Kaupendur að 65% eignarhlutnum í Samherja GmbH eru nokkrir af stærstu hluthöfum í Samherja hf., þ.e. Þorsteinn Már Baldvinsson, Kristján Vilhelmsson, Kaupfélag Eyfirðinga, Kaupþing hf. og Finnbogi A. Baldvinsson. Við mat á verðmæti selds eignarhluta í Samherja GmbH var gengið út frá sama heildarverðmæti hlutabréfa í því félagi og miðað var við í samkomulagi við KEA um skipti á hlutabréfum í BGB-Snæfelli fyrir hlutabréf í Samherja.
Á fundinum samþykkti stjórnin ennfremur að Samherji GmbH gangi inn í kaup Finnboga A. Baldvinssonar á þýska fiskvinnslufyrirtækinu Hussmann & Hahn. Í framhaldi af þessu verða DFFU og önnur dótturfyrirtæki Samherja GmbH og Hussmann & Hahn, rekin sem ein fyrirtækjasamstæða undir sameiginlegri yfirstjórn.
Áhrif á afkomu
Eignarhlutur Samherja hf. í Samherja GmbH var bókfærður á um 77 milljónir króna um síðustu áramót. Að teknu tilliti til skatta er hagnaður af sölu eignarhlutans í Samherja GmbH um 570 milljónir króna. Því er ljóst að fjármunatekjur Samherja á árinu verða mun hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Á móti kemur að félagið hefur orðið fyrir miklu gengistapi frá sex mánaða uppgjöri, eða sem nemur hátt á fjórða hundrað milljónir króna.
Nettóskuldir lækka um helming
Með sölu á 65% af eignarhluta Samherja hf. í Samherja GmbH lækka nettóskuldir Samherja hf. um helming. Þær eru nú um 6 milljarðar en fara í um 3 milljarða fyrir kaup á eigin bréfum og sameiningu við BGB-Snæfell hf.. Af þessum þremur milljörðum króna nemur vaxtalaus skattskuldbinding rúmum einum milljarði króna.
Mjög hagkvæmur og góður kostur
"Salan á 65% hlut félagsins í Samherja GmbH er að mínu mati mjög hagkvæmur og góður kostur," segir Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja.
Finnbogi bendir á að þar með losi Samherji um rúma tvo milljarða króna, sem til þessa hafi ekki skilað mikilli fjármunamyndun inn í móðurfélagið. "Mér sýnist að heildarskuldir Samherja, eftir þessa sölu, kaup á eigin hlutabréfum og sameiningu við BGB-Snæfell hf., verði litlu meiri en þær voru fyrir allar þessar aðgerðir. Það hlýtur að teljast mjög góð niðurstaða, því gera má ráð fyrir að vegna sameiningarinnar við BGB-Snæfell aukist veltufé frá rekstri Samherja, að öðru óbreyttu, um a.m.k. 400 milljónir króna frá því sem nú er," segir hann.
Finnbogi segir að salan á 65% eignarhlutnum nú sýni að sú ákvörðun Samherja á sínum tíma að kaupa DFFU hafi tvímælalaust verið rétt. Sú ákvörðun hafi nú skilað sér í auknu verðmæti Samherja hf. og komi hluthöfum félagsins til góða.
"Við erum áfram þátttakendur í sjávarútvegi í Þýskalandi og í raun er óbein þátttaka okkar miðað við veltu óbreytt frá því sem var. Við eigum nú um þriðjung í fyrirtæki sem væntanlega kemur til með velta þrisvar sinnum hærri fjárhæðum en við veltum áður. Munurinn er hins vegar sá að fjárbinding okkar og áhætta er innan við 20% af því sem áður var."
Samherji GmbH
Samherji GmbH var stofnað í Þýskalandi af Samherja hf. árið 1995, samhliða kaupum á 50% eignarhlut í útgerðarfyrirtækinu DFFU. Árið 1998 keypti Samherji GmbH allt hlutafé í DFFU. Mjög mikil uppstokkun hefur verið gerð á rekstrinum frá því að Samherji hf. kom að fyrirtækinu en þrátt fyrir það hefur reksturinn verið erfiður.
Velta félagsins árið 1999 var tæpir 2 milljarðar íslenskra króna. Félagið hefur á þessu ári gert út fjóra frystitogara og eitt ísfiskskip. Á liðnu vori seldi félagið einn togara til hlutafélags sem er að hálfu í eigu Samherja GmbH og er hann á veiðum undir rússnesku flaggi. Í liðinni viku seldi félagið síðan annan togara til útgerðarfyrirtækis í Þýskalandi. Með þessum eignasölum hafa skuldir félagsins lækkað verulega.
Hussman & Hahn
Hussman & Hahn á sér 90 ára sögu í Cuxhaven. Það rekur m.a. fiskréttaverksmiðju og ferskfiskvinnslu og eru aðalviðskiptavinir félagsins stórmarkaðskeðjur í Þýskalandi. Velta félagsins á liðnu ári var um 6,7 milljarðar íslenskra króna.
Fyrirtækið hefur átt í rekstrarerfiðleikum að undanförnu. Fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum náði Finnbogi A. Baldvinsson, með stuðningi stjórnvalda í Neðra-Saxlandi, samkomulagi við helstu lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins til að tryggja áframhaldandi rekstur þess. Í tengslum við það samþykktu bankar og aðrir lánardrottnar verulega niðurfellingu á skuldum félagsins.
Forstjóri Samherja GmbH verður Finnbogi A. Baldvinsson og framkvæmdastjóri Husmann & Hahn Dr. Klaus Vieten, sem áður var m.a. einn af framkvæmdastjórum Frosta, eins stærsta framleiðslu- og sölufyrirtækis sjávarafurða í Þýskalandi.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. fimmtudaginn 14. desember 2000. Nánari upplýsingar veita Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður, í síma 562 1919 og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.