Eftir að norska lögmannsstofan Wikborg Rein lauk athugun sinni á starfsemi félaga sem tengjast Samherja í Namibíu 28. júlí sl. og kynnti skýrslu sína fyrir stjórn Samherja, hefur félagið með ýmsum hætti opinberlega leiðrétt og hrakið þær ásakanir sem á það hafa verið bornar.
Samherji hefur nú látið gera sérstaka athugun á verðlagningu á þeim kvóta sem félög tengd Samherja leigðu á meðan þau ráku starfsemi í Namibíu. Athugunin fólst í samanburði á verði í samningum óskyldra aðila um aflaheimildir. Samanburðurinn staðfestir að félög tengd Samherja greiddu markaðsverð fyrir kvótann.
Rétt er að geta þess að félög tengd Samherja fengu aldrei úthlutað neinum kvóta í Namibíu, enda ekki það fyrirkomulag á kvótaúthlutunum þar, heldur leigðu félögin rétt til að veiða kvóta sem heimamenn höfðu fengið úthlutað.
Þegar hefur verið greint frá því að starfsemin í Namibíu hafi verið rekin með tapi. Þá hefur verið upplýst um þá skatta sem félög tengd Samherja greiddu til namibíska ríkisins. Þessi yfirlýsing nú tengist hins vegar úttekt sem Samherji lét gera vegna fullyrðinga um að það verð sem greitt var fyrir leigu á aflaheimildum samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar hafi verið langt undir markaðsverði.
Á meðan félög tengd Samherja voru starfandi í Namibíu leigðu þau aflaheimildir af einkaaðilum, eins og samstarfsfélögunum svokölluðu (Joint ventures) og fyrirtækinu Namgomar sem fékk úthlutað aflaheimildum á grundvelli samnings um veiðar milli Angóla og Namibíu. Þá leigðu þau jafnframt aflaheimildir af Fishcor sem er sjávarútvegsfyrirtæki í eigu namibíska ríkisins. Samherji hafnar því staðfastlega að aflaheimildir hafi verið leigðar af þessum aðilum á verði sem hafi verið lægra en markaðsverð. Fullyrðingar þess efnis eiga ekki við rök að styðjast. Raunar var það verð sem var greitt samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar ávallt jafnhátt eða hærra en það verð sem félög tengd Samherja greiddu öðrum handhöfum aflaheimilda í Namibíu.
Ávirðingar sem settar hafa verið fram um verð fyrir leigu á aflaheimildum tengjast ásökunum um að félög tengd Samherja hafi greitt mútur til að tryggja sér aflaheimildir langt undir markaðsverði. Þá hefur því verið haldið fram að félög í samstæðu Samherja hafi gert allt til að greiða eins lágan skatt í Namibíu og þau mögulega gátu og að þessir samverkandi þættir, ásamt ríkulegum hagnaði af starfseminni í Namibíu, þýði að Samherji hafi í reynd arðrænt þróunarríki.
Til að komast að því hvað hafi verið rétt markaðsverð í viðskiptum með aflaheimildir, þau ár sem félög tengd Samherja voru með starfsemi í Namibíu, var farið yfir samninga Samherja við sex namibísk félög sem voru handhafar aflaheimilda og höfðu engin innbyrðis tengsl. Hvert og eitt þessara félaga starfaði á frjálsum markaði og hafði aðeins arðsemissjónarmið að leiðarljósi við leigu aflaheimilda.
Verð í þessum samningum var síðan borið saman við það verð sem Samherji greiddi í samningum við Fishcor og Namgomar. Alls var ráðist í samanburð í þrjátíu og níu tilvikum. Í öllum tilvikum nema einu var það verð sem Samherji greiddi fyrir aflaheimildir samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar jafnhátt eða hærra en það verð sem greitt var samkvæmt samningum við önnur fyrirtæki.
Þá var einnig ráðist í samanburð á verði í sambærilegum samningum sem önnur útgerðarfyrirtæki, innlend sem erlend, gerðu við handhafa aflaheimilda í Namibíu. Þetta var gert til að ganga úr skugga um að að það verð, sem félög tengd Samherja greiddu, samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar hefði ekki verið óeðlilega lágt og einnig til að eyða grunsemdum um að þeir samningar sem stuðst var við hefðu sérstaklega verið valdir til að tryggja hagfelldan samanburð. Í miklum meirihluta þeirra samninga, sem skoðaðir voru í þessari síðari athugun, var það verð sem greitt var samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar jafnhátt eða hærra en það verð sem umrædd útvegsfyrirtæki greiddu fyrir sínar aflaheimildir.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið gætt þeirra vinnubragða og starfsaðferða sem Samherji kappkostar í allri starfsemi sinni, er ljóst að félagið ber ábyrgð á eftirfylgni, aga og eftirliti og ber að grípa inn í með afgerandi hætti þegar ekki er gætt þeirrar árvekni sem krafa er gerð um. Ljóst virðist að við leigu á aflaheimildum í Namibíu hefur í einhverjum tilvikum skort á slíkt eftirlit og inngrip. Það breytir þó ekki meginniðurstöðu þessarar athugunar sem er að félög tengd Samherja hafi greitt markaðsverð fyrir þann kvóta sem þau leigðu.
Samherji mun á næstunni halda áfram að leiðrétta rangfærslur og jafnframt greina frá verklagi og vinnubrögðum sem betur hefðu mátt fara.
Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is