Samherji hættir landvinnslu á Stöðvarfirði í september

Á fundi með fulltrúum verkalýðsfélagsins Vökuls og starfsmönnum frystihúss Samherja hf. á Stöðvarfirði, sem haldinn var fyrr í dag, var tilkynnt að Samherji hyggst sameina landvinnslur félagsins á Stöðvarfirði og Dalvík, á Dalvík. Frystihúsi félagsins á Stöðvarfirði verður því lokað þann 1. september nk. og öllum starfsmönnum félagsins þar sagt upp frá og með þeim tíma. Um er að ræða 32 starfsmenn í 25 stöðugildum.
Á fundi með fulltrúum verkalýðsfélagsins Vökuls og starfsmönnum frystihúss Samherja hf. á Stöðvarfirði, sem haldinn var fyrr í dag, var tilkynnt að Samherji hyggst sameina landvinnslur félagsins á Stöðvarfirði og Dalvík, á Dalvík. Frystihúsi félagsins á Stöðvarfirði verður því lokað þann 1. september nk. og öllum starfsmönnum félagsins þar sagt upp frá og með þeim tíma. Um er að ræða 32 starfsmenn í 25 stöðugildum.

Áform um að sameina landvinnslur Samherja á Dalvík og Stöðvarfirði voru fyrst kynnt á samráðsfundi með fulltrúum verkalýðsfélagsins og starfsmönnum þann 21. janúar sl. Frá þeim tíma hefur verið unnið að því að draga úr áhrifum þessara breytinga á atvinnulíf á Stöðvarfirði. Að þeirri vinnu hafa komið fjölmargir aðilar; frá sveitarfélaginu Austurbyggð, Þróunarfélagi Austurlands, starfsmenn Samherja auk ýmissa sérfræðinga og ráðgjafa.
Það liggur fyrir að vöntun er á starfsfólki, bæði á Stöðvarfirði og öðrum þéttbýlisstöðum á svæðinu frá Breiðdalsvík til Norðfjarðar. Um er að ræða störf í sjávarútvegi og ýmsum öðrum greinum. Þess vegna hefur Samherji lagt áherslu á bættar almenningssamgöngur á þessu svæði og mun félagið greiða niður ferðakostnað fyrrum starfsmanna sinna.
Samherji á viðræðum við sjávarútvegsfyrirtæki, bæði á Stöðvarfirði og í nágrannabyggðarlögum um samstarf á sviði hráefnisöflunar og markaðssetningar. Einnig er unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast uppbyggingu smærri fyrirtækja á staðnum, sem unnið gætu í samstarfi við nýtt álver á Reyðarfirði.
Það er trú forsvarsmanna Samherja að þau verkefni, sem nú er unnið að, auk tilkomu jarðganga til Reyðarfjarðar, muni auka atvinnutækifæri íbúa Stöðvarfjarðar. Komi til þess að jarðgöngin verði ekki opnuð fyrr en í byrjun október mun öllum starfsmönnum, sem ekki eru í nýju starfi, verða tryggð laun til þess tíma.