verið í myndsambandi við ættingja og vini hvenær sem þeim hentaði. Það hafði gríðarlega mikið að segja við þessar kringumstæður, bæði fyrir okkur í áhöfninni og ekki síður ástvini okkar heima fyrir.“
Hann segir svo langa samfellda útiveru – eins konar sjálfskipaða 125 daga sóttkví – vissulega ákveðna þolraun og prófraun í mannlegum samskiptum. „Auðvitað koma upp vandamál – bæði um borð og líka hjá vinum og vandamönnum í landi. Ég hef alla mína skipstjóratíð lagt áherslu á það við áhöfnina að trúnaðarsamtal við skipstjórann sé alltaf í boði. Það er hluti af starfinu mínu að ræða og leysa þau vandamál sem upp kunna að koma, stappa stálinu í mannskapinn og reyna að halda móralnum góðum. Mér þykir mjög vænt um þann þátt starfsins. Svo er gítar um borð og menn grípa stundum í hann sér til dægrastyttingar,“ segir hann en Björn Valur hefur afrekað ýmislegt á tónlistarsviðinu, m.a. með gömlu áhöfninni sinni á Kleifarberginu.
Frábært skipulag hjá útgerðinni
Björn Valur segir umhverfi fiskveiða í Evrópusambandslöndunum mjög frábrugðið því íslenska. „Íslensk skip mega ekki vera lengur en 40 daga á sjó í senn. Þú verður að vera kominn í land innan þeirra marka. Þá er íslenska fiskveiðiárið frá 1. september til ágústloka árið eftir. Innan ESB eru allt aðrar reglur um hámarkslengd veiðiferða og fiskveiðiárið er almanaksárið. Þar reyna menn að skipuleggja sig þannig að skipin nái að nýta aflaheimildir sínar fyrir árslok.“ Hann segir að slíkt sé ógerlegt nema með mjög góðu skipulagi.
„Þeir sem skipuleggja veiðarnar innan þess fyrirtækjahóps sem ég starfa fyrir er fólk með mikla reynslu og skýra framtíðarsýn. Þar fara stjórnendur Samherja fremstir í flokki og gegna algjöru lykilhlutverki í því að allt gangi vel fyrir sig. Þeir leggja skýrar línur langt fram í tímann. Eitt veigamikið áhersluatriði er að alltaf sé stefnt að því að öll skipin séu komin í höfn vel fyrir jól þannig að allar áhafnir getið notið góðra tíma í faðmi ástvina,“ segir hann. Til marks um þetta nefnir Björn Valur að Emeraude hafi verið síðasta skipið innan samstæðunnar til að leggjast við bryggju, þann 15. desember sl., sem fyrr segir.
„Það er ekkert sjálfgefið að þetta gangi svona vel upp og til þess þarf bæði viljann og gott skipulag. Við leggjum svo í hann að nýju um miðjan janúar þannig að við fáum mánaðarlangt frí til að njóta lífsins og safna kröftum. Þetta kalla ég að hafa fjölskyldugildin í hávegum og get hiklaust hrósað útgerðinni fyrir það.“
Gætum að sóttvörnum
Hann segir að áhöfnin leggi ríka áherslu á sóttvarnirnar á þessum Covid-tímum. „Við sótthreinsuðum alla sameiginlega snertifleti oft á dag eftir að við lögðum af stað í þessa tvo samfelldu túra. Við ætlum líka að hitta sem fæsta þennan mánuð sem við erum í fríi, aðra en nákomnustu ættingja, því við mætum auðvitað aftur um borð í janúar og þá yrði mjög vont ef smit kæmi upp um borð.“
Hvað það varðar segir Björn Valur það ekki hafa farið hátt að í gildi er mjög nákvæm viðbragðsáætlun á öllum skipum samstæðunnar, þar með töldum öllum skipum Samherja. „Það er mjög mikilvægt fyrir áhöfnina og ekki síður fjölskyldur okkar að vita að unnið er samkvæmt skýrri áætlun, komi upp Covid-smit um borð og að heilsa áhafnarinnar sé þar í forgrunni. Það felst mikið öryggi í því fyrir alla og er til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið hefur verið að þeim málum hjá Samherja og tengdum fyrirtækjum.“
Í faðmi fjölskyldunnar
Eiginkona Björns Vals er Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir, náms- og starfsráðgjafi. Þau eiga þrjár dætur og fimm barnabörn. Ein dóttirin býr ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku og Björn Valur segir að Covid hafi komið í veg fyrir að fjölskyldan hafi öll getað sameinast um hátíðirnar. „Við hin ætlum að halda jólin saman hér á Akureyri, þar sem við búum öll og verðum síðan í netsambandi við þá sem búa úti. Ég hlakka mikið til,“ segir Björn Valur Gíslason skipstjóri að lokum.
.
Það er ekki auðvelt að ferðast á þessum tímum. Meðfylgjandi er mynd af hluta af þeim leyfum sem áhöfnin þurfti á að halda til að mega ferðast frá borði til síns heima, m.a. vegna útgöngubanns í mörgum löndum og ólíkra reglna varðandi Covid.