|
|
|
|
|
Samningar milli Sjómannafélags Eyjafjarðar og Félags skipstjórnarmanna annars vegar og Samherja hf. hins vegar, um breytt fyrirkomulag á hafnarfríum, hafa nú verið samþykktir af áhöfnum skipanna þriggja. Ísfisktogararnir þrír eru Björgúlfur EA, Björgvin EA og Akureyrin EA og greiddi meirihluti skipverjanna atkvæði með samningunum, sem undirritaðir voru af forsvarsmönnum félaganna 8.mars sl. með fyrirvara um samþykki skipverja.
Samningarnir eru fyrstu sinnar tegundar hérlendis og gilda í eitt ár. Þeir eru byggðir á hugmyndum sem skipverjar skipanna þriggja lögðu fram og eru aðeins mismunandi milli skipanna. Í samningunum er m.a. innivera skipanna lágmörkuð en á móti er skipverjum tryggður ákveðinn fjöldi frídaga á hverju 30 daga úthaldi og um jól og áramót.
Tilefni samninganna var nýtt ákvæði í kjarasamningi sjómanna og útvegsmanna frá því fyrir áramót og snýr að hafnarfríum. Róðrarmynstur togara hefur gjörbreyst frá því sem áður var því nú er mun meiri áhersla lögð á ferskleika, sem þýðir að flestar veiðiferðir eru mun styttri en áður. Með þessum samningum eru Samherji og sjómenn félagsins að færa sig nær nútímanum, báðum aðilum til hagsbóta.