Samherji hf. kaupir frystitogarann Akraberg

Breytingar á skipastól Samherja hf.

Samherji hf. hefur gengið frá kaupum á frystitogaranum Akrabergi frá Framherja Spf. í Færeyjum, sem er að þriðjungshlut í eigu Samherja.  Í kaupsamningi um skipið er ákvæði um skilarétt innan 3ja mánaða frá undirritun.  Akrabergið fær einkennis-stafina EA-410.  Í áhöfn skipsins eru 28 menn og skipstjóri er Eydunn á Bergi, sem verið hefur skipstjóri skipsins um árabil.
Skipið hélt í gærkvöld á úthafskarfaveiðar. 

Að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf. er tilgangur kaupanna að nýta úthafskarfaheimildir, sem Samherja og íslendingum hefur verið úthlutað, utan lögsögu Íslands.  Samskonar kaupsamningur var gerður á síðasta ári milli Samherja og Framherja og gengu kaupin til baka að tæpum tveimur mánuðum liðnum.