Rekstrartekjur Samherja-samstæðunnar voru 8.887 milljónir króna á liðnu ári, samanborið við 9.465 milljónir króna árið áður, og rekstrargjöld 7.620 milljónir króna, samanborið við 7.757 milljónir króna árið 1998. Reikningsskilaaðferðir eru óbreyttar á milli ára.
Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.267 milljónum króna. Afskriftir námu rúmlega 883 milljónum króna og fjármagnsliðir voru 307 milljónir króna.
Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir tekju- og eignarskatt nam 77 milljónum króna og að teknu tilliti til tekju- og eignarskatts félagsins, annarra tekna og gjalda og áhrifa hlutdeildarfélaga var hagnaður ársins 200 milljónir króna.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar var 881 milljón króna samanborið við 1.397 milljónir króna árið áður. Veltufé frá rekstri móðurfélags var 1.027 milljónir króna.
Efnahagur
Heildareignir Samherja hf. í árslok 1999 voru bókfærðar á 13.915 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar námu hins vegar 9.257 milljónum króna og var því eigið fé félagsins í árslok 4.658 milljónir króna, samanborið við 4.316 milljónir króna í árslok 1998.
Í árslok var eiginfjárhlutfall félagsins 33,5%, samanborið við 34,7% í lok ársins 1998. Veltufjárhlutfallið var 1,09, samanborið við 0,98 í árslok 1998.
Erlend starfsemi
Rekstur Onward Fishing Company Ltd., dótturfélags Samherja hf. í Bretlandi, var í jafnvægi á árinu. Hins vegar gekk rekstur dótturfélags Samherja GmbH í Þýskalandi, útgerðarfyrirtækið DFFU, afleitlega á árinu. Samherji GmbH á 99% hlut í DFFU og var reksturinn mjög erfiður. Aflabrögð skipa DFFU voru almennt mjög léleg allt árið og til að mynda brugðust veiðar í Barentshafi. Það hafði í för með sér mikið tekjutap fyrir félagið en fastur kostnaður þess er mikill.
Engan veginn ásættanleg niðurstaða
„Það er alveg ljóst að þessi niðurstaða er, þegar á heildina er litið, engan veginn ásættanleg," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. „Rekstur móðurfélagsins er að vísu í góðu lagi miðað við aðstæður. Þar á ég við að bæði sumar- og haustvertíðin í loðnu brugðust, rækjuveiði var léleg og gengisþróunin var félaginu óhagstæð. Hins vegar náði góð bolfiskveiði og hátt verð fyrir þær afurðir að vega að mestu leyti þar upp á móti. Ég er jafnframt sáttur við þá fjármunamyndun sem átti sér stað í rekstri móðurfélagsins," segir hann.
Þorsteinn Már segir hins vegar ljóst að erlend starfsemi Samherja hafi ekki gengið sem skyldi. „Við afskrifuðum á árinu 1999 ríflega 100 milljónir króna vegna fjárfestinga okkar í Bandaríkjunum og stefnum að því að losa okkur alfarið út úr rekstri þar," segir hann.
Hann segir ennfremur ljóst að grípa verði til enn róttækari aðgerða en þegar hefur verið gripið til hvað varðar endurskipulagningu rekstrarins í Þýskalandi. „Við gerðum okkur vonir um að sú endurskipulagning sem við höfum gert á rekstri DFFU síðustu misseri myndu skila sér í bættum rekstri á liðnu ári. Hins vegar voru aflabrögðin með eindæmum léleg á sama tíma og félagið ber mikinn fastan kostnað. Við vinnum að því að leita leiða til að draga eins og unnt er úr föstum kostnaði DFFU og gera félagið þar með betur í stakk búið til að bregðast við aflasamdrætti á borð við þann sem varð á liðnu ári. Það er alveg ljóst að við viljum ekki standa frammi fyrir svo lélegri afkomu þessa dótturfélags okkar að ári liðnu," segir hann.
Munum gera okkar besta
Þorsteinn Már segist telja horfurnar fyrir yfirstandandi ár í heild sinni þokkalegar. „Það eru að vísu ýmislegt sem getur haft áhrif á reksturinn til hins verra hjá Samherja eins og öðrum fyrirtækjum í þessari atvinnugrein. Ég nefni t.d. að afurðaverð á loðnu og lýsi er tiltölulega lágt og óvissa er um framvinduna í kjarasamningaviðræðum. Á hinn bóginn er verð fyrir bolfiskafurðir hátt og markaðshorfur góðar. Loðnuveiðarnar hafa ennfremur gengið vel það sem af er ári, svo ég nefni ljósa punkta líka. Af framansögðu er ljóst að erfitt er að segja ákveðið til um rekstrarhorfurnar á yfirstandandi ári. Samherji er hins vegar sterkt og öflugt félag sem hefur tvímælalaust burði til að gera vel. Við munum einfaldlega gera okkar besta og sjá hverju það skilar," segir Þorsteinn Már.
Aðalfundur 7. apríl nk.
Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn föstudaginn 7. apríl nk. í Nýja bíói á Akureyri og hefst hann kl. 14:00. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 31. mars nk.
Stjórn félagsins gerir tillögu um að greiddur verði 7% arður til hluthafa á árinu 2000 fyrir rekstrarárið 1999.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. mánudaginn 20. mars 2000. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.