Samherjamenn á Pollamóti Þórs

Ungmennafélagið Óþokkar, félagsskapur karlkyns starfsmanna Samherja hefur tekið þátt í Pollamóti Þórs undanfarin ár.  Í ár tefldu þeir fram tveimur liðum, einu pollaliði og öðru liði í Lávarðadeild, sem eru fótboltamenn yfir 40 ára.  Óhjákvæmilegt reyndist að styrkja liðið með aðkeyptum mönnum en þeir tengjast þó allir Samherja á einn eða annan hátt.  Menn  voru mismunandi iðnir við æfingar fyrir mótið enda er liðið frekar þekkt fyrir glæsileika og fagran limaburð (að eigin sögn) á vellinum en hagstæðar markatölur.
Á Óþokka vegum var einnig lið frá Grimsby sem var að endurgjalda heimsókn Óþokka frá því fyrr í sumar.  
Yngri Óþokkar náðu þeim glæsilega árangri að komast alla leið í undanúrslit eftir að hafa slegið meistara síðasta árs Víking út í 8 liða úrslitum. Þessi árangur setti mjög svip sinn á leikmenn í árlegu lokahófi félagsins því allir mættu sólbrunnir í andliti enda ekki með sólarvörn fyrir svona marga leiki á laugardeginum. Liðið tapaði gegn meisturum Breiðabliks í undanúrslitum og leyfðu síðan Magna að vinna bronsleikinn svo þeir þyrftu ekki að mæta í verðlaunaafhendinguna á Hamri sem var á sama tíma og lokhóf Óþokka. Lávarðarnir sem tóku þátt í fyrsta sinn stóðu sig með ágætum, skoruðu eitt mark og lentu í 22.sæti.

Smelltu hér til að sjá myndir frá mótinu.