Um níu hundruð nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla á Eyjafjarðarsvæðinu auk nemanda í framhaldsskólum og Háskólanum á Akureyri sóttu Starfamessu 2024 sem haldin var í Háskólanum á Akureyri í gær. Samherji var með kynningarbás og starfsmenn kynntu starfsemi félagsins ásamt náms- og starfsmöguleikum í sjávarútvegi.
Kærkomið tækifæri til að kynna spennandi alþjóðlega atvinnugrein
Markmiðið með viðburðinum var að kynna fyrir nemendunum atvinnustarfsemi á Eyjafjarðarsvæðu og þau tækifæri sem bíða þeirra í framtíðinni.
Sunneva Ósk Guðmundsdóttir framleiðslustjóri landvinnslu ÚA segir alltaf gaman að ræða við ungt fólk um framtíðina.
„Við vorum sex starfsmenn Samherja sem stóðum vaktina og áttum mjög góðan og gefandi dag. Sjávarútvegur er spennandi alþjóðleg atvinnugrein og með þátttöku í Starfamessu gefst okkur kærkomið tækifæri til að kynna hann betur fyrir ungu fólki og benda á öll þau tækifæri sem til staðar eru í greininni.“
Ótrúlega fjölbreytt störf í sjávarútvegi
„Kannski hittum við þarna starfsfólk framtíðarinnar, hver veit. Sjálf fór ég í Sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og sé alls ekki eftir því. Þegar grannt er skoðað eru störfin í sjávarútvegi ótrúlega fjölbreytt og þörf er á starfsfólki með alls kyns menntun og reynslu. Þetta var skemmtilegur og lærdómsríkur dagur og vonandi eru margir nemendur svolítið fróðari um fjölbreytt atvinnulíf á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir Sunneva Ósk Guðmundsdóttir.