Stofnar Útgerðarfélag Akureyringa um reksturinn
Um helgina var gengið frá samningi milli Brims og dótturfélags Samherja um kaup á eignum Brims á Akureyri. Félagið fær nafnið Útgerðarfélag Akureyringa. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Um er að ræða fiskvinnslu á Akureyri og Laugum ásamt vélum og tækjum, ísfisktogarana Sólbak EA 1 og Mars RE 205, sem áður hét Árbakur; veiðiheimildir í þorski, ýsu, steinbít og skarkola, samtals 5.900 þorskígildistonn. Samanlagðar veiðiheimildir Samherja og ÚA eru talsvert undir leyfilegu hámarki í einstökum tegundum og í heild samkvæmt núgildandi lögum um stjórn fiskveiða.
Starfsmenn Brims á Akureyri og á Laugum eru um 150. Haldinn verður fundur með starfsmönnum á morgun mánudag, til að kynna þeim þessar breytingar.
Kaupverðið er 14.500 milljónir króna. Samherji leggur fram eigið fé til kaupanna að fjárhæð 3.600 milljónir, sem að hluta er fjármagnað með sölu erlendra eigna. Landsbankinn fjármagnar 10.900 milljónir og verður viðskiptabanki nýs félags. Bankinn vill með þessu skapa forsendur fyrir áframhaldandi rekstri fiskvinnslu á Akureyri.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja:
„Samherji hefur lítið sem ekkert fjárfest í sjávarútvegi á Íslandi síðustu árin en þeim mun meira erlendis en við höfum tekið þátt í sjávarútvegi víða um heim. Við hófum rekstur hér á Akureyri sunnudaginn 1. maí fyrir 28 árum þegar Akureyrin sigldi inn Eyjafjörð. Rætur okkar liggja hér. Þegar þetta tækifæri kom upp hér á heimaslóð fannst okkur, þrátt fyrir að blikur séu á lofti í útveginum, rétt að stíga fram og leggja okkar af mörkum til að ekki verði frekari röskun á atvinnu og lífskjörum hér á svæðinu en orðin er. Það er óvissa um stjórn fiskveiða en stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist skapa sjávarútveginum traustan rekstrargrundvöll og öryggi til framtíðar. Við höfum ávallt haft trú á sjávarútveginum. Þess vegna höfum við ákveðið að leggja 3.600 milljónir króna í þennan rekstur. Við gerum okkur grein fyrir því að þessi ákvörðun felur í sér nokkra áhættu en við teljum okkur ráða við hana, ekki síst vegna þess að afkoma af starfsemi okkar erlendis hefur verið ágæt að undanförnu. Við munum selja erlendar eignir til að leggja fram það eigin fé sem þarf og færa þannig gjaldeyri inn í landið. Í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda gerum við ráð fyrir að geta haldið áfram þeirri starfsemi sem nú er hjá fyrirtækinu og tryggt afkomu starfsfólks okkar, ‘‘ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.