Helstu niðurstöður atvinnuþróunarverkefnis, sem hrundið var af stað er ljóst varð í byrjun árs að breytingar yrðu á landvinnslu Samherja hf. á Stöðvarfirði, voru kynntar á fundi í gærkvöld. Síðan þá hefur orðið ljóst að Samherji mun loka vinnslu sinni á Stöðvarfirði þann 1. október næstkomandi. Markmið verkefnisins, sem Austurbyggð, í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands og Samherja, hrinti af stað var að leita lausna í atvinnu- og byggðamálum Stöðvarfjarðar. Auk þess var fjallað stuttlega á fundinum um þær hugmyndir um atvinnusköpun sem skoðaðar hafa verið í samvinnu við einstaklinga á staðnum.
Á fundinum kynntu Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, og Magnús Gauti Gautason rekstrarráðgjafi þá vinnu og þær hugmyndir sem Samherji hefur unnið að í samvinnu við heimamenn um uppbyggingu á Stöðvarfirði. Gestur kynnti þá ákvörðun Samherja að leggja 20 milljónir króna í að byggja upp smærri fyrirtæki á staðnum.
Hugmyndin er að leggja fram eina til þrjár milljónir í formi hlutafjár í rekstur smærri fyrirtækja sem gætu skapað nokkur störf á staðnum. Auk þess er Samherji tilbúinn að leggja fram húsnæði sitt og aðstöðu á staðnum ef þess gerist þörf. Þá hefur Samherji gengið frá samningi við Rekstrarráðgjöf Norðurlands um að fyrirtækið aðstoði Stöðfirðinga við mat og gerð rekstraráætlana vegna þeirra viðskiptahugmynda sem upp kunna að koma.
Gestur kom einnig inn á að Samherji væri tilbúinn að leggja til umtalsvert fé svo hægt verði að tryggja almenningssamgöngur á svæðinu. Að undanförnu hefur Samherji átt í viðræðum við Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði um samstarf. Gestur upplýsti á fundinum að nú þegar hefur 10 starfsmönnum Samherja sem unnu á Stöðvarfirði verið boðin vinna hjá Loðnuvinnslunni. "Þær hugmyndir sem skoðaðar hafa verið byggja meðal annars á því að Samherji selji Loðnuvinnslunni aflaheimildir sem nemi um 3-500 þorskígildistonnum, auk þess sem hugsanlegt samstarf í sölumálum hefur verið rætt," segir Gestur.
Magnús Gauti fór yfir þá vinnu sem búið er að vinna og kynnti þau verkefni sem skoðuð hafa verið. "Það eru aðallega ýmis hliðarstörf sem tengjast álversuppbyggingu á svæðinu, en ljóst er að Alcoa ætlar sér að kaupa nær alla þá þætti sem ekki snúa beint að álbræðslunni og er hér um að ræða meiri aðkeypta þjónustu en þekkst hefur á Íslandi til þessa," sagði Magnús Gauti.