Samherji hf. hefur gengið frá sölu á öllum hlutabréfum félagsins í Skagstrendingi hf. Eignarhlutur Samherja var 40,57% eða krónur 127.126.478 að nafnvirði. Söluverð bréfanna var ríflega 1.334 milljónir króna sem er tæplega 300 milljónum króna hærra en Samherji greiddi fyrir eignarhlutinn. Kaupandi bréfanna var Kaupþing hf.
Samherji keypti hlut í Skagstrendingi á síðastliðnu sumri. Það var skoðun stjórnenda Samherja að Skagstrendingur væri góður fjárfestingarkostur og að samvinna á milli félaganna ætti að geta skilað báðum verulegum ávinningi. Það var hins vegar mat stjórnenda Samherja, þegar félaginu barst hagstætt tilboð í eignarhlutinn, að félaginu væri ekki stætt á öðru en taka því tilboði. Með sölu á þessum eignarhlut hefur félagið einnig losað verulega fjármuni sem nýtast munu í ný og spennandi verkefni. Fréttatilkynning frá Samherja hf. miðvikudaginn 26. janúar 2000. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460 9011