Samherji fjárfestir í frystigeymslu

Samherji hf og Framherji í Færeyjum hafa gengið frá kaupum á 42% hlut í frystigeymslunni Bergfrost í Fuglafirði í Færeyjum. Frystiklefar Bergfrosts eru 3 og eru þeir sprengdir inn í fjallshlíð í Fuglafirði, rúmmál þeirra samtals er 50.000 m3, og taka þeir allt að 13.000 tonnum af frystum afurðum á brettum. Þá er í byggingu 700 fm hús við hlið frysti-geymslunnar til flokkunar og skráningar á fiski.  Byggingin verður svokölluð landamærastöð þar sem taka má á móti fiski sem kemur frá löndum utan Evrópusambandsins og mun uppfylla allar kröfur þar að lútandi. Verður þetta ein af þremur landamærastöðvum ESB í Færeyjum. 
faer2003_1129bbheimas

"Vegna mikillar aukningar á frystingu uppsjávarfisks gefur þessi fjárfesting okkur tækifæri til að bregðast betur við þeirri þróun, ekki síst með tilliti til flutnings afurðanna á fjarlæga markaði, " segir Unnar Jónsson umsjónarmaður flutninga hjá Samherja.
Þess má geta að frystigeymsla af þessu tagi þarfnast minni orku til að viðhalda frosti en hefðbundnar geymslur, og er rekstur Bergfrosts því  hagkvæmur.  Fyrsti farmurinn hefur þegar verið sendur til geymslu í Bergfrosti, en flutningaskipið Green Snow tók 1.650 tonn af frystri síld í Neskaupstað í vikunni sem var skipað upp í Fuglafirði í gær.

Meiri upplýsingar um Bergfrost fást á heimasíðunni  www.bergfrost.com .