Þriðjudaginn 22. apríl, veitti forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Samherja hf. Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það var Þorsteinn Már Baldvinsson sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.(Þakkarávarp hér) (myndir frá athöfninni hér )
Þetta er í fimmtánda sinn sem verðlaunin eru veitt og í úthlutunarnefndinni sitja fulltrúar frá embætti forseta Íslands, viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Landsnefnd alþjóða verslunarráðsins, Alþýðusambandi Íslands og frá Útflutningsráði, en Útflutningsráð ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna. Að þessu sinni sátu í nefndinni:
Stefán L. Stefánsson, Ágúst Einarsson, Einar Benediktsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Páll Sigurjónsson, sem einnig var formaður nefndarinnar.
Áður hafa eftirtalin fyrirtæki hlotið útflutningsverðlaunin: Delta hf. (2002), GoPro Landsteinar hf. (2001), Bakkavör hf. (2000), Flugfélagið Atlanta ehf. (1999), SÍF hf. (1998), Hampiðjan hf. (1997), Eimskipafélag Íslands (1996), Guðmundur Jónasson hf. (1995), Sæplast hf. (1994), Íslenskar sjávarafurðir hf. (1993), Össur hf. (1992), Flugleiðir (1991), Marel hf. (1990) og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (1989).
Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar á útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar.
Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.
Í stöðugri sókn
Páll Sigurjónsson formaður úthlutunarnefndar, sagði meðal annars í ávarpi sínu í tilefni verðlaunaveitingarinnar: „Samherja hf. eru veitt verðlaunin fyrir að hafa náð sérlega góðum árangri í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á íslensku sjávarfangi. Fyrirtækið fer fremst í fylkingu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og hefur vakið mikla athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Kraftur og áræðni einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur.
Rekstrartekjur Samherja hf. á árinu 2002 námu rétt rúmum 13 milljörðum króna og rekstrarhagnaður félagsins var tæpur 1,9 milljarður króna, sem er mesti hagnaður í sögu félagsins. Velta skiptist nánast til helminga á milli útgerðar og vinnslu í landi og hlutfall útflutnings af veltu árið 2002 var um 95%. Starfsmenn félagsins í árslok voru 739 og starfsmenn dótturfélaga voru 60. Hluthafar í fyrirtækinu voru í árslok 2.323 og á stærsti einstaki aðilinn 17% hlut í félaginu. Samherji hf. er því „Stór“-fyrirtæki á íslenskan mælikvarða.“
Verðlaunahafinn fær í hendur sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem hann fær leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu. Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Gerði Gunnarsdóttur, myndhöggvara en merki Útflutningsverðlaunanna er eins og áður hannað af Hilmari Sigurðssyni.
Listaverkið sem unnið er í brons og blágrýti, heitir SÓKN og lýsir þessu framsækna fyrirtæki sem stendur fyrir; sjósókn, markaðssókn og sókn til framfara.