Samherji á Sjávarútvegssýningunni í Brussel

Samherji hf. tók þátt í Sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðustu viku á myndarlegan hátt. Standur Samherja naut mikilla vinsælda og verður þátttaka félagsins að teljast vel heppnuð. Þó að gestkvæmt hafi verið á Samherja standinum voru menn þó almennt sammála um að heildarfjöldi gesta á sýningunni hafi verið færri en undanfarin ár. Mögulegt er að þar hafi eldgosið í Eyjafjallajökli og truflun þess á flug haft einhver áhrif þó að það sé líklega ekki eina skýringin.

 

Gamlir og nýir viðskiptavinir komu til að hitta starfsmenn Samherja, Icefresh Seafood, Seagold og Kötlu Seafood og var oft glatt á hjalla er menn voru kannski að hitta hvorn annan í fyrsta sinn eftir að hafa verið í síma- og/eða tölvupóstsambandi. Einnig nýttu menn tækifærið til fundarhalda við tengda aðila þó ekki væri um bein viðskipti að ræða.

Á standinum var gestum Samherja boðið að smakka á afurðum félagsins sem voru framreiddar af hinum annálaða meistarakokk Einari Geirssyni á Rub23. Hinar fersku og heilnæmu afurðir framreiddar af Einari höfðu án efa áhrif á að samningar voru gerðir og ný viðskiptasambönd stofnuð. Ljóst er að þátttaka í sýningu sem þessari er á margan hátt mikilvægur þáttur í sölu og markaðssetningu á afurðum Samherja.

brussel10_014_400