Samherji hf. bauð til móttöku í Flugsafni Íslands á Akureyri í dag og afhenti við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna að fjárhæð 60 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru veittir til íþrótta- og æskulýðsfélaga á Akureyri og Dalvík.
Samherji hefur í rúman aldarfjórðung verið hluti af eyfirsku samfélagi og lengst af meðal stærstu fyrirtækja á svæðinu. Því fylgir mikil ábyrgð og hefur félagið um árabil látið samfélagið í kringum sig njóta góðs af starfseminni með því að styrkja innviði þess með ýmsum hætti. Þátttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til.
Fjármununum skal varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og kostnað við keppnisferðir þeirra. Nefnd á vegum Samherja mun vinna með viðkomandi félögum að ráðstöfun styrkjanna. Nefndina skipa þau Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Árni Óðinsson.
Samherji styrkti einnig HL-stöðina á Akureyri sem er endurhæfingastöð fyrir hjarta- og lungnasjúklinga. Endurhæfingardeildinni í Kristnesi var veittur styrkur til tækjakaupa og Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk styrk til að setja upp merkingar á útivistarsvæðinu í Kjarnaskógi.
“Við vorum ánægð með hvernig til tókst með þetta á síðasta ári og áttum mjög ánægjulegt samstarf við félögin um framkvæmdina, sem var í heild til fyrirmyndar. Við vonum að þetta verði áfram jafn ánægjulegt, bæði fyrir okkur og félögin á svæðinu,” segir Helga Steinunn Guðmundsdóttir, sem afhenti styrkina fyrr í dag.
Nánari upplýsingar veitir Helga Steinunn Guðmundsdóttir í síma 862 8563.