Samherji kaupir skip til uppsjávarveiða

Mynd: ÞórhallurJ/Pedromyndir
Mynd: ÞórhallurJ/Pedromyndir
Samherji hf. hefur fest kaup á skipi á Hjaltlandseyjum. Skipið er 71 metri að lengd og 13 metrar á breidd og sérstaklega hannað til uppsjávarveiða. Það hefur 10.000 hestafla vél og burðargeta þess er 2.100 tonn í sjókælitönkum (RSW). Skipið var smíðað í Noregi árið 1998.

 

Skipið, sem nú ber nafnið Serene LK-297, kemur til Akureyrar á morgun þriðjudag en verður afhent Samherja síðar í vikunni. Það mun hljóta nafnið Margrét EA-710 en skip með því nafni hefur nú verið í eigu félagsins í 20 ár. Ráðgert er að skipið fari í sína fyrstu veiðiferð fyrir Samherja innan skamms.

Samherji hefur ávallt kappkostað að hafa sem bestan og fullkomnastan búnað í veiðum og vinnslu til að búa sem best að starfsfólki sínu og auka samkeppnishæfni félagsins. Kaupin á Serene eru þannig liður í nauðsynlegri endurnýjun skipastóls fyrirtækisins en reiknað er með að á næsta ári fari eldra skip úr rekstri fyrir hið nýja skip.