Síðdegis í gær var undirritað í Hlíðarfjalli gjafaafsal sem felur í sér að Samherji hf. gefur Akureyrarbæ til fullrar eignar og umráða nýtt nestishús sem risið hefur á skíðasvæðinu.
Húsið skal vera til afnota fyrir alla skíðaiðkendur og sér í lagi afdrep og nestisaðstaða fyrir nemendur í skíðaskólum sem reknir eru á svæðinu. Andrésarskólinn og samsvarandi starfsemi á vegum Skíðafélags Akureyrar skulu hafa afnot af húsinu fyrir þann búnað sem skólinn á og notaður er við skíðakennslu barna á svæðinu.
Meðfylgjandi mynd var tekin í nýja nestishúsinu að undirritun lokinni. Krakkar úr skíðaskólanum stilla sér upp fyrir framan Guðmund Karl Jónsson, forstöðumann skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, Eirík Björn Björgvinsson, bæjarstjóra á Akureyri, Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja, og Önnu Maríu Kristinsdóttur, starfsmannastjóra Samherja.