Í tilefni þess að Kaldbak EA 1, hinu nýja skipi Útgerðarfélags Akureyringa, var formlega gefið nafn, við þau tímamót að 70 ár eru liðin frá því Kaldbakur EA 1, fyrsta skip Útgerðarfélags Akureyringa, kom til landsins og að 19. ágúst sl. voru liðin 60 ár frá því að frystihús ÚA var tekið í notkun, var samfélaginu færð skíðalyfta að gjöf. Það var Helga Steinunn Guðmundsdóttir, fyrir hönd Samherjasjóðsins, sem afhenti stjórn Vina Hlíðarfjalls gjafarbréf um lyftu, bolta og vír og flutning á því til Íslands.
Geir Gíslason, formaður Vina Hlíðarfjalls, sagði við afhendinguna að styrkurinn muni gera Vinum Hlíðarfjalls kleift að kaupa notaða stólalyftu frá Austurríki og flytja hana heim. Hann sagði Vini Hlíðarfjalls hafa gert samstarfs- og leigusamning við Akureyrarbæ um að bærinn muni leigja af þeim og reka lyftuna til næstu 15 ára. Hann sagði vonir standa til að sem flestir muni koma að þessu verkefni, bæði fyrirtæki og einstaklingar, og að uppsetning lyftunnar verði unnin í ungmennafélagsanda.
Lyftan mun nýtast mörg þúsund Íslendingum sem leggja leið sína í Hlíðarfjall á ári hverju og mun gjörbreyta allri aðstöðu í fjallinu. Lengd lyftunnar verður um 1.100 m, fallhæðin 340 m og hún mun flytja um 1.300 skíðamenn á klukkustund upp undir brún á Hlíðafjalli.
Að Vinum Hlíðarfjalls, sem var stofnað árið 2006, standa fyrirtæki sem sjá sér hag í stuðningi við skíðasvæðið í Hlíðarfjalli. Vinir Hlíðarfjalls hafa frá upphafi komið að margvíslegri uppbyggingu í fjallinu.