Samherji á enga aðild að máli norska fjármálaeftirlitsins gagnvart DNB

Greint var frá því í dag að norska fjármálaeftirlitið, Finanstilsynet, hefði sektað norska bankann DNB um 400 milljónir norskra króna. Samherji á enga aðild að þessu máli og hefur engar upplýsingar um þessa sektarákvörðun umfram það sem lesa má um í þeim skjölum sem birst hafa opinberlega um málið.

Eftir því sem ráðið verður af gögnum var þessi sekt lögð á DNB bankann eftir reglubundið eftirlit með peningaþvættisvörnum bankans í febrúar á síðasta ári. Niðurstaða þeirrar athugunar var að almenn kerfi DNB til að greina hugsanlegt peningaþvætti hafi verið ófullnægjandi. Sambærilegar athuganir á öðrum smærri fjármálafyrirtækjum í Noregi hafa einnig leitt til sektarviðurlaga af sömu ástæðu. DNB hefur tekið skýrt fram að norska fjármálaeftirlitið saki bankann ekki um að hafa aðstoðað viðskiptavini sína við peningaþvætti heldur sé bankinn sakaður um það að verkferlar bankans hafi almennt ekki fylgt ítarlegri norskri löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Norska fjármálaeftirlitið hefur unnið sérstaka skýrslu um viðskiptasamband DNB bankans við Samherja en greint var frá efni hennar í dag. Samherji hefur þrjár athugasemdir við þessa skýrslu sem fyrirtækið vill koma á framfæri:

Í fyrsta lagi ber að geta þess að þótt þessi skýrsla fjalli að nafninu til um samband DNB við Samherja er meginefni hennar um starfshætti DNB bankans sjálfs í ljósi norskrar löggjafar en ekki um Samherja.

Í öðru lagi er skýrslan ónákvæm. Það kemur ekki á óvart þar sem Finanstilsynet hafði aldrei samband við Samherja og beindi aldrei neinum fyrirspurnum til fyrirtækisins við gerð skýrslunnar. Að öllum líkindum er ástæðan fyrir þessu sú staðreynd að Samherji á enga aðild að þessu máli. Engu að síður er það auðvitað mjög óheppilegt að skýrsla sem hefur að geyma trúnaðarupplýsingar um þriðja aðila, og er ónákvæm í þokkabót, sé gerð opinber án þess að fyrirtækið sem þar er nefnt fái tækifæri til að gera athugasemdir eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ónákvæmni í skýrslunni hefur einnig leitt til þess að fréttaflutningur hefur verið villandi og staðreyndir verið afbakaðar. Eitt af mörgum dæmum er sú framsetning að allar greiðslur gegnum bankareikninga í DNB bankanum hafi tengst útgerðinni í Namibíu. Þetta er fjarri því að vera rétt enda var mikill meirihluti millifærslna gerður í tengslum við sölu sjávarafurða og skipa víðs vegar um heiminn. Þar er um að ræða ósköp venjuleg og algjörlega óumdeild viðskipti.

Í þriðja lagi hefur þessi skýrsla, eða samband DNB við Samherja yfir höfuð, ekki nein sérstök áhrif á umrætt mál milli Finanstilsynet og DNB bankans. Sú sektarákvörðun sem beinist að DNB og tilkynnt var um í dag er nákvæmlega sú sama og hin almennta sekt sem lögð var á DNB og greint var frá í desember á síðasta ári. Þá tekur norska fjármálaeftirlitið skýrt fram að viðskiptasamband DNB og Samherja sé ekki afmarkað eða einangrað tilvik. DNB bankinn er sektaður vegna þess að bankinn fylgdi ekki ítarlegum reglum um verklag í tengslum við viðskipti allt að 400 viðskiptavina bankans og Samherji er aðeins einn af þessum 400 viðskiptavinum.

Samherji hefur varið tíma og fjármunum í að upplýsa um helstu staðreyndir þessa máls. Fyrirtækið er reiðubúið að útskýra sína hlið málsins ítarlega gagnvart þar til bærum aðilum ef á reynir og ef þess gerist þörf. Þá ber að halda því til að haga að enginn starfsmaður Samherja, eða fyrirtæki tengt Samherja, hafa sætt ákæru tveimur árum eftir að fyrst var greint frá Fishrot-málinu svokallaða í fjölmiðlum. Ef það gerist síðar að þar til bær stjórnvöld hafa samband við Samherja mun fyrirtækið að sjálfsögðu bregðast við slíku erindi á viðeigandi hátt.

https://www.samherji.is/is/frettir/ekkert-peningathvaetti-i-vidskiptum-dnb-og-samherja