Yfirlýsing frá Samherja hf.
Eins og áður hefur komið fram í fréttatilkynningu frá Samherja hafa hvorki Samherji né tengd félög fengið lán afskrifuð í kjölfar hrunsins. Vill félagið því leiðrétta rangan fréttaflutning DV varðandi afskrift á um 1.300 milljónum króna hjá einu af dótturfélögum þess.
Forsaga málsins er sú að vegna lánasamsetningar félagsins voru á fyrri hluta árs 2008 gerðir framvirkir samningar við Glitni til myntbreytingar á skammtímaláni í evrum sem félagið var með hjá bankanum. Samningar þessir snérust fyrst og fremst um að breyta láni í evrum yfir í aðra erlenda mynt til að lágmarka gengisáhættu félagsins og aðlaga myntsamsetningu lána að tekjum félagsins í erlendum myntum. En framvirkur samningur er samningur sem gerður er til að festa verðgildi fram í tíma miðað við forsendur dagsins.
Samningarnir voru því gerðir um að félagið keypti framvirkt evrur og seldi dollara og átti bankinn við endurfjármögnun lánsins að afhenda félaginu evrur gegn því að félagið afhenti bankanum dollara. Áður en kom að gjalddaga samninganna féll bankinn og varð þar af leiðandi ekkert af því að hann afhenti félaginu umræddar evrur og fengi í staðinn dollara. Samningarnir höfðu ekkert með íslenskar krónur að gera, ólíkt þeim samningum sem mörg önnur félög höfðu gert.
Eftir fall Glitnis fluttist skammtímalán félagsins til „nýja” bankans en gjaldmiðlasamningarnir urðu eftir í þeim „gamla”. „Gamli” bankinn umreiknaði samningana yfir í íslenskar krónur þrátt fyrir að samningarnir hefðu ekkert með íslenskar krónur að gera. Félagið þurfti því að gera samninga í „nýja“ bankanum um þær myntbreytingar á láninu sem gerast áttu með upphaflegu samningunum.
Þá skal tekið fram að engin millifærsla fjármuna átti sér stað til Axels ehf. vegna þessara samninga, hvorki við upphaf þeirra né á meðan á samningstíma stóð.
Stjórnendur Axels ehf. voru ætíð ósammála þessum útreikningum bankans og var eindregin skoðun þeirra að kröfur fallna bankans væru ekki réttmætar. Voru stjórnendur þeirrar skoðunar að þar sem forsendur samninganna hefðu brostið bæri Axel ehf. ekki að greiða umrædda kröfu.
Við vinnu vegna uppgjörs á árinu 2009 var tekin ákvörðun að höfðu samráði við endurskoðendur að færa í reikningsskil félagsins gjaldfærslu sem tók mið af kröfum bankans sem þá lágu fyrir meðan verið væri að meta stöðuna.
Í ársbyrjun 2012 komust aðilar að samkomulagi um að útkljá þennan ágreining með greiðslu félagsins á ríflega 2 milljónum evra, jafngildi 360 milljónum króna til Glitnis. Sú greiðsla var gjaldfærð í reikningsskilum Axels ehf. og sú gjaldfærsla sem áður hafði verið færð, var bakfærð. Þessi millifærsla frá Axel ehf. til bankans er því eina millifærsla fjármuna vegna umræddra gjaldeyrissamninga sem átt hefur sér stað. Þá skal tekið fram að félagið Axel ehf. hefur staðið við allar sínar skuldbindingar og eina skuld félagsins er við móðurfélagið Samherja hf.
Það er því fráleitur fréttaflutningur DV fyrr í vikunni að afskrifaðar hafi verið um 1.300 milljónir króna hjá dótturfélagi Samherja og vísum við fréttinni alfarið á bug.