- öll grunnskólabörn í Eyjafirði fengu merki
Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrir hönd Samherja hf., afhenti lögreglunni á Akureyri að gjöf endurskinsmerki sem lögreglan sá svo um að koma til allra grunnskólabarna í Eyjafirði. Um er að ræða tæplega 4.000 endurskinsmerki. Þetta er í fyrsta sinn sem öllum grunnskólabörnum í firðinum eru færð merki, en sl. þrjú ár hafa börn á Akureyri fengið slíka gjöf.
|
Þorsteinn Pétursson, forvarnar- og fræðslufulltrúi lögreglunnar á Akureyri, sagði er merkin voru afhent að nafni sinn, Þorsteinn Már, hefði tekið vel í beiðni lögreglunnar um að kaupa endurskinsmerki á alla nemendurna og þannig stuðlað að öryggi barnanna. "Það þurfti ekki nema eitt símtal," sagði Steini Pé og hélt áfram "það er á ábyrgð foreldra að börnin noti merkin. Ekki er lengur afsökun fyrir því að börnin hafi ekki á sér endurskinsmerki, því nú fá allir slík merki í hendur. Þeir sem nota endurskinsmerki sjást fimm sinnum betur en aðrir er skyggja tekur."
Fimmtudaginn 4. nóvember var sérstakur endurskinsmerkjadagur í Eyjafirði og að beiðni lögreglunnar fóru kennarar yfir það með börnunum hvar og hvernig best væri að festa slík merki á sig. "Kennarar voru einnig beðnir að tala við eldri nema um að nota merkin þó það væri ekki í tísku, einfaldlega vegna þess að þeir eru fyrirmynd þeirra sem yngri eru," sagði Steini Pé að lokum.