Evrópsku sjávarútvegssýningunni í Brussel lýkur í dag eftir þrjá erlisama daga. Samherji var með sýningarbás nú sem áður og eru menn sammála um að afar vel hafi tekist til með þátttökuna. Greinileg eftirspurn er eftir sjávarafurðum og verð eru á uppleið.
Starfsmenn Samherja á sýningunni segja að þetta hafi verið ein allra besta sýningin hingað til, nóg hafi verið að gera við að taka á móti viðskiptavinum sem og öðrum gestum sýningarinnar allan tímann. Sölumenn voru þétt bókaðir á fundum alla dagana, svo þétt að þeir komust varla frá til að skoða sýninguna sjálfir. Að venju var boðið upp á sýnishorn af framleiðsluvörum fyrirtækisins á básnum s.s. ferska bleikju og þorsk og er óhætt að segja að það hafi haft mjög jákvæð áhrif á gestina og viðskiptin.
Birgir Össurarson sölu og markaðsstjóri hjá Ice Fresh Seafood hefur komið á Brussel sýninguna í mörg ár: “Við höfum aldrei fengið eins marga gesti á standinn eins og núna. Fyrir utan gesti sem koma og hafa áhuga á að stofna til nýrra viðskipta þá kemur meirihluti núverandi viðskiptavina okkar til okkar að ræða málin og treysta sambandið. Við höfum orðið varir við að það er mikil eftirspurn eftir flestum okkar tegundum og verð hafa þar með hækkað. Markaðurinn er líflegri og þar af leiðandi léttara yfirbragð yfir sýningunni en undanfarin ár”, sagði Birgir.
Óli Björn Ólafsson sölustjóri tók í sama streng og Birgir: “Ég hef orðið var við gríðarlega aukningu í eftirspurn t.d. í uppsjávarafurðunum makríl og síld og verð eru á uppleið. Það komu fleiri á þessa sýningu en í fyrra og það er greinilega meiri áhugi og jákvæðari viðbrögð frá viðskiptamönnum en áður.”
Aðrir starfsmenn Samherja samstæðunnar fóru ekki varhluta af auknum áhuga og jákvæðni og ljóst að síðasta
fjárfesting félagsins í Brim á Akureyri hefur ekki farið fram hjá leikmönnum alþjóða sjávarútvegssamfélagsins.
Eftirfarandi myndir eru frá sýningarbás Samherja þar sem Einar Geirsson meistarakokkur á Rub 23 á Akureyri töfraði fram ljúffengar og ferskar Íslenskar sjávarafurðir fyrir gesti félagsins.