Samherji eflir upplýsingaveitur félagsins

Karl Eskil Pálsson
Karl Eskil Pálsson

Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður hefur verið ráðinn til Samherja og mun hann miðla fréttum á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins, auk þess sem hann mun sinna innri vef Samherja þar sem upplýsingum og fræðsluefni er komið til starfsfólks. Þá mun hann hafa á sinni könnu ýmis önnur verkefni á sviði upplýsingamála.

Karl Eskil er reyndur fjölmiðlamaður. Hann starfaði í tvo áratugi á fréttastofu Rúv á Akureyri, var ritstjóri héraðsfréttablaðsins Vikudags, sjálfstæður blaðamaður og nú síðast dagskrárgerðarmaður á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri. Sjávarútvegur hefur verið helsta sérgrein hans í fjölmiðlun, einnig umfjöllun um viðskipta- og mannlíf í landinu, sérstaklega á landsbyggðinni.

 

Nýsköpun áberandi hjá Samherja

„Vegna starfa minna undanfarna áratugi þekki ég nokkuð til starfsemi og innviða Samherja, sem er án efa eitt tæknivæddasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og þar með í heiminum. Samherji er líklega með stærri nýsköpunarfyrirtækjum landsins. Í því sambandi nægir að nefna glæsilegan skipaflota, fullkomnar landvinnslur, skip sem getur geymt lifandi fisk í sér útbúnum tönkum og fyrirhugað landeldi í Reykjanesbæ. Listinn er reyndar lengri hvað nýsköpun varðar. 

Hjá Samherja starfar lausnamiðað og dugmikið fólk, sem nær árangri við að þróa þetta framsækna og tæknivædda fyrirtæki, þar sem lögð er áhersla á gott og skapandi starfsumhverfi. Ég er sem sagt fullur tilhlökkunar og þakklátur fyrir að hafa verið munstraður um borð. Mörg stór verkefni eru í farvatninu hjá Samherja, sem félagið vill segja frá og upplýsa með vönduðum og traustum hætti,“ segir Karl Eskil Pálsson, sem hefur störf í dag 1.september, í upphafi fiskveiðiársins.

Samherji býður Karl Eskil velkominn til starfa.