Samherji Holding ehf., systurfélag Samherja, hefur sent fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu eftir að félagið fór yfir mörk 30% eignarhlutar í Eimskip.
Með tilkynningu og flöggun hinn 10. mars síðastliðinn kom fram að Samherji Holding hefði aukið hlut sinn í Eimskip um 3,05% og ætti 30,11% hlut í fyrirtækinu eftir kaupin. Samherji Holding myndi í framhaldinu senda öðrum hluthöfum Eimskips yfirtökutilboð um kaup á hlutabréfum þeirra innan fjögurra vikna eins og áskilið væri í lögum.
Með bréfi til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands hinn 20. mars óskaði Samherji Holding eftir undanþágu frá yfirtökuskyldunni vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hefðu skapast á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu Covid-19. Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að veita slíka undanþágu ef sérstakar ástæður mæla með því.
Í beiðni Samherja Holding kemur fram að uppi séu fordæmalausar aðstæður vegna þeirrar óvissu sem Covid-19 hafi skapað í efnahagsumhverfi Íslands.
„Á örfáum dögum hefur allt efnahagsumhverfið breyst stórlega, langt umfram það sem spár gerðu ráð fyrir. Áhrifin eru afar víðtæk og keðjuverkandi á fjármálamarkaði og á efnahagslífið í heild sinni. Við teljum ekki skynsamlegt að tilboð um yfirtöku fari fram í skugga þess mikla umróts sem nú á sér stað. Við vonum öll að aðstæður verði heppilegri fyrr en síðar. Trú okkar á framtíð Eimskips hefur ekkert breyst,“ segir Björgólfur Jóhannsson starfandi forstjóri Samherja Holding.
Málið er nú til skoðunar hjá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Það getur sett skilyrði fyrir undanþágunni, t.d. varðandi frest til að selja hluti sem eru umfram 30% eignarhlut og meðferð atkvæðisréttar á því tímabili.