Samherji hefur ákveðið að hætta allri skreiðarverkun á Hjalteyri við Eyjafjörð. Með þessu er verið að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í kjölfar niðurskurðar þorskveiðiheimilda.
Ellefu manns hafa unnið á Hjalteyri og verður þeim öllum boðin vinna í öðrum deildum Samherja. “Það er ljóst að minna verður af fiski til að vinna á næsta ári og við erum að bregðast við því. Hluti af því hráefni sem þarna hefur verið unnið verður sent í hausaþurrkun okkar á Dalvík en hluti fer annað. Þetta er fyrsta skrefið til að bregðast við minnkandi veiðiheimildum í þorski. Við ætlum okkur að mæta niðurskurðinum með hagræðingu, nýsköpun og öflugt markaðsstarfi að vopni,” segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja hf.